24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Það gleður mig, að hv. samþm. minn hefir ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum um mig og að hann hefir ekki gert sér neinar vonir um mig í neinu sambandi. En ég verð þó að segja það, að ég veit þá ekki, hvernig skilja á tilburði hans við mig undanfarið, ef hann hefir aldrei gert sér neinar vonir um mig.

Bollaleggingar hv. 2. landsk. um þingmennskuvonir mínar get ég varla verið að ræða frekar, en ég get þó endurtekið það enn á ný, að ég mun hvorki bjóða mig fram í Austur-Húnavatnssýslu eða annarsstaðar, ef það er ekki í samræmi við vilja samflokksmanna minna í kjördæminu, en um aðra hirði ég ekki.

Hv. 1. landsk. talaði stillilega og vel, eins og hans er von og vísa. Hann vildi bera blak of flokkstjórnunum, og skal ég ekki væna þær um það, að þær geri ekki allt sitt bezta, má vel vera, að svo sé. Hv. 1. landsk. vildi sanna ágæti landslista með mönnum völdum af flokksstjórnunum, með því, að landskjörið hefði ekki lagt Alþingi til verri þm. en kosnir hefðu verið í kjördæmum. Sæti sízt á mér að vilja mótmæla þessu, enda ætla ég, að nokkuð sé til í því, en ég vil benda á annað atriði í þessu sambandi, sem er það, að flestir landsk. þm. eru héðan úr Rvík. Í hópi hinna landsk. þm. eru aðeins 2 bændur, ég og hv. 6. landsk., og það er einmitt tilviljun ein, að við eigum hér sæti. Þá vil ég einnig benda á það, að nokkru öðru máli gegnir með landskjörið en með uppbótarþingsætin. Við landskjörið hefir riðið á því fyrir flokkana að sýna fólkinu álitleg nöfn, til þess að safna atkv. um listana. Þar skiptir öðru máli með uppbótarþingsætin. Þar geta menn flotið inn á fylgi flokks síns án þess að hafa nokkurt persónulegt fylgi. Þegar einhver frambjóðandi í kjördæmi fellur, lenda atkv. á uppbótarmanninum, sem engin vissa er fyrir, að hafi traust eða fylgi. Með þessu móti verður réttur flokkanna tryggður á kostnað hinna einstöku kjördæma og kjósenda. Hvaða uppbætur fær t. d. minni hl. eins og varð í Norður-Ísafjarðarsýslu með þessu fyrirkomulagi um úthlutun uppbótarþingsætanna? (JónÞ: Hvað fær hann nú?). Eftir frv. eins og það nú er að því er þetta snertir fær mikill minni hl. hinsvegar uppbótarþingsæti, og virðist það óneitanlega réttmætara, að uppbótarsæti lendi þannig hjá manni, sem safnað hefir um sig mörgum atkv., heldur en hjá einhverjum náunga í Rvík, sem nýtur til þess klíkuskapar einhverrar flokksstjórnar. Ég verð því að álíta, að fyrirkomulagið um þetta eins og það er orðið í frv. sé miklu betra. Með því segi ég ekki, að hv. 1. landsk. eða aðrir reikningsglöggir menn geti ekki komið með einhverjar till. til bóta á þessu fyrirkomulagi, og vil ég lýsa yfir því, að ég er reiðubúinn til að ljá öllum slíkum till. lið mitt.