16.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (1809)

34. mál, vantraust á dómsmálaráðherra

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. 2. þm. Reykv., sem veit þó vel, að stj. hefir sagt af sér, skuli heimta sérstaka skýrslu af stj. um þetta. Það er hlægilegt, að hv. 2. þm. Reykv. skuli heimta skýrslu um þetta, því að hans eigið dagblað hefir skýrt frá því, að stjórnin hafi sagt af sér. Það getur því ekki verið, að stofnað sé til þessa fundar í Sþ. til þess að fá skýrslu um það, sem hver maður í þessum bæ veit. En það er kannske stofnað til hans til þess að gefa hæstv. forseta tækifæri til að setjast einu sinni oftar í forsetastólinn en ella. Það er hvort sem er ekki svo oft, sem hann fær að njóta þessarar tignar sinnar í allri sinni dýrð.