05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (1919)

56. mál, endurgreiðsla á skemmtanaskatti

Frsm. (Jón Þorláksson):

N. hefir athugað það, að þær upphæðir, sem hér er um að ræða, virðast vera að því er snertir Leikfélag Rvíkur um 3000 kr. á ári, en hvað snertir hin félögin ýmist mjög óverulegar eða engar eins og nú standa sakir. Leikfélag Ísafjarðar virðist ekki hafa starfað um hríð að undanförnu, og frá Leikfélagi Akureyrar virðast hafa komið eitthvað innan við 200 kr. á ári.

Þegar þessi skemmtanaskattur var lagður á í þeirri mynd, sem hann eiginlega er í nú, — því það, að hann rennur í ríkissjóð, er aðeins bráðabirgðaákvæði — þá var svo til ætlazt, að aðrar tegundir skemmtana, og þá einkum kvikmyndasýningar og annar léttari og útgengilegri varningur á þessu sviði, yrði skattlagðar til þess að bæta skilyrðin fyrir hina innlendu leiklist. Það var því svo ákveðið, að skemmtanaskatturinn gengi fyrst um sinn til byggingar þjóðleikhússjns. Nú hefir þetta snúizt við í framkvæmdinni sem stendur, þannig að sá vísir til innlendrar leiklistar, sem hér er og sem verður að geta haldið áfram að lifa, ef annars á að vera nokkur meining í þessari þjóðleikhúsbyggingu, er skattlagður með sérskatti til hagsmuna fyrir ríkissjóð. N. sýnist full ástæa til að kippa þessu í lag, þannig að meðan verið er að bíða eftir því, að fjárhagsgeta landsins leyfi það, að haldið sé áfram byggingu þjóðleikhússins, þá séu þó ekki lagðar sér stakar byrðar á þann vísi til innlendrar leiklistar, sem er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að þjóðleikhúsið verði nokkurntíma að nokkrum notum. Auk þess er á það að minnast, að þessari leiklist er nú lagður styrkur af opinberu fé, bæði ríkissjóði og bæjarsjóðum, og það getur a. m. k. ekki talizt sanngjarnt gagnvart framlögum bæjarsjóðs, að ríkissjóður taki aftur með annari hendinni að miklu leyti þann styrk, sem hann veitir leiklistinni með hinni.

Ég hefði nú fyrir mitt leyti helzt viljað vera laus við það á þessu aukaþingi að samþ. till., sem eru fjárveitingaeðlis, en mér finnst samt, að um þetta atriði standi svo sérstaklega á, að ekki sé forsvaranlegt annað en afgreiða þetta mál eins og farið er fram á, úr því það á annað borð kom fram.