30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

2. mál, kosningar til Alþingis

Ingvar Pálmason:

Ég þarf ekki að gera grein fyrir þeim brtt., sem stjskrn. flytur sameiginlega, frekar en þegar hefir verið gert. En ég hefi ásamt hv. þm. N.-Þ. flutt hér brtt. á þskj. 216, sem ég vil fara um nokkrum orðum. Þessum brtt. var hreyft í n., en um þær fekkst ekki það samkomulag, að n. gæti flutt þær óskipt, og því tókum við hv. þm. N.-Þ. það ráð, að flytja þær á sérstöku þskj. Till. eru að vísu sjö að tölu, en með þeim er þó ekki farið fram á nema tvennskonar efnisbreyt. á frv. Brtt. við 27. gr. frv. er alveg sérstök út af fyrir sig, en hinar eru allar afleiðing af hinni aðalbreyt., sem er þess efnis, að heimila kjördeildum utan kauptúna, sem hafa 300 íbúa, að hafa tvo kjördaga. Ég skal taka það fram, að þessi brtt. kom fram í hv. Nd., en náði þar ekki samþykki. Ástæðan til þess, að hún er fram komin, er sú, að þó frv. heimili að skipta hreppum í allt að fjórar kjördeildir, þá eru til þeir staðhættir á landi hér, að það er ekki með öllu fullnægjandi til þess að bæta aðstöðu þeirra, sem erfiðast eiga með kjörsókn. Hreppar geta verið svo sundurslitnir, að ekki sé hægt að ná fullu samræmi um aðstöðu kjósendanna til kjörsóknar með þeirri kjördeildaskiptingu, sem frv. heimilar. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki mjög víða á landinu, sem svo stendur á. Og ég geri alls ekki ráð fyrir, að þar, sem hægt er að fullnægja sanngjörnum kröfum manna um hægðarauka við kjörsókn með kjördeildaskiptingu, yrði sú heimild notuð, sem í brtt. okkar felst. En mér hefir verið bent á, að það sé t. d. einn hreppur í Barðastrandarsýslu, sem svo stendur á um, að þó honum væri skipt í fjórar kjördeildir, gæti samt svo farið, að kjósendum af nokkrum heimilum yrði mjög erfitt um kjörsókn, ef þannig viðrar, því yfir sjó er að sækja á kjörstaði. Þeim heimilum gæti orðið það til allmikils hagræðis að hafa kjördagana tvo, og ég geri ráð fyrir, að líkt geti átt sér stað víðar á landinu, þó ekki séu nefnd fleiri dæmi.

Um annmarkana á því að hafa þessa heimild er það að segja, að þeir virðast ekki vera mjög miklir. Það er nokkur aukafyrirhöfn lögð á kjörstjórnirnar þar, sem heimildin yrði notuð, en annars virðist jafntryggilega frá því gengið, að ekki verði neinu komið við, sem kallazt getur óviðeigandi kosningaraðferð. Brtt., sem leiðir af þessari aðalbreyt., ganga út á að tryggja, að kosningin fari fullkomlega eins leynilega fram eins og þó ekki sé nema einn kjördagur.

Það, sem helzt hefir verið haft á móti þessari heimild, er það, að fremur verði viðhafður kosningaróður, sem svo er nefndur í frv., ef hafðir eru tveir kjördagar. En ég vil geta þess, að það eru ekki miklar líkur til, eins og brtt. eru orðaðar, að til þess arna komi. Við höfum þetta aðeins heimild, og ég geri ekki ráð fyrir, að undirkjörstjórnir notuðu hana nema rík nauðsyn væri fyrir hendi. Þær mundu ekki fara að nota heimildina vegna kosningaróðurs; slíkt væri frekar hugsanlegt, ef þetta væri haft á valdi kjósenda. Ég held því, að þar sem með þessu frv. er stefnt að því, sem er sjálfsagt og í alla staði sanngjarnt, að gera íbúum sveitanna að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er, jafnhægt um að sækja kjörfundi eins og fólkinu í kaupstöðunum, en hinsvegar, þótt allar heimildir frv. yrðu notaðar og einnig sú, sem í brtt. okkar felst, þá yrði aðstaða sveitamannanna samt sem áður ennþá miklu lakari til kjörfundarsóknar heldur en bæjanna, þá finnst mér ekki nema eðlileg sú krafa, sem við berum hér fram. Með þeim breyt., sem nú er verið að gera á stjskr. okkar og kosningalögum frá því, sem áður tíðkaðist á líka að vera stefnt að því að ná sem fyllstu réttlæti um áhrif kjósendanna á kosningar til Alþ., og þess vegna á till. okkar fullan rétt á sér, því þrátt fyrir hana næst ekki fullt réttlæti fyrir sveitakjósendur, þó segja megi, að þá væri komið svo nærri því sem fært þykir að ganga, að svo komnu a. m. k.

