30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

N. ber fram 27 brtt. við þennan mikla lagabálk, á þskj. 204. Það eru samt ekki nærri því eins margar efnisbreyt. á frv., sem í þessum till. felast, eins og till. eru margar. Efnisbreyt. eru aðeins örfáar, eiginlega ekki nema þrjár.

Í þessari greinargerð mun ég gera grein fyrir brtt. hverri fyrir sig. Fyrsta brtt. er við 28. gr. og felur í sér kröfu um, að frambjóðendur á landslista, sem ekki eru jafnframt í kjöri í kjördæmi, leggi fram yfirlýsingu um, að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Brtt. er að efni til tekin eftir tilsvarandi grein í stjfrv., sem féll burt við atkvgr. um kosningalögin við 3. umr. í Nd., án þess að n., sem hafði málið til meðferðar þar, þó hefði gert neinar till. um að fella hana burt. N. hér í deildinni leggur til, að þetta ákvæði verði tekið upp í frv. aftur, en það er sú heimild, sem var í stjfrv. til að hafa tvennskonar landslista í kjöri. Við þessa umræddu atkvgr. við 3. umr. málsins í Nd. var fellt burt úr frv. allt það, sem lýtur að þeirri heimild, að hafa í kjöri það, sem kallað hefir verið þingmanna á milli raðaðan landslista, þ. e. a. s. landslista eins og þann, sem stjskr., sem búið er að samþ., gerir ráð fyrir.

Ég vil minna á það, að í stjskr. er ákvæðið svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði kjósendur atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista“. Ennfremur segir: „Frambjóðendur þess flokks, sem landslista hefir í kjöri og nær jöfnunarþingsætum, taka sæti eftir þeirri röð, sem þeir eru í á listanum að lokinni kosningu. Skal að minnsta kosti annaðhvert sæti tíu efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Rvíkur“. Frv. fylgdi í því nákvæmlega ákvæðum stjskr., að þar var heimilað að hafa í kjöri slíkan lista, sem stjskr. einmitt gerir ráð fyrir. En jafnframt var og er í frv. heimilað að hafa öðruvísi skipaða landslista eða lista, sem séu eingöngu skipaðir frambjóðendum flokka í kjördæmum.

Það var talsvert um það rætt í n., hvort það væri ástæða til eða réttlátt að fallast á þá breyt., sem Nd. hafði gert á þessu, og að því er virðist án þeirrar athugunar, sem slík stórbreyt. hefði átt að fá í n. áður en deildin gekk til atkv. um hana. Niðurstaða n., eða a. m. k. meiri hl. hennar, varð því sú, að ekki sé rétt að fella þessa heimild úr frv. Það getur verið, að ástæður nefndarmanna fyrir því að vilja ekki fella þetta burt séu dálítið mismunandi, og ég skal því ekki fullyrða, að ég lýsi beinlínis öðrum skoðunum en mínum.

Um þetta vil ég þá fyrst segja það, að mér finnst vera gengið of nærri ákvæðum þeirrar stjskr., sem verið er að lögleiða, ef það verður á sama þingi gert óheimilt með kosningalögunum, sem er í rauninni alveg berum orðum heimilað í stjskr., og það er, að á landslista séu nokkrir menn, ef flokkur óskar þess, sem ekki eru í kjöri í kjördæmi. Þannig má skipa allt að helmingi tíu efstu sæta eftir stjskr., og séu fleiri, þá eftir vild þar fyrir neðan. Ég álít ákaflega varhugavert, að það þing, sem er að setja þessi nýju stjórnskipunarlög, fari að gefa fordæmi í því að ganga í bága við ákvæði stjskr. með öðrum lögum. Ég veit, að með lögskýringum má finna því stað, að stjskr. bindi ekki hendur löggjafarvaldsins um þetta, vegna þess, hvernig orðalagið er á þessu í stjskr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skal að minnsta kosti annaðhvort sæti tíu efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Reykjavíkur“. Þess vegna má segja, að ekki sé beinlínis bannað að ganga lengra en stjskr. krefst um þetta, og heimta t. d., að öll þessi tíu sæti séu skipuð frambjóðendum í kjördæmum utan Rvíkur, en bersýnilega er það að efni til að ganga í bága við það, sem stjskr. segir. og banna það, sem hún heimilar, ef banna á, að nokkrir menn, sem ekki eru frambjóðendur í kjördæmum, séu á landslista.

