05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (1922)

56. mál, endurgreiðsla á skemmtanaskatti

Jónas Jónsson:

Ég er þakklátur hv. síðasta ræðumanni fyrir að flytja þessa skynsamlegu till., sem ekki þarf nema að bæta dálitlu við til þess að verði góð, og taka orðið áðan til þess að ekki slitnuðu umr.

Ég álít eins og hv. frsm. og hv. flm., að leikfélögin í þessum kaupstöðum eigi nógu erfitt, þó þeim sé ekki skipað að greiða almennan skatt af leiksýningum sínum. En það, sem ég vakti eftirtekt á, þegar fyrst var talað um þetta mál, var það, að það hefði gengið ýmislegt upp og niður hjá leikfélaginu.

Ég vil fyrst spyrja hv. flm., af því að ég veit, að hann stendur nærri leiðandi mönnum í félaginu, hvernig stendur á því , að það hefir neitað að auglýsa í einu dagblaði bæjarins. Það er eitt flokksblað hér í bænum, sem hefir orðið fyrir þessum árásum af nazistum og glæpamönnum í sambandi við þá. Það lítur út fyrir, að leikfélagið sé á valdi nazistanna hér í bænum og í einhverju sambandi við hótunarbréfin. Annars vil ég spyrja hv. flm. að því, hvort þm. haldi, að leikfélaginu verði það til framdráttar að gera þannig upp á milli hinna pólitísku flokka í bænum, að vilja einungis auglýsa fyrir íhaldsmenn. Hvað er þá eðlilegra en það, að þeir flokkar, sem leikfélagið ekki kærir sig um að kalla til, segi að þá verði leikfélagið að lifa á náð þessara vissu flokka og þeir verði að halda því uppi sem flokksfyrirtæki.

Ég álít ekki, að þessi nýja stefna leikfélagsins skaði blöðin, sem fyrir því verða, en það er víst, að leikfélaginu verður ekki lengi látið haldast þetta uppi. Annaðhvort verður það að vera hlutlaust í pólitík eða að það verður að fá aðhald frá pólitískum flokkum. En þar sem hv. þm. mætti teljast moðir leikfélagsins eins og stendur, þá mætti kannske fá upplýsingar um þetta hjá þm. þetta er smámál nema að því leyti, sem heimskan og illgirnin er nokkurs virði, sem lýsing á þeim mönnum, er þarna eiga hlut að máli.

En það er annað, sem miklu máli skiptir fyrir leikfélagið. og það er það, að áður en Haraldur Björnsson tók við, voru eilífar byltingar í félaginu og það hafði safnað allverulegum skuldum og engar líkur voru til, að það gæti haldið áfram starfsemi sinni. Það er vitanlegt, að síðan Haraldur Björnsson tók við félaginu, er kominn allt annar blær á fjárreiðurnar, vegna þess að honum er sýnt um slíka hluti. Hv. þm. ( GL) ætti að spyrjast betur fyrir um það, hvernig var innra ástand félagsins í fyrra vetur; þá gæti þm. kannske sannfærzt um, að það var fullkomin þörf á því, að Haraldur Björnsson tæki í taumana og leiðrétti alla þá óreglu, sem þar var. Ef hv. þm. veit ekkert um þetta, þá ætti þm. að spyrjast fyrir um það hjá þeim mönnum, sem þar um fjölluðu, þá getur hv. þm. e. t. v. skilið, hvers vegna þeir þm., sem vita, hvað Haraldur Björnsson hefir gert til þess að kippa ástandi félagsins í lag, sjái ekki ástæðu til að ausa peningum í félagið, nema trygging sé fyrir því, að fjármálunum sé skynsamlega stjórnað.

Nú er mér sagt, að af þeim tveim leikritum, sem félagið hefir sýnt í vetur, hafi verið verulegur tekjuhalli. Það kemur vitanlega af því, að af einhverjum persónulegum ástæðum hefir verið hallazt að því að kasta þeim manni, sem undanfarin ár hefir haft á hendi leikstjórn og umsjón með fjármálunum, og teknir í staðinn tveir viðvaningar. Annar þeirra leikur aldrei, og ekki vitanlegt að hafi neitt vit á slíkum hlutum, en hinn leikur stundum, og þá vanalega illa.

Þar sem þessi forstaða er á félaginu, er fullkomin ástæða til að benda félaginu á, að svona getur það ekki gengið lengur. Um leið og félagið fer fram á aukin hlunnindi, hægir það frá sér kröftum, sem það á völ á, ekki einasta þessum krafti, heldur er mér sagt, að í vetur hafi það átt kost á þekktum hæfileikamanni, sem kom frá annari heimsálfu, en fyrir innri heimilisástæður var honum hafnað. Það liggur því í till. ekki annað en bein ósk um það, að svo framarlega sem félagið á að fá aukin hlunnindi, þá fái það aukið eftirlit, til þess að þessum málum verði sem bezt borgið.

Hvað viðvíkur launagreiðslum til Haralds Björnssonar, þá get ég ekkert sagt um það. Ég hefi ekkert sett mig inn í það. En hitt veit ég, að félagið blómgaðist vel meðan hann stjórnaði því. En í till. er það tekið fram, að stj. skuli því aðeins skipa þennan mann, að um semjist um kaupgjaldið.

Hvað viðvíkur endurskoðuninni, þá er það fyrir misskilning hjá hv. þm., þegar hann heldur, að það sé sama, hver endurskoðandinn sé. Það er vitanlegt, að venjulegir endurskoðendur geta mjög litið um það dæmt, hvort hægt sé að leggja út í kostnað við leiksýningar. Það getur ekki nema kunnugur maður. Þess vegna er hér farið fram á, að þetta sé maður, sem bæði hefir vit á fjármálum og því, hvernig störfum félagsins er fyrir komið.

Að öllu þessu athuguðu álít ég það rétt og eðlilegt að samþ. þessa viðbótartill.