05.12.1933
Neðri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (1839)

64. mál, milliþinganefnd um launamál, starfsmannafækkun o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Við flm. þessarar þáltill. fórum að mestu eftir þáltill. þeirri, sem samþ. var á síðasta þingi, er málið var falið framkvæmd stj. Fyrir mér og öðrum flm. till. vakti að gera ekki verksvið n. þessarar víðtækara en gert er ráð fyrir í till. þeirri, sem vísað var til stj. Með því að auka verksvið n., verða auðvitað störf hennar og starfstími aukin, og um leið vex kostnaðurinn við n.

Ég hefi tekið það fram í flutningsræðu minni fyrri í máli þessu, að heppilegra myndi til árangurs að taka fyrir einn eða tvo gjaldaflokka í einu, eins og gert er í till. vorri, annarsvegar embættismenn og starfsmenn ríkisins og starfsmenn ríkisstofnana og hinsvegar ríkisskipaútgerðina. Nú hafa 2 úr fjhn. komið fram með víðtækari till. í þessa att, á þskj. 266, og gæti ég eftir atvikum gengið inn á þá till. En um leið er verksvið n. orðið svo vítt, að ekki er á bætandi, ef hún á að geta lokið störfum eins og ráð er fyrir gert og rannsakað málið nógsamlega, án þess þó að verða of dýr. Ég neita því ekki, að rétt sé að rannsaka líka banka og aðrar ríkisstyrktar stofnanir, en þó held ég, að betra væri að bíða með það, þangað til seð væri, hver verður uppskeran af þessu starfi mþn. á því þrengra sviði, sem henni er sett. Verði þessi uppskera góð, má og á að fela n. að athuga og gera till. um þau mál.

Þó að ég muni greiða atkv. á móti till. hv. 1. þm. S.-M., þá er það ekki af því, að ég sé ósamþykkur því, að þau atriði, sem fyrri liður þeirrar brtt. fjallar um, verði athuguð, heldur geri ég ráð fyrir, að n. fái ekki lokið störfum sínum nógu snemma, ef þau atriði eru tekin með.