Fyrir utan þessa formlegu ástæðu, þá vakir fyrir mér mjög veigamikil efnisástæða fyrir því, að ég vil ekki, að kosningalögin banni það, sem stjskr. heimilar í þessu efni. í fyrsta lagi er það, að þessi stjskr., sem við erum nú að afgr. frá okkur, er yfirleitt ákaflega lítið frjálsleg í öllum þeim atriðum, sem fjalla um kosningar til Alþ. Það eru mörg ákvæði hennar í þeim kafla, sem um þetta fjallar, svo ófrjálsleg, að það er annaðhvort einsdæmi eða a. m. k. er leitun á jafnófrjálslegum ákvæðum í nokkurri stjskr. Norðurálfunnar. Þetta hefir þau áhrif á mig, að ég kann ómögulega við að vera svo með einföldum 1. að skerða það frelsi, sem stjskr. þó eftirlætur á þessu sviði. Eitt af því, sem hún lætur frjálst, er einmitt þetta, að nokkrir menn geti verið frambjóðendur á landslista, þó að þeir séu ekki frambjóðendur í kjördæmum jafnframt. Ég er ekkert að fullyrða um, hvernig þetta verður framkvæmt, en ég vil aðeins, að það sé látið frjálst í kosningalögunum, sem stjskr. hefir ekki bundið. Það má líka líta á það, hvort nokkuð muni vera óeðlilegt í því, þar sem þessi stjskr. er talin vera spor í áttina til framþróunar, að örfáum mönnum sé gefinn kostur á að öðlast sæti á Alþ., þó að þeir séu ekki í kjöri í sérstökum kjördæmum. Ef heimild stjskr. um þetta er notuð til þess ýtrasta, þá má gera ráð fyrir, að það geti orðið 5—6 menn af þessum 49, sem ekki hafa verið í kjöri í sérstökum kjördæmum. Nú hefir Alþ. Íslendinga verið skipað svo alla tíð, frá því að það var endurreist, sem kallað er, að á því hafa átt sæti nokkrir menn, sem ekki hafa verið fulltrúar sérstakra kjördæma. Fyrst voru konungkjörnir þm. og svo stjórnkjörnir í raun og veru um nokkurt skeið, og nú landskjörnir.

Í umr. um stjskrbreyt., sem nú er að verða að 1., var frá upphafi borin fram sú krafa úr ýmsum áttum og með töluverðum styrkleik, að ekki yrði tekinn af kjördæmum landsins sá réttur, sem þau hingað til höfðu haft, til að velja sér þm. sérstaklega. Þessum kröfum hefir nú verið fullnægt algerlega í stjskrfrv. sjálfu, þar sem nú er í fyrsta sinni í okkar nýrri þingsögu tekin upp kjördæmaskipting í sjálfa stjskr., þannig, að kjördæmunum er nú tryggður stjórnskipulega þessi réttur, sem þau hafa óskað eftir, til að velja fyrir sig sérstaka þingfulltrúa.

Ég varð aldrei var við hitt, að það kæmi fram krafa um, að hver einasti þm. yrði skipaður á þann hátt, að hann yrði fulltrúi fyrir sérstakt kjördæmi, fyrr en í lok umr. um þetta á síðasta þingi. Þá skaut þessi nýja krafa upp höfðinu, að koma í veg fyrir, að nokkrir menn gætu átt sæti á Alþ., sem ekki hefðu leitað eftir kosningu í kjördæmum. Ég álít, að sú krafa fari lengra en þjóðin í raun og veru kærir sig um og hægt er og réttlátt að framkvæma.

Ég viðurkenni það, eins og allir menn úr Sjálfstfl., sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls, hafa gert frá upphafi, að krafa kjördæmanna um að kjósa sér sérstaka fulltrúa er að öllu leyti réttmæt, en hinsvegar get ég ekki viðurkennt, að valið á landsk. þm. hafi tekizt þannig hingað til, að ástæða sé til að banna nú með 1., að 5—6 menn geti átt sæti á þingi, þó að þeir hafi ekki leitað eftir kosningu í sérstökum kjördæmum. Ég hefi heyrt þá mótbáru gegn því að leyfa slíkum mönnum sæti á landslista, að það séu í raun og veru flokksstjórnirnar, sem þá ráði sætum þeirra. Nú hefir n. gert uppástungur um aðra tilhögun við kosningu landslista heldur en áður var í frv. Hún leggur til, að þeir kjósendur, sem greiða landslista atkv., fái jafnframt því, sem þeir gefa listanum atkv. sitt, rétt til að gefa einhverjum einum frambjóðanda á listanum atkv. sitt sérstaklega, og það atkv. komi til að gilda sem heilt atkv., þegar gert er út um, hverjir hafa náð kosningu innan listans. Með þessu móti er valdið til að ráða því, hvaða frambjóðendur landslista komast að, í höndum kjósenda að meira leyti en það er í frv. óbreyttu. Þó má segja, að flokksstjórnirnar, sem raða á listana, ráði töluverðu um, hvernig niðurröðunin verður á listanum, því að reynslan er sú, að margir kjósendur una við röðina óbreytta, og þá vitanlega af því, að þeir hafa ekkert við hana að athuga. Frá mínu sjónarmiði vil ég bæta því við, að ef mönnum virðast flokksstjórnirnar hafa of mikið vald í þessu efni, að geta ráðið röðinni á listunum, einnig fyrir þá frambjóðendur, sem ekki eru jafnframt í kjöri í kjördæmi, þá er auðvitað til það ráð við því, að auka inn í frv. samskonar ákvæði eins og nú er í kosningalögunum að því er snertir kröfu um meðmælendur með þessum landslistum. Ef mönnum þætti það draga nokkuð úr valdi flokksstjórnanna, þá er með því ráðin nokkur bót á því, sem helzt hefir verið fundið þessari tilhögun til foráttu. Hitt veit ég, að hver einasti þdm. er sannfærður um, að það hefir enga raunverulega þýðingu, þó að tekið verði upp svipað ákvæði og nú er um landslista og krafizt vissrar tölu meðmælenda í hverjum landsfjórðungi með slíkum lista. En væri þetta gert, þá er a. m. k. þeim mönnum, sem koma á landslista, gerð sama krafa og öðrum frambjóðendum til þess að geta verið í kjöri. Það eru ekki aðrar kröfur gerðar í þessu frv. til þeirra, sem bjóða sig fram til Alþingis, en að þeir fái mjög takmarkaða tölu meðmælenda og að þeir hafi sjálfir kjörgengi.

