03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Snæbjörnsson:

Út af því, sem ég sagði í gær, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði hafi tilkynnt báðum flokkum samstundis þá breyttu niðurstöðu viðvíkjandi aðstoð við kosningu utan kjörfundar, þá hafði ég fyrir mér umsögn bæjarfógetans, þar sem hann segist hafa vott að því að hafa tilkynnt skrifstofustjóra Alþýðuflokksins þessa niðurstöðu samdægurs á sinni skrifstofu, nefnil. bæjarfógetans.

Það er svo um bæði vottorð og ræður manna hvar sem vera skal, að útbúa má þannig, að ósatt sé sagt, þó sannindalega sé sagt frá. Þannig segir í þessu vottorði, að skrifstofu Alþfl. hafi aldrei verið tilkynnt þessi breyting, sem hér varð á. Það er náttúrlega hægt að segja, að þetta séu sannindi. En skrifstofustjóranum var tilkynnt það á skrifstofu bæjarfógeta. Það er sannleikurinn, og virðist það í reyndinni sama, hvort skrifstofustjóranum er tilkynnt það á kosningaskrifstofu flokksins eða annarsstaðar.

Annað ætla ég ekki að leggja til málanna. Þetta er aðeins til áréttingar því, sem ég sagði í gær. En út af því, sem hinn nýkomni maður frá Spáni sagði hér í deildinni um bæjarfógetann í Hafnarfirði, að hann væri vísastur til að hafa verið hliðhollur öðrum flokknum — það varð ekki skilið öðruvísi — og nota embættisstöðu sína til þess, þá vil ég lýsa það tilhæfulaus ósannindi. Það er ekki til einn einasti maður í Hafnarfirði, hvorki jafnaðarmaður né sjálfstæðismaður, sem mundi fást til að skrifa undir slíkt.