30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég hefi sama og ekkert getað verið við umr. hér í þd. í dag, en vil þó fara fáeinum orðum um þetta mál út af því, sem hv. 1. landsk. þm. sagði nú síðast. Mér skildist á ræðu hv. þm., að hann teldi það vera í fullu ósamræmi við stjskr. að fyrirskipa, að allir frambjóðendur í kjördæmum skuli vera á landslista, þ. e. a. s., að landslisti skuli vera óraðaður. Mér heyrðist hv. þm. telja, að það væri ekki í samræmi við stjskr. að hafa landslista óraðaðan, vegna ákvæðanna um það, að „að minnsta kosti“ annaðhvort uppbótarsæti skuli skipað frambjóðanda utan Rvíkur. Inn á þetta get ég ekki gengið. Ég tel það alveg vafalaust, að það sé leyfilegt að ganga lengra í þessu efni en ákvæði stjskr. tiltekur minnst. Þessi orð í stjskr.: „og sé að minnsta kosti annaðhvert sæti“ o. s. frv., sýna þetta svo greinilega með áherzlu, að ekki þarf um það að deila. Ég er viss um, að frv. eins og það er nú í þeirri mynd, sem Nd. afgr. það, er í fullu samræmi við stjskr. Það var líka greinilega fram tekið í umr. um stjskr.-málið á síðasta þingi hér í þd., að heimilt væri að gera frekari kröfur í þessu en stjskr. gerir minnstar, á þann hátt að stíga sporið fyllra með ákvæðum í kosningalögum. Þeir hv. þm., sem vildu hafa óraðaðan landslista og að frambjóðendur í kjördæmum utan Rvíkur, sem ekki næðu kosningu í kjördæmum, hlytu uppbótarsæti, sögðu þá, að það væri tryggara að setja ákvæði um þetta inn í stjskr. Og það var vitanlega alveg rétt, af því að breyt. á stjskr. ganga ekki í gildi, nema þær séu samþ. á tveimur þingum í röð og almennar kosningar hafi farið fram á milli þinga. En þessir menn urðu þá í minni hl. Hinsvegar var þegjandi viðurkennt, að frekari kröfur mætti gera í kosningalögum. Mér finnst það líka frjálslegra og fremur til meðmæla þeim mönnum, sem hljóta uppbótarsæti, að þeir hafi aflað sér fylgis meðal kjósenda í kjördæmum úti á landi, heldur en ef þeir eru skráðir á listann af fámennri flokksstjórn. Þó að segja megi með nokkrum rétti, að frambjóðandi, sem aðeins hefir hlotið t. d. 200 atkv. í kjördæmi hjá flokki, sem telur 18–20 þús. kjósendur innan sinna vébanda í landinu, hafi óverulega lítinn flokksvilja á bak við sig, þá er það þó svo, að þegar frambjóðandi hefir komizt nærri því að ná kosningu í kjördæmi, sýnir það, að líkur eru til, að hefði hann boðið sig fram í stóru kjördæmi, mundi hann hafa fengið mikið atkvæðamagn. A. m. k. hefir hann sýnt, að hann hefir traust fleiri kjósenda en sá maður, sem 10–15 manna flokksstjórn skipar á landslista. Það er í meira lagi undarlegt, að þeir menn og flokkar, sem mest tala um lýðræði, skuli álíta það réttara, að fámenn flokksstj. skipi frambjóðendum á lista, en ekki kjósendurnir sjálfir; það brýtur þó greinilega í bág við anda lýðræðisins.

Annars fannst mér ýmislegt af hugleiðingum hv. 1. landsk. benda til þess, að hann telji, að nauðsynlegt sé að hafa sérstakan landskjörslista, en stjskr. og þetta kosningal.frv. er alls ekki byggt á þeirri hugsun. Stjskr. gerir einmitt ráð fyrir því gagnstæða, að á landslista séu boðnir fram menn, sem jafnframt eru í kjöri í einstökum kjördæmum. Og stjskr. setur lágmarkskröfu í þessu efni, þá, að „að minnsta kosti“ annaðhvert sæti á listanum sé skipað frambjóðendum í kjördæmum utan Rvíkur, en lætur þinginu jafnframt frjálst að hækka það mark, enda er nú gerð ákvörðun um það í þessu frv., sem fyrir liggur.

Ég vil ennfremur láta það í ljós, að ég tel ekki sanngjarnar þær reglur, sem settar eru í brtt. n. viðvíkjandi uppbótarsætum í tvímenningskjördæmum. Mér heyrðist líka, að hv. 1. landsk. legði ekki mikla áherzlu á þá brtt., og þykir mér það stórum betur. Hv. 1. landsk. sagðist vilja láta tvímenningskjördæmin lúta sömu reglu í þessu efni eins og einmenningskjördæmi, eða eins og búið væri að skipta þeim í einmenningskjördæmi. (JónÞ: Aðeins í einu tilfelli; það á ekki að vera almenn regla). Það verður þó að taka fullt tillit til þeirra meðan þau eru tvímenningskjördæmi. Heimildin er fyrir hendi til skiptingar í einmenningskjördæmi, en það er ekki hægt að reikna með því fyrr en búið er að framkvæma skiptinguna.