Ég hefi með þessum orðum gert grein fyrir þeim ástæðum, sem urðu til þess, eftir því sem ég bezt veit, að meiri hl. n. fer fram á, að tekin verði aftur upp í frv. þessi heimild fyrir svokallaðan óraðaðan landslista, sem felld var burt í Nd. Um þær af brtt., sem beinlínis lúta að þessu, skal ég vera fáorður. Önnur brtt. er við 29. gr. og er bein afleiðing af því, sem hér hefir verið sagt, og er að efni til tekin eftir tilsvarandi málsgr. í stjfrv., sem felld var burt í Nd.

Við 30. gr. eru 2 brtt. N. hefir ekki þótt ástæða til að heimila fleiri frambjóðendur á landslista en 38 og leggur til, að því verði komið í framkvæmd á þann hátt, að þegar landslisti annars er skipaður öllum frambjóðendum flokka í kjördæmum, þá séu ekki úr neinu kjördæmi teknir fleiri á listann en þar á að kjósa þm. Flokksstjórnirnar ákveða svo, hverjir skuli komast á listann, ef fleiri eru í framboði af hálfu flokksins í kjördæmi en þar á að kjósa. Þetta þykir n. eðlilegast, þó að meiri hl. hennar annars sé fylgjandi þeirri breyt., sem gerð var í Nd., um að framboð af hálfu flokksins í kjördæmi skuli ekki bundið samþykki flokksstjórnar. Það er hinsvegar óumflýjanlegt, að flokksstjórnir ráði meiru um landslista en um framboð í einstökum kjördæmum, þar sem þær verða að bera landslistana fram.

Að öðru leyti er brtt. við 30. gr. afleiðing af því, sem ég þegar hefi sagt. Síðasta málsgr. hennar er aðeins skýrar orðuð heldur en hún nú er í frv. Það þykir nauðsynlegt, að frambjóðandi í kjördæmi, sem afsalar sér rétti til sætis á landslista, tilkynni það landskjörsstjórn jafnsnemma framboði sínu.

4. brtt., við 39. gr., er aðeins orðabreyting, sem leiðir af því, sem þegar hefir verið tekið fram, og þar kemur jafnframt að því, að n. leggur til, að í burt falli tölustafir þeir, sem prentaðir eru fyrir framan nöfn frambjóðenda á landslista og frambjóðenda í Reykjavík í frv. eins og það nú er. Eins og kunnugt er, hefir ekki tíðkazt, hvorki við landskjör eða hlutfallskosningu hér í Reykjavík, að prenta tölustafi framan við nöfnin á listunum. Hinsvegar er kjósendum heimilað að gera breyt. á röðinni á listanum með því að skrifa tölustafi framan við nöfnin. Eftir þeim breyt., sem n. annars ber fram um tilhögun atkvgr. við kosningu landslista, þá verður þessi tölusetning alóþörf, og verður hún að teljast heldur til óþæginda fyrir þá, sem kynnu að vilja breyta röðinni á listanum með því að skrifa sjálfir tölustafi framan við nöfnin.

5. brtt., við 42. gr., er einungis um þetta sama, að tölusetningin við nöfn frambjóðenda á lista falli burt. 6. brtt., við 43. gr., er aðeins til skýringar. N. þótti tryggara að setja ákvæði um það í frv., ef það færist fyrir, að yfirlýsing fylgdi framboði um, hvaða flokki það tilheyrði. Þó að það sé í sjálfu sér vafasamt, hvort hægt sé að telja þetta galla á framboði, þá virðist rétt, að gefið sé tækifæri til að bæta um þetta, eins og aðra galla, sem kynnu að vera á framboði. Þykir n. því rétt að auka þessu inn í frv.

