07.12.1933
Efri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (1780)

81. mál, milliþinganefndir um nýbýlahverfi í sveitum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þessi till. hefir legið lengi fyrir án þess að komast á dagskrá. Mér virðist því útilokað, að till. komist í gegn á þinginu í því formi, sem fyrirhugað var í fyrstu. En till. fer fram á það, að skipuð verði mþn. til þess að athuga og undirbúa löggjöf um, að reist verði nýbýlahverfi í sveitum. Ég sé ekki, að á öðrum málum sé brýnni þörf heldur en að athuga. hvað hægt sé að gera við alla þá fólksfjölgun, sem á hverju ári kemur fram hér á landi og leitar til kaupstaðanna og eykur á þá erfiðleika, sem þar er við að stríða. Hinsvegar er víða til gott, óræktað land, þar sem menn mundu geta framfleytt sér og sínum, ef þeim væri gert mögulegt að setjast þar að og frumræktun yrði framkvæmd. Ég veit, að erfitt muni að leggja út í mál eins og þetta að þessu sinni, en ég hefi ekki komið auga á, að annað lægi nær en að ríkissjóður beitti sér fyrir að reisa nýbýlahverfi í þeim sveitum, sem bezt hefðu skilyrði til ræktunar, og þar sem að öðru leyti væri hægt að koma þeim upp. Ég er ekki nógu kunnugur á öllu landinu til þess að geta bent á alla þá staði, sem heppilegir eru til slíkrar ræktunar, en ég get bent á a. m. k. þrjú svæði. á svæðinu frá Snæfellsnesi og austur að Þverá í Rangarvallasýslu mætti reisa mörg hundrurð býli án þess að íþyngja þeim til nokkurra muna, sem fyrir eru þar. Það eru sérlega heppileg svæði í Hnappadalssýslu, Ölfusi og í Holtum á Rangárvöllum. Í þessum sveitum er mjög mikið af ræktanlegu landi ónotuðu og alveg við þjóðvegina, svo að þeir, sem þar reistu býli, ættu kost á beztu samgöngum á þann markað, sem nú er beztur hér á landi, til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Ég hefi í nokkur ár flutt frv. um nýbýlastofnun hér á Alþ., sem gerir ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til þess að koma heim framkvæmdum áleiðis. áhugasamir jarðræktarmenn hafa stutt málið og telja brýna þörf á því og að það muni líklegt til úrlausnar á miklu vandamáli. Það er alveg augljóst, að ekki yrðu gerðar framkvæmdir í stórum stíl hvað þetta snertir nema ríkissjóður legði til fé, og það ekki að alllitlu leyti, eða a. m. k. til bygginga að mestu leyti og frumræktunar.

Í frv. því, sem ég hefi flutt um þetta á undanförnum þingum, var gert ráð fyrir allmiklum byggingum og þar af leiðandi nokkuð miklu fé í hvert býli. En þá var ríkissjóður betur staddur og atvinnuvegirnir blómlegri en nú. Það verður þess vegna að mótast af þeim möguleikum, sem nú eru fyrir hendi, hve mikið fé skuli leggja í þessar byggingar. Það er eitt af því, sem mestrar athugunar þarf í þessu efni, hvernig byggja skuli, t. d., hvort byggja skuli fyrir eina kynslóð eða fleiri, og má segja margt bæði með því og móti. Þó verður það sennilega aðgengilegast hér að byggja aðeins fyrir eina kynslóð, og þá er hægt að nota ódýrara efni, t. d. timbur. Því ber samt ekki að neita, að hús eru varanlegri með því að byggja þau úr steini. En steinhús þau, sem víða hafa verið reist í sveitum þessa lands, eru mjög óhaganlega gerð, bæði að utan og innan, og svara í engu kröfum þeim, sem yngri kynslóðin gerir um rétta. Kröfur manna breytast mjög á fáum áratugum, og er það því stór spurning, hvort ekki sé hentugt að byggja aðeins fyrir eina kynslóð. Byggingarnar yrðu þá ódýrari, og þar sem þörfin er svo brýn á að koma upp mjög mörgum af þessum býlum í sveitum landsins, þá er vafasamt, hvort það yrði ekki heppilegast.

Það er samt ekki ætlun mín að slá neinu föstu um þessi mál, en ég ætlast til, að skipuð verði nefnd til þess að undirbúa löggjöf um þetta, og ég hefi borið fram brtt. til þess að gera það kleift, að það geti orðið aðeins ályktun Ed., þannig að upphaf till. orðist svo: „Efri deild alþingis ályktar að fela ríkisstj.“ o. s. frv., og í öðru lagi til þess að fella niður ákvæðið um, að kostnaðurinn við störf n. skuli greiðast úr ríkissjóði. N. verður því að starfa kauplaust, nema þá að Alþ. veiti henni síðar einhver laun fyrir störf hennar, því að till., sem er afgr. aðeins úr annari d. þingsins má ekki fela í sér fjárveitingu. Ég tel það betra, að till. verði samþ. eins og hún er nú heldur en alls ekki. Mér þykir sennilegt, að í n. muni fást menn, þó að ekki sé fyrirfram ákveðið kaup til þeirra. Tel ég víst, að einn fengist skipaður að tilhlutun stjórnar Alþýðusambands Íslands í þessa nefnd, og ég tel líklegt, að fyrir tilhlutun stjórnar Búnaðarfélagsins fengist sömuleiðis maður í nefndina, sem fær laun frá því hvort sem er, og að í þriðja lagi yrði landbúnaðarráðh. væntanlega fáanlegur til þess að skipa mann í þessa n., og ætti að mega haga því þannig, að sá maður tæki þetta starf að sér án þess að fá sérstök laun fyrir. Ég þykist því hafa komið till. í það horf, að hún geti verið aðeins ályktun Ed. og að ríkjsstj. jafnframt taki tillit til þess að skipa þessa n., ef till. verður samþ.