Ég læt þetta þá nægja um 3. brtt. okkar. Hinar brtt., sú 1., 4., 5., 6. og 7., eru afleiðingar af henni og koma því aðeins til greina, að hún verði samþ.

Þá er hin efnisbreyt., sem felst í 2. brtt. okkar, við 27. gr. Með þeirri brtt. er tekinn upp síðasta málsgr. 27. gr. eins og hún var í stjfrv. Henni var breytt í hv. Nd., en við lítum svo á, að sú breyt. hafi ekki verið til bóta. Um þetta atriði segir svo í grg. stjfrv., með leyfi hæstv. forseta: „Ennfremur er það nýmæli í þessari gr., að frambjóðendur og meðmælendur lista skuli lýsa yfir, fyrir hvaða flokk listinn eða frambjóðandinn sé, og viðurkenning flokksstjórnar á þessu. Þetta leiðir beint af fyrirkomulagi því um skipun uppbótarþingsæta, sem hin nýja stjskrbreyt. ráðgerir“. Nú var sú breyt. gerð á í hv. Nd., að niður var felld krafan um, að framboði skuli fylgja yfirlýsing flokksstjórnar um það, að frambjóðandinn bjóði sig fram fyrir viðkomandi flokk. Eins og tekið er fram í skýringunum við stjfrv., er þetta ákvæði bein afleiðing af því fyrirkomulagi, sem stjfrv. gerir ráð fyrir, sem sé uppbótarsætafyrirkomulaginu. Þar sem uppbótarsætin eru miðuð við flokka, og einungis við flokka, þá virðist ekki vera nema í alla staði eðlilegt, að það séu flokksstjórnirnar, sem segja til um það. hvort hver frambjóðandi er boðinn fram af hálfu flokks eða hvort hann býður sig fram á eigin spýtur, þó aldrei nema hann telji sig til einhvers flokks. Það var í hv. Nd. bent á, að eins og gr. er nú orðuð í frv., gætu menn boðið sig fram fyrir flokk, sem þeir í raun og veru alls ekki tilheyra, og þannig ruglað það flokkslega réttlæti, sem á að nást með uppbótarsætunum. Ég skal ekki segja með neinni vissu, hvað mikil hætta felst í þessu, en hitt orkar ekki tvímælis, að möguleiki til misnotkunar er þarna fyrir hendi, möguleiki, sem engin ástæða er til að skapa. Og þar sem uppbótarsætin eru að öllu leyti byggð á hreinu flokksfylgi, þá verða ákvæði frv. að öðru leyti að vera í samræmi við það.

Það var enginn ágreiningur í n. að taka þetta til greina að því er snertir listana, þegar til þess kemur að skipa mönnum á þá, annaðhvort í röð eða hverjir eigi að koma til greina við uppbótarþingsæti. Þess vegna virðist eðlilegt, að þessu sé fylgt gegnum frv. allt.

Ég get látið þetta nægja að sinni um þessar brtt. okkar hv. þm. N.-Þ., sérstaklega með skírskotun til þess, að þessi breyt. er tekin upp hér nákvæmlega eins og hún var í stjfrv. og að ekki var sjáanlegur neinn ágreiningur í n. í Nd. um þetta atriði. Það virðast því hafa verið einhver önnur áhrif en frá n., sem urðu þess valdandi, að þessi breyt. komst inn í frv., og mér virðist, að hún hafi komizt þar inn að ófyrirsynju.