7. brtt., við 48. gr., er aðeins leiðrétting á prentvillu. 8. brtt., við 51. gr., fer fram á, að sleppt verði ákvæðinu um, hve hár sá hluti seðilsins skuli vera, sem ætlaður er fyrir atkvgr. landslista til handa. Það er ekki tekið fram í greininni, hve hár efsti hluti kjörseðilsins skuli vera, og þykir ekki frekar ástæða til að ákveða neitt um hæð neðri hlutans, því að hver hluti fyrir sig verður vitanlega svo hár sem þurfa þykir til þess að tala frambjóðenda rúmist þar.

9. brtt., við 54. gr„ er um það, að n. leggur til, að öll ákvæði frv. um að breyta röð á landslista með því að setja tölur fyrir framan nöfn frambjóðenda og eins að strika yfir þær, ef kjósandi vill fella framboð af listanum, falli burt. N. álítur, að það sé ákaflega mikil hætta á, að það valdi kjósendum erfiðleika, ef þeir nota þessa heimild, og geti jafnvel orðið til þess að gera kjörseðla svo gallaða, að tvímælum orki, hvort atkv. geti talizt gild. Í staðinn fyrir þetta leggur n. til, að kjósanda, sem vill greiða landslista atkv., verði heimilað þetta tvennt: Í fyrsta lagi að krossa við listann án þess að eiga nokkuð frekar við hann, og þá hefir hann greitt listanum atkv. með þeirri röð, sem á honum verður að kosningu lokinni, og í öðru lagi, ef kjósandi vill nota rétt sinn frekar, þá leggur n. til, að það sé honum heimilað með því að skrifa á sama reit nafn þess frambjóðanda, sem hann vill gefa atkv. sitt sérstaklega. Til meðmæla þessari till. n. færi ég það fyrst og fremst, að þetta er miklu einfaldari tilhögun, og svo einnig það, að með þessu er kjósanda gefið það vald, sem hann með réttu á, til að greiða sínum flokki atkv., og auk þess einhverjum tilteknum frambjóðanda, sem hann fellir sig betur við en aðra, sem á listanum kunna að vera.

10. brtt., við 55. gr„ er um að tölusetning skuli falla burt, og er það í samræmi við það, sem áður hefir verið talað um.

11. brtt., við 68. gr„ er um það þegar kjósandi í Rvík greiðir atkv. utan kjörfundar. Svo er ákveðið um þetta í frv. og sömuleiðis í núgildandi kosningalögum, að kjósandi greiði atkv. með því að rita á kjörseðilinn bókstaf þess lista, sem hann vill kjósa. Í frv. er ennfremur heimild til að breyta nafnaröðinni á listanum á sama hátt og ætlazt er til, að menn geti gert á landslista. N. hefir fallizt á, að í staðinn fyrir þetta verði tekið upp óbreytt ákvæðið um þetta, sem er í núgildandi kosningalögum, og sem ekki virðist hafa valdið neinum vandræðum, en það er, að kjósandi má, auk þess að skrifa bókstaf listans, geta þess, hvernig hann vill hafa röðina á listanum.

Þá er 12. brtt., við 69. gr. Hefi ég gert grein fyrir henni áður, að kjósandi, sem vill kjósa landslista utan kjörfundar með því að rita bókstaf listans á kjörseðilinn, hann geti þar fyrir utan gefið öðrum atkv. sitt persónulega með því að skrifa nafn hans á seðilinn.

13. brtt., við 76. gr., stendur ekki í sambandi við þær aðrar brtt., sem ég hefi nefnt. Það er aðeins orðabreyt. til þess að heimilt sé utan kaupstaða að setja

kjörfund fyrir kl. 12. N. sýndist að vísu, að við venjulegar þingkosningar í byrjun júlí væri nægur tími, þó að kjörfundur væri settur kl. 12 árdegis, en kæmi það t. d. fyrir, að aukakosningar færu fram á öðrum tíma árs og mun nær skammdegi, þá getur farið svo, að birta sé of stutt til að ljúka kjörfundi, ef hann er ekki settur fyrr en á hádegi, og er það aðallega af þeirri ástæðu, sem n. vill víkka þetta.

Þá er 14. brtt., við 89. gr. Hefi ég í raun og veru þegar gert grein fyrir henni, og 15., 16. og 17. brtt., um að 90., 91. og 92. gr. falli burt, þær eru aðeins afleiðing af því, að n. vill fella burt þá aðferð til röðunar á lista, sem þessar gr. skýra frá. Að því er 92. gr. snertir skal ég bæta því við, að n. lítur svo á, að það geti ekki verið heimilt að telja þeim flokki landslistaatkvæði, sem ekki hefir landslista í kjöri, en þessi gr. gerir ráð fyrir því. Stjskr. segir berum orðum, að heimilt sé að hafa landslista í kjöri, enda greiði kjósandi þá atkv. annaðhvort frambjóðanda eða landslista. Það er alveg gengið frá þessu í frv. Þar er gert ráð fyrir því, að kjósandi, sem greiðir atkv. sitt frambjóðanda, geti að vissu leyti greitt landslista atkv. með því að gera röðunarbreytingu. Þetta álítum við ekki heimilt.

