30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Þetta er nú einn geysilegur lagabálkur, sem við höfum hérna fyrir framan okkur, og ég verð að segja það, að hann er svo stór, að maður getur ekki ábyrgzt, a. m. k. ekki við, sem ekki höfum starfað sérstaklega við að athuga hann í n., að ekki fari meira og minna framhjá, sem athugavert sé. Það getur vel verið, að eitthvað sé í þessum mikla lagabálki, sem sé allt annað en heppilegt í framkvæmdinni, og að ástæða sé til að taka eitthvað meira fram. Maður verður þess vegna að mörgu leyti að byggja á rannsókn n., sem hér hefir verið kosin, og n. í Nd. Það eru aðeins stærstu atriðin, sem maður getur höggið í, og svo það, sem maður kann við lauslegan yfirlestur að hafa rekizt á.

Ég ætla þá fyrst að víkja örfáum orðum að þeirri brtt., sem ég sjálfur flyt á þskj. 234.

Fyrsta brtt. er við 27. gr. frv., um það, að fjölga þeim meðmælendum, sem frambjóðendur verða að hafa. Eins og menn vita, þá er skilyrðið um meðmælendur komið inn til þess að fyrirbyggja það, að frambjóðendurnir séu allt of margir, án þess að hafa nokkuð verulegt fylgi í kjördæmunum. Upphaflega var það svo, að ekki þurfti nema 2 meðmælendur. Þá var gert ráð fyrir, að meðmælendur mæltu með frambjóðanda á kjörfundi. En um leið og kjósendum hefir fjölgað hefir verið hækkuð tala meðmælendanna upp í 12 og síðan hefir kjósendum mikið fjölgað, svo það virðist ekki ósanngjarnt, að krafan um meðmælendur sé enn hækkuð. Ég hefi því leyft mér að koma með þá brtt., að í staðinn fyrir 12 komi: eigi færri en 50. Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að binda það fastmælum, að einn frambjóðandi megi ekki hafa fleiri en 24 meðmælendur.

Ég skal geta þess, að þetta atriði um fjölgun meðmælenda mun að líkindum verða til þess að draga eitthvað úr framboði manna, sem í raun og veru hafa ekkert fylgi, og það gerir kjósendum í hverju kjördæmi greiðara fyrir. Það er orðin plága á þessum kosningafundum, að þá kemur voða hrúga af frambjóðendum og tekur tíma og eyðileggur fyrir kjósendum það gagn, sem þeir annars gætu haft af kosningafundarsókn. Einn hv. dm. hefir skotið því til mín, að fullt svo eðlilegt sé, að í stað þess að miða við ákveðna kjósendatölu sé miðað við einhverja hundraðstölu af kjósendum, t. d. 4%. En það hefir nú verið venjan að miða við ákveðna tölu kjósenda, en annars mundi ég sætta mig við það, þó sú breyt. yrði gerð að miða við ákveðna hundraðstölu.

Þá hefi ég leyft mér að koma með brtt. við 85. gr. frv., sem ég álít, að nauðsynleg sé til þess að fyrirbyggja misskilning. Eftir 2. málsgr. getur maður fengið að greiða atkv. í annari kjördeild, ef hann leggur fram vottorð um, að hann sé á kjörskrá. Það hefir verið venjan, að þetta ætti sér stað, en þó ekki eingöngu að leggja fram vottorð um, að menn stæðu á kjörskrá, heldur einnig um, að þeir afsöluðu sér rétti til þess að kjósa í heimakjördeildinni, því annars gætu menn hlaupið á milli og kosið í 2—3 kjördeildum. Til þess að fyrirbyggja misskilning er réttara að taka þessa setningu. E. t. v. vilja menn segja, að þetta sé útilokað með þessari gr., en það getur orkað tvímælis og því réttara að taka það glöggt fram.

Þá hefi ég loks leyft mér að gera breyt. við 142. gr., sem er mikill bálkur og kallaður er „óleyfilegur kosningaróður og kosningaspjöll“. Þar er það talinn afskaplegur kosningaróður og varðar mikilli hegningu, ef maður safnar undirskriftum undir áskoranir um framboð til þingmennsku. Ég get ekki séð, að það sé neitt athugavert, þó maður safni undirskriftum um áskoranir til framboðs. L. gera ráð fyrir, að safna þurfi undirskriftum að vissri tölu, og ég hygg, að í mörgum tilfellum geti verið vafamál, hvort búið er að safna þeirri tölu eða ekki, og þess vegna geti verið hættulegt fyrir menn að skrifa undir meðmælendaskjal. Það er ekki svo, að með þessu sé hægt að fyrirbyggja allan undirróður, eða það, sem á slæmri íslenzku er kallað „agitationir“. Það er vitanlega alveg jafnopin leið til þeirra eftir sem áður, en menn færu þá kannske bara leyndara með það. Þess vegna tel ég sjálfsagt að fella þennan tölul. niður, og þá þar af leiðandi þá málsgr. í 150. gr., sem fjallar um hegningu við þessu.

Ég vona, að hv. d. geti fallizt á þessar brtt„ sem ég hefi borið hér fram, sem ég skal játa, að eru ekki stórar, en a. m. k. ein þeirra er nauðsynleg og hinar fyllilega réttmætar.

