30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég hefi engu við það að bæta, sem ég áður hefi sagt fyrir hönd n. En ég vildi láta falla nokkur orð frá sjálfum mér út af þeim umr., sem spunnizt hafa út af brtt. n. um að taka upp aftur í kosningal. heimild til þess, að fram megi leggja landslista í þeirri mynd, sem stjskr. gerir ráð fyrir. Og ég vil minna hæstv. dómsmrh. á það, að í frv. því, er hann lagði fyrir þingið, var þessi heimild, og ég hefi áður heyrt hann segja, að þótt ágreiningur nokkur hafi orðið milli þeirra þriggja fulltrúa helztu stjórnmálaflokkanna, sem undirbjuggu frv., þá hafi hann ekki tekið annað í þetta stjfrv. en það, sem hann sjálfur hefði getað fallizt á. Hann hefir því lýst því yfir, að hann geti fallizt á þessa heimild, fyrst hún var tekin upp í stjfrv. Nú leggur þessi sami hæstv. ráðh. til, að brtt., sem fer fram á það, að þessi heimild sé tekin af nýju upp í frv., verði felld, og rökstyður það með ótta við hrakning milli d. Ég er ekki svo viss um það. Burtfelling heimildarinnar var gerð við 3. umræðu í hv. Nd. og að lítt athuguðu máli, svo að það hefir ekki verið athugað í n. fyrr en nú hér í Ed. Ég sé ekki, að það geti komið að sök, að leyft sé að hafa

slíkan landslista, og tel ég heppilegast, að hver flokkur sé sem sjálfráðastur um tilhögun á landslista sínum. Ég treysti því fullkomlega, að þessi till. verði ekki völd að vandræðum, þó samþ. yrði. Það hefir verið minnzt hér á samkomulag það, sem gert var milli tveggja aðalflokka þingsins í fyrra um afgreiðslu stjskr. Þar var óvenjuleg leið farin, að fela tveim mönnum umboð af hálfu flokkanna til þess að gera út um þessi mál. Sá galli var á þessari aðferð, að allur þorri þm. fylgdist ekki með í samningunum. Ég hafði þá aðstöðu, að ég gat alltaf fylgzt með því sem gerðist, því að fulltrúi Sjálfstæðisfl. við samningana lét mig vita það jafnóðum. Og af þeim samningum leiðir það, að ég tel mig bundinn við að taka upp í kosningal. heimild um landslista í þeirri mynd, sem samkomulag varð þá um. Ég get að því leyti alveg staðfest það, sem hv. 2. landsk. sagði, þó með þeim fyrirvara, að verði eitthvað annað prentað í Alþtíð., samþ. ég það ekki. Ef ég legði því nú lið mitt, að þessi heimild væri felld úr kosningal., þá fyndist mér ég vera að nota mér hártoganir til þess að hlaupa frá gefnum loforðum. Og það er nú svo, að ég hefi það fyrir vana að halda gefin loforð, og reyni að efna heldur meira en minna, ef geta stendur til. Og ég hefi hugsað mér að skiljast svo við þingstörf, að ég haldi þá reglu líka í opinberu lífi. Ég vil minna á það, sem hv. 2. landsk. tók líka fram, að stjórnarskrárbreyt. hefði ekki náð samþykki í fyrra, ef gengið hefði verið af samkomulagsgrundvellinum. Það var ekki atkvæðamagn hér í d. til þess að samþ. hana eftir yfirlýsingu hv. 2. þm. S.-M., ef horfið var frá hinu gerða samkomulagi. Og ég kalla það hrein og bein þingsvik, ef kosningal. eru nú notuð til þess að nema burt að efni til ákvæði stjskr., sem sumir telja svo þýðingarmikið, að víst er, hefði verið farið krókalaust að þessu á þinginu í fyrra, væri stjórnarskrárbreyt. ekki enn orðin að 1. Mér þykir leiðinlegt, að flokksbræður mínir skuli ekki líta á þetta sömu augum og ég, því þetta er ekkert annað en svik við mennina, sem samkomulagið var gert við í fyrra. Ég er ekki ánægður með stjórnarskrána eins og hún er, en ég hefi samþ. hana og ætla að standa með henni og ekki nota mér neina lagakróka til þess að fara í kringum efni hennar.