Þá er 18. brtt., við 99. gr. Er hún eiginlega viðauki til skýringar. Gr. gerir þá kröfu til kjósanda, sem hefir greitt atkv. utan kjörstaðar, af því að hann hefir gert ráð fyrir að vera fjarstaddur á kjördegi, að hann gefi sig fram við kjörstjórnina, ef sú fyrirætlun seinna hefir breytzt, svo að hann er viðstaddur á kjördegi. Svo segir gr. ekki meira um þetta. En meiningin er sú, að ætlazt er til, að kjósandi greiði þá atkv. á kjördegi, ef hann vill, en utankjörfundarseðillinn komi þá ekki til greina, og um það sér þá kjörstjórnin eftir að atkvgr. er lokið. Okkur þykir réttara að taka það fram, að kjósandi, sem hlýðir ákvæðum gr. og gerir vart við sig á kjörstaðnum, greiði þar atkv., því að utankjörfundarseðill hans verður gerður ógildur hvort sem er.

Þá er 19. brtt., við 100. gr. Hún felur aðeins það í sér, að ef kjörfundur hefir staðið í 12 stundir, þá megi slíta kjörfundi, er fjórðungur stundar er liðinn frá því að síðasti kjósandi gaf sig fram. Það væri auðvelt að nota þetta ákvæði um hálfa stund þannig, að kjörfundur gæti staðið þar til um fótaferðartíma næsta dag, og þykir ekki ástæða til að ýta undir það.

20. brtt., við 113. gr., er ekki efnisbreyt., en n. þótti viðkunnanlegra að telja upp undir þessum lið þau atriði ein, sem eiga að valda ógildingu atkvæðis. Eins og þetta er orðað nú er undir þessum lið sagt, að ógildingu kjörseðils valdi atriði, sem ekki gera það, vegna þess að það eru undantekningar frá því síðar í 115. gr. í frv. er nefnilega ekki ætlazt til, að það valdi ógildingu kjörseðils, þó að kjósanda verði það á, að greiða atkv. bæði frambjóðanda og eins landslista sama flokks. Í 115. gr. er svo ákveðið, að í slíku tilfelli skuli landslistaatkv. talið ógilt, en atkv., sem greitt er frambjóðanda, gilt allt að einu.

21. brtt., við 114. gr., er ekki annað en orðabreyt., sem leiðir af þeim brtt., sem þegar eru komnar á undan.

22. brtt., við 117. gr., er um, að 2. málsgr. þeirrar gr. falli burt, en samkv. þeirri málsgr. getur flokkur, sem hefir ekki haft landslista, hlotið atkv. á landslista, en það álítur n., að geti ekki átt sér stað.

Þá kemur 23. brtt., við 119. gr. Hún er um það, hvernig eigi að finna atkvæðatölu, sem frambjóðendur á flokkslistum í Rvík hafa hlotið við kosninguna hver fyrir sig. Ástæðan fyrir því, að út í þetta er farið, er sú, að þegar í kjöri er óraðaður landslisti, þ. e. a. s. landslisti, sem er eingöngu skipaður frambjóðendum úr kjördæmum, þá á röðunin á honum að kosningu lokinni að miðast eftir vissri reglu við atkvæðatöluna, sem frambjóðendur hafa fengið hver í sínu kjördæmi við kosninguna. Nú eru til þrennskonar kjördæmi, í fyrsta lagi einmenningskjördæmi, og þar er enginn vafi á, hvaða atkvæðatölu hver frambjóðandi hefir fengið við kosninguna, þar er samanlögð tala þeirra kjörseðla, sem hann hefir verið kosinn á, sama og tala þeirra kjósenda, sem á bak við eru. Í öðru lagi eru tvímenningskjördæmi, og þar er þetta strax öðruvísi. Þegar á að telja saman flokksatkvæðin í slíkum kjördæmum, þá má ekki leggja saman atkvæðatölur þær, sem frambjóðendur hvers flokks hafa fengið þar, heldur verður að deila þeirri tölu með 2 að því er snertir þá kjörseðla, þar sem 2 hafa verið kosnir. En í þessu frv. er gert ráð fyrir, að atkv. sé gilt, þó aðeins einum hafi verið greitt atkv. Er þá eðlilegt að telja þá kjörseðla án deilingar með 2. Það verður því ekki komizt hjá að setja reglur um það, hvernig eigi að telja atkv. frambjóðenda í tvímenningskjördæmum, til þess að þær tölur verði sambærilegar við atkvæðatölur frambjóðenda í einmenningskjördæmum. Loks gildir þetta eins um Reykjavík, að það verður að finna einhverja reglu, hvernig eigi að telja atkv. þessara frambjóðenda til sætis á landslista, þannig, að sú atkvæðatala sé sambærileg við atkvæðatölur frambjóðenda í einmennings- og tvímenningskjördæmum. — Ákvæðin um það, hvernig eigi að fara að við röðunina á þessum landslistum, standa ekki í þeirri gr., sem hér er farið fram á að breyta, heldur í 1,31. gr. Ég kem þess vegna að þessu seinna, en skal að þessu sinni aðeins gera grein fyrir þeim reglum, sem hér á að fara eftir, þegar meta skal atkvæðatölur þeirra manna, sem kosnir eru eftir hlutfallskosningu í Rvík. Atkvæði á hlutfallskosningalistunum eru talin þannig, að efsti maður fær öll atkv., annar helming atkv., sá þriðji 1/3, sá fjórði ¼ o. s. frv., og ef 6 menn eru á lista, þá verður samanlögð atkvæðatala frambjóðendanna á listanum meira en tvöfalt hærri en sú atkvæðatala, sem listinn hefir fengið. Ennþá fjarstæðara er að nota þá reglu, sem nú er notuð, við þá endanlegu röðun innan lista, því að þar er það svo, að á 6 manna lista fær efsti maður öll atkv. sá næsti 5/6, sá þriðji 4/6 o. s. frv. Úr þessu samanlögðu verður vitanlega miklu hærri tala heldur en sú atkvæðatala, sem listinn hefir fengið. Þess vegna er hér stungið upp á reglu, sem felur það í sér, að atkvæðatala allra þeirra til samans, sem á listanum eru, verður sú sama og atkvæðatala listans, og er þessi regla ekkert torveldari en sú, sem nú er notuð, svo að ekki er hægt að hafa á móti henni frá því sjónarmiði.

