24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (1834)

64. mál, milliþinganefnd um launamál, starfsmannafækkun o.fl.

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Svipuð þál. till. þeirri, sem nú liggur fyrir, var borin fram af fjvn. Nd. á síðasta þingi og samþ. þá á þinginu og stj. falið að athuga launamálin. Stjórnin lýsti því yfir, að hún tæki við till. og myndi sjá um framkvæmd hennar fyrir „næsta þing“. „Næsta þing“ er komið og nokkuð liðið á það, en eftir því, sem hæstv. forsrh. hefir tjáð mér, þá er ekki farið að vinna að þessu máli af stj. hálfu, og þar sem nú er senniegt, að ekkert verði af framkvæmdum í þessu efni af stj. hálfu, þá töldum við flm. till. rétt að hrinda málinu í framkvæmd með skipun mþn., enda yrðu mál þessi með því móti rækilegar könnuð og undirbúin fyrir næsta þing.

Um fyrri lið till. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Hv. þm. Borgf. hélt rækilega ræðu um þessi atriði hér í d. á síðasta þingi og má vísa til þeirrar framsögu og raka um, hversu nú er orðið misskipt launakjörum starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana, einnig launum fyrir aukavinnu og annað þess háttar.

Um hinn lið till. er það að segja, að það er skoðun margra, að reka megi ríkisskipin ódýrara, þó að ekki verði lakari samgöngur heldur en nú er. Virðist því sjálfsagt að athuga vel þessa möguleika og gera till. um endurbætur þar á, ef ástæða þykir til. En reynist svo við athugun, að ekki sé ástæða til að breyta fyrirkomulaginu, þá er það þeim til góðs, sem veita þessari stofnun forstöðu. Nú horfir svo við, að útgjöld ríkissjóðs verða enn einu sinni meiri en tekjurnar, og munu flestir sammála um það, að svo má ekki lengi ganga hér eftir. Það er kvartað undan tollum og sköttum, hversu háir þeir séu, en þeir eru aðaltekjustofn ríkisins, og þá finnst mér ekki fjarri að athuga, hvort ekki megi draga úr rekstrarhalla ríkisins með því að spara útgjöldin, og virðist þá næst að taka til athugunar einstaka útgjaldaflokka, hvort ekki megi draga úr þeim. Og nú á undanförnum tíma hefir það mjög verið haft á orði, hvort ekki megi draga úr greiðslum til embættis- og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana, og mörg dæmi nefnd þar um, sem hafa við gild rök að styðjast. Virðist mér því rétt og sjálfsagt að ganga nú svo frá þessu máli, að þar þurfi ekki frekar um að þreifa að sinni. Ég vænti þess og, að ef hér færi meiri sparnaðarandi að ríkja en áður hefir ríkt hér á Alþingi, þá mætti í næstu fjárlögum draga úr útgjöldum auk þess sparnaðar, sem vænta má fyrir atbeina þessarar fyrirhuguðu milliþinganefndar. Það er víst, að betur má halda í horfinu, ef að því er gengið með meiri festu og samhug en nú um nokkur ár hefir átt sér stað að rétta við fjárhag ríkisins.

Ég vil taka það fram út af þeim brtt., sem fram hafa komið við þessa till., að þar sem bankaráð Landsbankans og Útvegsbankans ákveða flest laun við þessar stofnanir, en þingið kýs menn í þessi ráð á fárra ára fresti, þá virðist það geta haft það í hendi sér, hversu fer um laun þessara starfsmanna, og því þótti mér ekki nauðsyn að taka þessar stofnanir nú til athugunar, en reyndar er Búnaðarbankinn þá eftir.

Ég tel vafasamt, að rétt sé að hafa verksvið þessarar n. víðara en gert er ráð fyrir í till. eins og hún er flutt, en sjá fyrst, hver uppskeran verður af starfi n., ef hægt verður að fá hana skipaða svo sem hér er ráð fyrir gert.