03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Hæstv. dómsmrh. hefir nú lýst yfir skoðun sinni á þessu máli, og lét hann svo um mælt, að hann mundi ekki sjálfur hafa látið kjósanda kjósa hjá sér vottalaust utan kjörfundar, ef hann hefði verið kjörstjóri, og verður ekki önnur ályktun dregin af þessu en að hann telji þetta rangt. — Misfellurnar á kosningunni í Hafnarfirði geta hæglega ráðið úrslitunum um hana. Þannig hlaut Kjartan Ólafsson í sinn hlut meiri hl. greiddra atkv. á kjörstað, og það er ekki fyrr en utankjörfundaratkv. koma til sögunnar, að Bjarni Snæbjörnsson verður ofan á, og þrátt fyrir allar misfellurnar fær hann þó kjörbréf hjá kjörstjórninni. Auk vottorðalausu atkv. hefir það einnig upplýstst, að bæjarfógetinn hefir verið vilhallur í framkvæmd kosningarinnar og þannig veitt kjósendum Sjálfstfl. aðstoð til að kjósa, en synjað kjósendum Alþfl. hins sama. Varð ágreiningur í yfirkjörstjórninni út af þessum atkv., sem bæjarfógetinn hafði veitt aðstoð við. Segir svo um það í útskrift úr gerðabók yfirkjörstjórnarinnar:

„Út af þeim ágreiningi tók yfirkjörstjórnarmaður Björn Jóhannesson það fram, að þar sem honum þegar við byrjun atkvgr. utan kjörstaðar hafði verið tilkynnt af bæjarfógeta, að það væri hans skoðun, að aðstoð við atkvgr. eigi mætti eiga sér stað eða ráð eigi gert fyrir því í þar um gildandi lögum, mótmæli hann, að atkv., sem sýni, að aðstoð hafi verið veitt, verði gild tekin.

Svar oddvita yfirkjörstjórnar við þessu var það, að hann rétt á eftir umrætt viðtal við kjörstjórnarmanninn hafði fengið þær upplýsingar frá þeim einhverjum, er staðið hafi fyrir kosningu utan kjörstaða í Reykjavík, að aðstoð þessi væri þar látin í té og kjósendur jafnvel um það spurðir, hvort þeir æsktu slíkrar aðstoðar, ef það kæmi fyrir, og hafi svo lögreglustjóri borið það undir dómsmálaráðuneytið, er látið hafi það uppi, að um „analogi“ eða hliðstæðu við niðurlag 33. gr. kosningal., nr. 28 frá 1915, myndi vera að ræða.“

Við þessa lögskýringu er það fyrst og fremst að athuga, að atkvgr. utan kjörstaða fara fram eftir 1. frá 1928, sem eru miklu strangari en gömlu lögin um þetta efni og verða því ekki borin saman við þau.

Þessi vottorðalausu atkv., sem ekki verður fundin nein stoð í 1. og hæstv. dómsmrh. líka hefir lýst yfir, að væru ólögleg, á nú að fara að taka gild, og það enda þótt hér eigi í hlut embættismaður, sem sýnt hefir sig að vera vilhallur í framkvæmd þessara kosninga. Þannig neitar hann Alþfl.mönnum um að veita aðstoð, en fer strax á eftir á stúfana fyrir atbeina sjálfstæðismanna og talar við „þann einhvern“, er staðið hefir fyrir kosningu utan kjörstaða í Reykjavík, og fær hjá honum þessar upplýsingar, sem sjálfstæðismenn munu einmitt hafa óskað eftir. Hver „þessi einhver“ hefir verið, fær maður ekki að vita. Hæstv. dómsmrh. neitar, að það hafi verið hann, en ef til vill hefir það verið skrifstofustjóri hans, eða kannske það hafi bara verið Daníel. Því hefir verið haldið fram, að Alþfl. hafi verið tilkynnt um þessa breyttu aðstöðu bæjarfógetans, en fyrir því er enginn fótur, eins og sést af eftirfarandi vottorði:

„Við undirritaðir, sem unnum á kosningaskrifstofu Alþýðuflokksins í Hafnarfirði við síðustu alþingiskosningar, vottum hér með að gefnu tilefni, að okkur var á mjög greinilegan hátt gert það skiljanlegt af bæjarfógeta, er kosning hófst á skrifstofu hans, að engin aðstoð yrði þar veitt við kosninguna þeim, er ekki gætu kosið sjálfir, og yrðu þeir því að bíða til kjördags, ef þeir vildu nota kosningarrétt sinn.

Skrifstofu Alþýðuflokksins var aldrei tilkynnt síðar, að nein breyting hefði verið gerð á þessu atriði, en við komumst að því, er við fengum að sjá skrá bæjarfógeta yfir þá, sem hjá honum höfðu kosið, og sáum, að þar var tilgreint, að aðstoð hefði verið veitt.

Hringdum við þá þegar til fulltrúa Alþýðuflokksins í yfirkjörstjórninni og spurðum hann, hvort yfirkjörstjórnin hefði tekið ákvörðun um þessa breytingu, en hann neitaði því algerlega og kvað bæjarfógeta ávallt hafa haldið því fram mjög ákveðið, að engin aðstoð yrði veitt við kosningu hjá honum.

Hafnarfirði, 3. nóv. 1933.

Ólafur Þ. Kristjánsson. Jóh. Tómasson.

Í framhaldi af ofangreindu vottorði skal það tekið fram, að áður en kosning byrjaði hjá bæjarfógeta, spurði ég hann að, hvort aðstoð yrði veitt við kosninguna á skrifstofunni hjá honum, og neitaði hann því algerlega. Mér var síðan aldrei tilkynnt nein breyting á þessu.

Hafnarfirði, 3. nóv. 1933.

Björn Jóhannesson

fulltrúi Alþýðuflokksins í yfirkjörstj. Hafnarfjarðarkaupstaðar.“

Ég sé ekki annað en að með þessum vottorðum sé það sannað, sem haldið hefir verið fram hér bæði í dag og í gær, að bæjarfógetinn hafi verið vilhallur sjálfstæðismönnum í kosningunum, eða fulltrúi hans, með því að hann hefir veitt öðrum flokknum þau forréttindi að fá að kjósa með aðstoð, en neitað hinum flokknum um þetta. Þetta hefir getað ráðið jafnvel úrslitum kosningarinnar, því að margir kjósendur munu hafa farið úr bænum án þess að kjósa, af því að þeim var kunnugt, að aðstoð yrði ekki veitt við kosningarnar, eins og bæjarfógetinn hafði skýrt Alþfl. frá. — Sjálfstæðismenn hafa haldið því fram í þessum umr., að kosningu Bjarna Snæbjörnssonar eigi að taka gilda, af því að sýnt sé, að hann hafi fengið meiri hl. atkv. En geta sjálfstæðismenn nokkuð um það sagt, hvað mörgum kjósendum var meinað að kjósa af þessum ástæðum, sem ég nefndi? Og ég skil ekki í því, hvernig Alþingi getur tekið kosningu Bjarna Snæbjörnssonar gilda eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið í málinu, og þar sem hæstv. dómsmrh. jafnvel hefir lýst yfir því, að hann líti svo á, að votta beri að hafa við kosningar utan kjörfundar. Eftir þeim skilningi bar yfirkjörstjórninni tvímælalaust að veita Kjartani Ólafssyni kjörbréf sem rétt kosnum þm. fyrir Hafnarfjörð, en með því að Alþ. hefir ekki haft þá venju að kjósa sjálft þm. inn í þingið, álít ég tvímælalaust, að ónýta eigi kosninguna.