Þá er 24. brtt., við 120. gr. Hún er um það, að ef varamaður af lista í Rvík hreppir uppbótarþingsæti, hversu þá skuli fara að. Þetta vantar nú í frv. N. stingur upp á, að þegar þetta kemur fyrir, skuli yfirkjörstjórn Rvíkur koma saman aftur og gefa næsta manni af listanum kjörbréf sem varaþingmanni, svo að eftir sem áður séu jafnmargir varamenn á listanum og þeir, sem kosnir voru, en sá, sem uppbótarþingsætið hlaut, gengur frá, en fær sitt jöfnunarþingsæti, en í hans stað kemur varamaður annarsstaðar af landslistanum eftir þeim reglum, sem þar um gilda.

25. brtt., við 125. gr., felur ekki í sér verulega efnisbreyt. umfram það, sem er í hinum brtt., sem þegar hefir verið bent á. Það er aðeins tilraun til að gera það skýrara, hvaða gögn yfirkjörstjórn skuli senda landskjörstjórn, og eru þar á meðal eftir frv. sérstaklega allir seðlar, þar sem landslisti hefir verið kosinn og röðunarbreyt. hafa verið gerðar. Okkur þykir nægja, að yfirkjörstjórn telji landslistaatkv. og hve mörg atkv. hafa verið greidd hverjum frambjóðanda persónulega. Það er svo einfalt mál, að yfirkjörstjórn er trúandi fyrir því.

Þá er 26. brtt., við 129. gr., að 7. tölul. þeirrar gr. falli burt, en þar er gert ráð fyrir, að landslistaatkv. geti komið þeim flokki til handa, sem ekki hefir haft landslista í kjöri.

Þá er loks 27. brtt., við 131. gr. Þar eru þrjár fyrstu málsgr. orðaðar um, en tvær þær síðustu látnar standa óbreyttar. Þessi gr. fjallar, eins og kunnugt er, um það, að finna, hverjir frambjóðendur hvers þingflokks hafi náð uppbótarþingsætum. N. hefir, til þess að gera þetta aðgengilegra fyrir þá, sem eiga að beita þessu, skipt þessu í þrjá tölul. Fjallar hver um sitt tilfelli, óraðaðan landslista, þar sem eru eingöngu frambjóðendur úr kjördæmum, raðaðan landslista, þar sem einnig geta verið menn, sem ekki hafa boðið sig fram í kjördæmi, og í þriðja lagi ef enginn landslisti er. Þessar málsgr. eru merktar a., b., og c. Málsl. a. geri ég ekki ráð fyrir að þurfi mikið að skýra. Aðferðin til að finna þá endanlegu röðun á þeim landslista er í aðalatriðunum mjög svipuð því, sem er í stjfrv. Þó eru þar á tvær breyt., önnur er sú, sem stendur ekki í neinu sambandi við aðrar breyt. frv., og hún er um það, hvaða atkvæðatala skuli gefin þessum lista. Í stjfrv. er lagt til, að það skuli gert með því að leggja saman öll atkv., sem hlotnazt hafa þeim flokki, sem bar listann fram. N. þótti þetta ekki eðlilegt, þar sem gera má ráð fyrir, að flokkurinn hafi við kjördæmakosningu fengið fleiri eða færri þingsæti og þeir frambjóðendur verið strikaðir af landslista. Okkur þykir eðlilegra, að með þeim, þegar þeir eru útstrikaðir, fylgi nokkur atkvæðatala, og það sé aðeins sú atkvæðatala, sem þá verður eftir, sem verður atkvæðatala listans, og við viljum, að sú atkvæðatala, sem dregin verði frá með hverjum kosnum þm., sé meðaltal þeirra atkv., sem koma á hvern þm. við úthlutun jöfnunarþingsæta. Ef t. d. meðaltalið er 900 atkv. og sá flokkur hafi fengið 5 þm. kosna, þá dregst frá samanlagðri atkvæðatölu þess flokks 5 x 900 atkv., en það, sem eftir er, sé atkvæðatala listans. Það skiptir ekki miklu máli, hvað gert er í þessu, en þó er það svo, að sú persónulega atkvgr., sem leyfð er, vegur þeim mun meira sem listanum eru gerð færri atkv., en breyt. frá ákvæðum stjfrv. leiðir beint af því, sem ég hefi áður gert grein fyrir, að kjósendum landslista hafi verið leyfð sú ein röðunarbreyt., að gefa einhverjum frambjóðanda atkv. sitt persónulega, og ákvæðið felur það í sér, að þessi persónulegu atkv. koma fullkomlega til greina sem heilt atkv. við hina endanlegu röðun á listanum.

