03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónsson:

Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir, að hann teldi óþarft að rannsaka þetta mál, og vildi ekki tefja þingið á því. Ég get ekki skilið, hvernig sá flokkur, sem ber ábyrgð á þeirri óþörfu eyðslu að hafa þing nú, í stað þess að láta stjórnarskrána bíða reglulegs vetrarþings, — hvernig hann fer að berja sér á brjóst og tala um sparnað í þinghaldi. — Þetta er heldur engin röksemd í málinu. Enn síður er það röksemd í málinu, þegar haldið er fram, að þingið eigi að vera stutt, til þess að ekki sé hægt að rannsaka misfellur, sem hann veit sjálfur, að eru ekki óverulegar, þó að það í hans augum séu smámunir að þverbrjóta skýlaus kosningalög og venjur, sem menn yfirleitt fylgja.

Það hefir komið í ljós, að bæjarfógetinn hafði ákaflega litla ástæðu til að snúast í þessu máli. Hann er búinn að neita um þetta leyfi 1931 og 1933. En þessi ósiður á þá að vera kominn úr Reykjavík, eftir því, sem við eigum að skilja af ræðu hæstv. ráðh. En ég hefi aldrei heyrt um hann fyrr en nú. Og ég veit, að maður, sem hefir starfað að kjörstjórn í Hafnarfirði a. m. k. 1931, segist muna eftir mörgum kjörseðlum úr Reykjavík, sem hafi verið vottaðir, og mundi ekki eftir neinum nema vottuðum seðlum frá skrifstofu lögmanns. Það lítur þess vegna út fyrir, að þessi ranga aðferð hafi ekki oft verið viðhöfð í Rvík. Og það er líka auðséð, að lögmaður hefir séð að sér í vor; því að ekki er hægt að skilja frásögnina öðruvísi en svo, að hann hafi hætt að gera þetta. Getur víst enginn þakkað, þótt hætt sé að gera slík spjöll í stærsta kjördæminu, og ekki sízt ef það hefir orðið hneykslunarhella fyrir aðra, sem annars voru á réttri leið.

Ég skil vel, að hæstv. ráðherra óskar ekki eftir að tala um Mýrdalshneykslið. Um það er ekki hægt mikið annað að segja en það, sem komið hefir fram í kæru verkamannsins. Ég býst ekki við því, að þeir, sem þekkja hæstv. ráðh., taki það mark á yfirlýsingu hans, að þeir trúi hennar vegna, að þessir menn hafi verið alveg hvítir. Menn vita, hvernig þessi maður segir sannleikann. En ég býst við, að Mýrdalsmálið eigi eftir að koma gleggra fram, fyrst og fremst þegar rannsókn og dómi er lokið, og þegar almenningur fær aðgang að skjölum, til þess að geta séð, hve trúlega sýslumaðurinn þar hefir haldið á hinum óskeikulu metaskálum réttvísinnar. Að því leyti sem haldið var fram, að ég hefði veitzt að bæjarfógetanum í Hafnarfirði, þá er það rangt, nema að því leyti, sem verk hans gefa tilefni til. Hans verk eða verkleysa er ástæðan til þess, að kosningin var kærð í Hafnarfirði, og það eru í raun og veru vinnubrögð hans, sem liggja undir úrskurð Alþingis. Og það er ómögulegt fyrir hans beztu vini jafnvel — eins og t. d. hæstv. dómsmrh. — annað en játa, að þau eru öðruvísi en á að vera. Þess vegna geta vinir bæjarfógetans ekki kennt öðrum en honum sjálfum. Hann hefir snúizt frá því rétta til hins ranga, og það kemur fram í öllum gögnum málsins, að hann hafði enga frambærilega ástæðu.

Hann fréttir, að annarsstaðar séu brotin lög. Hann fer í stjórnarráðið — annars liggja engar sannanir fyrir um það —, fer ekki til ráðherrans, leggur ekki fram neitt bréf. Yfirleitt vita menn ekki, hvort þetta er nokkuð nema tómur misskilningur.

En þar sem því er haldið fram, að hann hafi ekki verið hlutdrægur í málinu, af því að hann sé kunnur að mörgum góðum persónulegum eiginleikum, þá er það enginn úrskurður. Og athugavert er það, að öll gögn benda á, að annar flokkurinn tapi, en hinn græði á öllum lögbrotunum.