08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (1687)

69. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh.(Magnús Guðmundsson):

Ég skal vera mjög stuttorður. Mun ég byrja á að svara því, sem hv. 2. þm. S.-M. talaði um og ekki er á dagskrá, nefnilega skipun mþn. í sjávarútvegsmálum. Mér skildist hann vilja hafa í henni einn mann úr hverjum landsfjórðungi, en það er nú nokkuð erfitt, þar sem ekki áttu að vera nema þrír menn í n., að taka menn úr fjórum landshlutum. Svo vil ég benda hv. þm. á það, að í fyrra var skipuð hliðstærð n. fyrir landbúnaðinn. Ekki var tekinn sinn maðurinn úr hverjum landsfjórðungi í hana, og olli það ekki neinni óánægju. Vitaskuld er þessum n. aðallega ætlað að safna skýrslum, og þess vegna skiptir engu máli, hvar nm. eru búsettir. Ég held, að hv. 2. þm. S.-M. geti útbúið skýrslur fyrir nágranna sína, ef þeir geta það ekki sjálfir, sem ég er ekkert hræddur um. Þessar aðfinnslur hv. þm. eru því alveg út í bláinn og ástæðulausar.

Þá vík ég að því máli, sem hér er til meðferðar. Hv. 2. landsk. sagði, að það hefði hvergi verið nein gæzla við strendur landsins, þegar Ægir var fyrir norðan að bjarga togara nú fyrir skemmstu. þetta er ekki rétt. Auk varðskipanna eru hafðir bátar við gæzlu hingað og þangað. Í þetta skipti var bátur við gæzlu hér á Faxaflóa og annar fyrir austan. Á hinn bóginn er ekki gott að fyrirbyggja, að skip, sem hafa gufukatla, þurfi að hreinsa þá við og við, og hitt varðskipið var, eins og menn vita, við björgun.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi það varasamt, ef stj. ætlaði sér að halda fast við að fara ekki fram yfir fjárveitingu fjárl., því það gæti komið ríkissjóði í koll síðar. Það getur vel verið, að það komi ríkissjóði í koll, en þingið hefði þá átt að sjá það fyrir og hafa fjárveitinguna rífari, ef það hefði séð sér fært. En hluturinn var sá, að þegar fjárl. voru samin, sáu þm. ekki fært að hafa fjárveitinguna hærri. Og ég vil einmitt leggja áherzlu á það, að stj. verður að halda sér við ákvæði fjárl. (IP: Á sjó a. m. k. Það gerir minna til, þó farið sé út fyrir fjárl. á landi!). Hún er venjulega á landi, ríkjsstj., og þessi regla gildir bæði hvað snertir framkvæmdir á sjó og landi. Það er nú svona, að þegar illa lætur í ári, verður einhversstaðar að spara. Heldur hv. þm., að það sé alltaf hægt að halda áfram eins og gert var á árinu 1930, þegar varð svona 6 til 7 millj. kr. tekjuhalli? Seinni hluta ársins 1932 var sparað sem svarar 1/4 millj. kr. á þeim lið, sem hér er um að ræða, miðað við árið 1931, og var þó notað allt það fé, sem veitt var í fjárl. Vilji þm. skilja sín eigin fjárl. þannig, að stj. eigi ekkert að fara eftir þeim, þá geta þeir alveg eins hætt að setja fjárl. og falið stj. fjárveitingavaldið í hendur.

Vitanlega er mismunandi þörf á landhelgisgæzlu á ýmsum stöðum eftir árstíðum, og það er reynt að fara eftir því. þess vegna eru bátar notaðir við gæzluna þegar mest kallar að á einhverjum stað, því að þeir eru miklu ódýrari en stór skip.

Hv. þm. hélt, að það mundi vera lítill sparnaður við að láta skipin skiptast á við gæzluna, því að á mannahaldi gæti ekkert sparazt á þann hátt. Það er nú þó svo, því allir hásetarnir eru skráðir úr skiprúmi í hvert skipti, og sparast við það mikið fé. En á hinn bóginn er ekki hægt að hafa skipin alltaf úti hvort sem er. Þau þurfa alltaf að koma í höfn við og við, bæði vegna skipshafnanna og til þess að láta hreinsa katla og vélar.

Ég ætla svo að taka það tillit til tilmæla hæstv. forseta, að hafa ekki mál mitt lengra. Ég skal lofa hv. 2. þm. S.-M. því, að ég skal rannsaka, hvernig því var varið með þennan togara, sem hann heldur, að hafi legið fyrir vörpunni, en ekki akkeri. Ægir var þarna fyrir austan 8–10 daga af september, og ætti það að sýna, að Austfirðir hafa ekki orðið útundan þann mánuð. (IP: Gæzlan var samt afarslæm). Þó að skipið væri þarna eystra 8–10 daga af mánuðinum, þá er hv. þm. samt óánægður. Meira var ekki hægt að gera fyrir Austfirði þann mánuði vegna annara landshluta, og meira hefði ekki komið í hlut þessa svæðis, þó öll þrjú skipin hefðu verið úti.