Þá er b.-liður brtt., sem fjallar um hina endanlegu röð á landslista, sem hefir verið óraðaður frá upphafi og skipaður frambjóðendum flokksins í kjördæmum eingöngu. Ákvæði 131. gr. frv. eru svo ófullkomin, að við þau er ekki hægt að hlíta. Af þeim er í raun og veru ekki hægt að sjá, hvernig á að ákveða röðina. Og það stafar fyrst og fremst af því, að ekki er gerð grein fyrir, hvernig á að telja atkv. þeirra frambjóðenda, sem hafa verið á lista í Rvík, og eiginlega ekki heldur þeirra, sem bjóða sig fram í tvímenningskjördæmum. En þar sem óhjákvæmilegt er, að atkvæði þessara frambjóðenda eigi að hafa áhrif á röðun listans, eins og atkvæðatölur annara frambjóðenda, þá verður ekki hjá því komizt að ákveða, hvernig þau á að telja. Hitt getur vitanlega verið álitamál, hvort n. hefir tekizt að orða þau ákvæði á svo heppilegan hátt, að ekki verði um þau deilt.

Ég verð að biðja hv. þdm. afsökunar á því, að ég hefi í þessari hóstakviðu haft hausavíxl á stafliðum brtt. og talað um það undir b-lið, sem stendur undir a.-lið. Ég er þannig búinn að gera grein fyrir b-liðnum og tala nú um a-liðinn, sem er um hina óröðuðu landslista. Þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir, að strikuð séu út nöfn þeirra manna, sem kosningu hljóta í einstökum kjördæmum. Ég vil leiða athygli að því, að eins og þetta er að öðru leyti byggt upp, þá taka þessir frambjóðendur, sem strikaðir eru út af listanum vegna þess að þeir hafa náð kosningu í kjördæmi, með sér þá atkvæðatölu, sem þeir hafa fengið. Um þetta mun ekki verða neinn ágreiningur, þegar strikaður er út maður, sem náð hefir kosningu í einmenningskjördæmi. Og það mun heldur eigi valda ágreiningi, að svona eigi að fara að, þegar numinn er af landslista maður, sem kosningu hefir náð í Rvík, að þá fari með honum sá hluti atkvæðatölu Rvíkurlistans, sem í hans hlut hefir komið, hvaða regla sem notuð er til að finna hann út. En hitt mun frekar þykja vafasamt, hvort rétt sé að líta svo á, að maður, sem náð hefir kosningu í tvímenningskjördæmi, og fyrir þá sök er numinn af landslista, eigi að taka með sér nokkra atkvæðatölu, eða hvort hinsvegar eigi að líta svo á, að ef eftir verður á listanum annar frambjóðandi sama flokks, sem ekki hefir náð kosningu, þá eigi hann að halda eftir allri atkvæðatölu flokksins í kjördæminu. Mér fyrir mitt leyti finnst ekki vera hægt annað samræmis vegna en láta þeim manni, sem náð hefir kosningu í tvímenningskjördæmi, fylgja þá kjósendatölu, sem svarar til þess atkvæðamagns, sem hann hefir fengið, og láta hinn, sem eftir kann að verða á listanum vegna þess að viðkomandi flokkur hefir ekki náð nema öðru þingsæti kjördæmisins, aðeins halda þeirri atkvæðatölu, sem hann sjálfur hefir fengið. Ég geri ráð fyrir, að um þetta atriði verði síðar rætt, svo ég skal ekki fara lengra út í það nú.