Ég skal svo, úr því ég er staðinn upp, fara nokkrum orðum um brtt. n. Eins og menn sjá, þá eru flestar brtt. miðaðar við það, að færa frv. í sama horf og það var, þegar það kom fyrir þingið. Fyrsta brtt. er miðuð við það, að stjskrn. komst að þeirri niðurstöðu að leyfa kjósendum að hafa raðaðan lista, m. ö. o. gefa flokksstjórnum vald til þess að koma fram með lista, sem þær sjálfar hafa skapað, í stað þess, að í frv., sem kom frá Nd., er ætlazt til, að kjósendurnir í kjördæmunum hafi sköpunarvaldið á listanum. Hv. frsm. hélt því fram, að með því að gera eingöngu ráð fyrir óröðuðum lista væri gengið nokkuð nærri stjskr. Ég verð að segja, að mér finnst dálítið einkennilegt, að þessi mótmæli skuli koma fram nú. Í vor, þegar stjskr. var til meðferðar, kom ég með brtt. til þess að taka það fram, að svona lista mætti ekki hafa. En þá var því haldið mjög fast fram, og það af færustu lögfræðingum, að þess háttar þyrfti ekki að setja í stjskr., því að það væri tvímælalaus heimild til að banna slíkt í kosningalögunum. Ég man ekki eftir því, að hv. 1. landsk. rísi þá upp til að andmæla þessari skoðun, og virtist það vera skoðun d., að í kosningal. stæði frjálst fyrir að ákveða um þetta eins og hverjum sýndist. Mér finnst því einkennilegt, að þessari skoðun skuli skjóta upp nú. En þegar maður lítur til þess, hvernig n. var skipuð, þá getur maður vorkennt þeim, þó þeir hafi haldið þessu fram, til þess að missa ekki of mikið af sínu valdi, til þess að missa ekki of marga þm. Það er mikið, að flokksstj. skuli ekki eiga að tilnefna alla þm. og allt vald vera í þeirra hendi.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að þetta mundi ekki hafa mikil áhrif, í mesta lagi kæmu til mála 5–6 menn, sem ekki væru í framboði í kjördæmum. En mér er ekki ljóst, hvernig það getur orðið; mér skilst, að það geti orðið allt að því 11 þm. Ég sé ekki annað en að í því sé engin trygging, þótt ákveðið sé, að annarhver af 10 efstu mönnunum á listanum eigi að vera í framboði utan Rvíkur. En það getur náttúrlega verið, að einhver tryggingarákvæði séu einhversstaðar í þessum mikla lagabálk, þó ég hafi ekki orðið var við þau, og ég væri þakklátur hv. 1. landsk., ef hann gæti bent mér á þau.

Þá er það eitt atriði, sem komið hefir fram í umr., það, hvernig eigi að breyta röð listans. Í stað þess að númera, eins og að undanförnu hefir verið gert, á að rita nafn. Við vitum það, að með þessum kosningal. er einn aðaltilgangurinn að hafa leynd á atkvgr., til þess að tryggja frekar rétt ósjálfstæðra manna, og nú er það vitanlegt, að það er bannað að setja nokkurt merki á atkvæðaseðilinn fram yfir hinn tilskilda kross, til þess að ómögulegt sé að þekkja, frá hverjum listinn er. En ef á að skrifa heilt nafn, þá sé ég ekki annað en að leikur sé að þekkja höndina, og svo er leikurinn einn fyrir menn að skrifa á einkennilegan hátt.

Það er líka hægt að breyta ákvæðinu um utankjörfundarkosningu, til þess að tryggt sé, að ekki sé hægt að þekkja rithöndina. T. d. dettur mér í hug, að hafa megi sérstaklega gerða seðla, sem þarf ekki annað en stimpla á. Það eru sjálfsagt margar leiðir til, en markmiðið er alltaf eitt, að tryggja það, að kosningar fari fram með fullri leynd, en það fer út um þúfur, ef hver kjósandi á að skrifa sjálfur nafn frambjóðandans. Það er hægur vandi að láta það sjást af skriftinni eða öðrum vegsummerkjum, hver kjósandinn var, ef menn vilja á annað borð leggja sig í það eða láta hafa sig til þeirra hluta. Ég hefi ef til vill ekki fylgt nógu vel með brtt. hv. n., en mér hefir skilizt hún gera ráð fyrir tvennskonar listum. En það þykir mér í mesta máta einkennilegt, að hún gerir ekki neina brtt. að öðru leyti, t. d. ef landslisti er óraðaður. Þá gildir sama regla og áður er í frv. Ég hefi nú heyrt því haldið fram sem höfuðandmælum, að í þessu tilfelli geti maður notað við kosningar nafn flokks, sem hann er alls ekki í. Þetta á að vera hægt að fyrirbyggja með einfaldri reglu, en mér skilst, að hv. n. hafi ekki gert neitt í því efni. Það getur því vel komið til mála, að ég beri fram um þetta brtt., annaðhvort nú eða við 3. umr., ef þetta felst ekki í brtt. n. Með þessu einu er nefnilega alls ekki náð þeim tilgangi nefndarinnar að fá flokksstjórnum aftur í hendur það ákvörðunarvald um þessi mál, sem tekið var af þeim í hv. Nd.