30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal að sönnu viðurkenna, að ég var ekki á neinn hátt viðriðinn þá samninga á milli flokkanna á síðasta þingi, sem svo mikið er vitnað til í þessum umr. En ég heyrði því þá greinilega lýst yfir í umr., þ. á m. af manni, sem var riðinn við þá samninga, að það væri algerlega heimilt að setja í kosningalög strangari kröfur en nú eru minnstar í stjskr. um það, hve margir af frambjóðendum skyldu vera á landslista. Og ég hefi enga trú á því, að fulltrúar flokkanna hafi í fyrra litið svo á, að þeir væru þá að semja um það, hvernig kosningalögin ættu að vera. Nú hafa þeir, sem fremstir stóðu að þessum samningum, hv. þm. Str. og G.-K., báðir greitt atkv. í Nd. með þeim ákvæðum, sem nú eru í frv., og á því getur hv. 2. landsk. séð, að þeir hafa ekki skilið þetta á sama hátt og hann. Þetta kom líka glöggt fram í umr. á síðasta þingi, og er skjalfest í ræðum eftir hv. þm. Str. og núv. hv. 2. þm. Rang., sem þá var 4. landsk. þm. — Ég man líka vel eftir ræðu hv. 2. þm. S.-M. þá og að hann sagðist þá ekki vilja gera neitt, sem liti út eins og samningsrof. En þegar þeir hv. þm., sem sjálfir stóðu að samningunum, telja, að hér sé ekki um neitt samningsrof að ræða og hafa sjálfir greitt atkv. með frv. eins og það er nú, þá þarf ekki frekari vitna við. (JónÞ: Það vissu fleiri um þá samninga). Já, en þeir mega bezt um þá vita, sem gerðu þá.

Ég skil ekkert í því, hvers vegna Alþfl. vill ekki hafa frambjóðendur sem víðast um landið í hinum einstöku kjördæmum. Þeir ættu þó að draga betur atkv. til flokksins, ef þeir eru dugandi talsmenn, heldur en einn dauður bókstafur á lista, þó að hann sé A. Ég sé ekki, að það sé nein frambærileg ástæða til þess, að Alþfl. þurfi að hafa neina sérstöðu í þessu efni fremur en aðrir flokkar. Ég legg áherzlu á það, að þessu atriði verði ekki breytt nú, því að hætt er við, að hv. Nd. haldi fast við sinn skilning, og gæti það því orðið til þess að hrekja málið milli deilda.