Þegar numdir hafa verið af listanum þeir, sem kosningu hafa náð í kjördæmi, er gert ráð fyrir, að bætt sé við kjördæmaatkvæði hvers frambjóðanda, sem eftir er á listanum, þeim atkv., sem hann hefir persónulega hlotið á landslista. Síðan er stungið upp á að halda þeirri reglu, sem inn í frv. var sett í hv. Nd., að annaðhvert sæti á listanum skuli skipað eftir atkvæðatölum frambjóðandans beinlínis, og annaðhvert sæti eftir því, hvað mikinn hluta af greiddum atkv. í sínu kjördæmi hver frambjóðandi hefir náð. Það, sem hér þykir vafaatriði, er, hversu að skuli fara, ef tveir frambjóðendur eru af sama flokki í tvímenningskjördæmi og annar þeirra kemst að, en annar ekki. Ég hefi þegar gert grein fyrir, að n. eða a. m. k. meiri hl. hennar sýnist, að sá, sem kosningu nær og numinn er af landslista, hljóti að taka þaðan með sér nokkra atkvæðatölu, eins og aðrir, sem þaðan eru burtu numdir, og sá frambjóðandi, sem eftir er á listanum, geti því ekki notið atkv. allra kjósenda síns flokks í kjördæminu, þegar á að meta, hvar hann er í röð þeirra frambjóðenda á listanum, sem sæti eiga að taka eftir atkvæðafjölda. Aftur á móti verður annað ofan á, þegar fara á að meta, hvar sá frambjóðandi á að vera í röð þeirra manna á listanum, sem sæti eiga að taka eftir því, hvað þeir hafa fengið hlutfallslega mikið fylgi í sínu kjördæmi. Það er augljóst, að ef í því sambandi þessum frambjóðanda er reiknuð atkv.tala hans deilt með tveimur, þá verður samræmis vegna að reikna öllum hinum frambjóðendum kjördæmisins atkv. eftir sömu reglu. Ég býst við, að enginn mundi skilja ákvæði frv. eins og það kom frá hv. Nd. öðruvísi en á þennan hátt, og ég skil ákvæði brtt. á sama hátt að því er þetta snertir. Ef það þykir ekki koma nægilega skýrt fram í orðalagi till., má umbæta það við 3. umr.

Það er einnig ákveðið í frv. og þessum brtt., að ef fleiri en einn frambjóðandi af sama flokki og úr sama kjördæmi er eftir á listanum, þegar burt hafa verið numdir þeir, sem kosningu hafa náð, þá skuli nema þá burt, nema þann einan, sem flest hefir atkvæði. Nú er hér bætt við því ákvæði, sem ég hugsa, að öllum finnist sanngjarnt, að þegar þessir menn eru numdir burt af listanum, þá fari ekki þeirra atkvæðatölur með þeim, þar sem þeir eru ekki numdir burt vegna þess að þeir hafi náð kosningu, heldur færist þær yfir á þann frambjóðanda kjördæmisins, sem eftir verður á listanum. Þeir, sem gefa þessum mönnum atkv. sitt, eiga sama rétt á því og aðrir, að þeirra atkv. komi til greina, þegar endanlega er gert upp, hverjir eiga að hljóta uppbótarsætin. Í framkvæmdinni mun þetta því þýða það, að í tvímenningskjördæmi, þar sem kosnir hafa verið tveir menn af sama flokki, fær andstöðuflokkurinn uppbótarsæti þar, ef hann annars hefir tilkall til uppbótarsætis. Hafi verið kosinn sinn frambjóðandinn af hvorum flokki, fær hinn frambjóðandi þess flokks, sem tilkall á til uppbótarsæta, uppbótarsæti fyrir það kjördæmi, hafi hann fengið svo háa atkvæðatölu, en annars því aðeins, að tvímenningskjördæmið sé svo stórt, að helmingur atkvæðatölu þess vegi á móti kjósendafjölda einmenningskjördæmanna. Mér finnst þessi regla vera sanngjörn, hvernig sem hún fellur þeim í geð, sem eru í tvímenningskjördæmum og hafa vanið sig á að hafa í raun og veru tvöfaldan kosningarrétt á við aðra landsmenn.

Þá kem ég að staflið c., sem er um það, ef flokkur hefir ekki haft landslista, en á þó tilkall til uppbótarsæta. Þá á að gera honum uppbótarsætalista, skipaðan frambjóðendum hans í kjördæmum, þó ekki fleirum frambjóðendum úr hverju kjördæmi heldur en kjósa á. Nú þarf ekki lengur að láta flokksstjórnirnar ráða, hverjir koma á listann, ef fleiri frambjóðendur eru, því nú liggja atkvæðatölurnar fyrir, og einsætt þykir að taka þá, sem hæsta atkvæðatölu hafa fengið. Að öðru leyti skal svo farið með þetta eftir sömu reglum og búið er að greina undir staflið a. um óraðaða landslista.

Þá er loks frá því að skýra, að í prentun hefir fallið aftan af þskj. seinasta brtt. Felur hún aðeins í sér, að greinatala og tilvitnanir frv. breytist samkv. atkvgr.