16.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (1808)

34. mál, vantraust á dómsmálaráðherra

Magnús Jónsson:

Ég vil taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að hæstv. ráðh. skýri þinginu frá því, sem gerzt hefir, þótt allir hér viti það raunar jafnvel, að stj. er búin að segja af sér. — Út af ummælum hæstv. forseta vil ég taka það fram, að ég óskaði ekki eftir að fá að skera úr því með atkv. mínu, hvort fram færi ein eða tvær umr. um þessa till., heldur beindi ég þeirri ósk til hæstv. forseta, að það væri borið undir þm., hvort yfirleitt ætti að ákveða nokkra umr. um þessa till., þar sem hún felur í sér vantraust á ráðh., sem þegar er búinn að segja af sér. Mér þykir það og harla einkennilegt, að hæstv. forseti skuli endilega vilja hraða þessu máli svo mjög. Hann veit þó eins og aðrir, að stj. er búin að segja af sér. Ég mundi og ekki þora að eiga undir því að ákveða, að t. d. eina umr. skyldi hafa um þessa till., því að maður má alveg eins búast við því, að hæstv. forseta sýndist að láta þessa einu umr. fara fram strax á eftir, hvað fjarstætt sem það er.