15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (1931)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Flm. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Hv. þdm. mun vera það kunnugt frá síðari þingum, að um skeið var uppi deila um það, hversu hagaði til um eignarrétt að góðtemplaralóðinni. Sagan er í stuttu máli sú, að 1887, þegar mælt er út land, sem þá var nokkur hluti Reykjavíkurtjarnar, var það gert með því skilyrði, að ef Alþingi þyrfti á að halda, félli það aftur til ríkisins. Þessu skilyrði vildu góðtemplarar ekki sæta, og fór því fram skilyrðislaus útmæling og lóðin var skoðuð sem kvaðalaus eign reglunnar. En þegar byggingarnefnd kemur á staðinn, lætur hún bóka, að hún hafi mælt út lóðina með sömu skilyrðum og í fyrstu.

Síðan er þessu máli ekki veitt athygli um langan tíma. Lóðin er veðsett sem þinglesin eign þessa félagsskapar án allra kvaða. Lóð Alþingis var ákveðin um aldamótin milli forseta og bæjarstjórnar og lóðin girt. En eftir 1920 ætluðu góðtemplarar að byggja hús á lóðinni vegna líknarstarfsemi, sem þá var rekin hér í bænum (Samverjinn). En þá beiddust forsetar Alþingis þess, að ekki væri leyft að byggja á lóðinni, með því að sú kvöð hvíldi á henni, sem sett hefði verið á hana við fyrstu útmælingu. Þetta varð til að stöðva húsbygginguna.

Nú var þetta mál fyrir dómstólunum, og niðurstaða hæstaréttar var sú, að kvöðin, sem upphaflega var sett, var metin gild. Á síðasta þingi var samþ. þál. þess efnis, að forsetum Alþingis skyldi falið að leita samkomulags við aðila um lausn á þessari deilu, því að nokkur hluti lóðarinnar er kvaðalaus; var þeim falið að leita samkomulags um verð á lóðinni. Kom þá fyllilega í ljós vilji Alþingis fyrir því, að þessi lóð væri keypt og sameinuð alþingishúslóðinni. Mælti enginn hv. þdm. á móti því. En þeir, sem töluðu í málinu, hvöttu forsetana til þessarar lausnar. Þó hefir ekkert orðið enn úr samningum milli forsetanna og þeirra manna hér í bænum, sem standa fyrir þessu máli af hálfu templara. Og ég get upplýst það, að eins og nú standa sakir, þá geta templarar, sem nú hafa umráð á lóðinni, ekki hagnýtt sér hana, enda þótt þeir hafi mjög ríka þörf fyrir aukið húsnæði. Af þeim ástæðum er þessi þáltill. hér flutt, og verði hún samþ., mega þeir vel við una þá lausn málsins.

Í þáltill. er gert ráð fyrir, að ríkið kaupi þessa eign fyrir 200 þús. kr.; jafnframt er það upplýst, að loðin er metin samkv. fasteignamati á 50300 kr. En söluverð lóðarinnar — kvaðalaust — verður að álítast töluvert hærra. Samkv. venju hér í bænum mun söluverð lóða á þessum stað vera ca. 50% hærra en matsverðið, og má þá gera ráð fyrir, að söluverð þessarar lóðar sé hæfilega talið 75 þús. kr.

Þá mun verða spurt: Hvers vegna er kaupverð þessarar eignar til handa ríkinu ákveðið svona miklu hærra heldur en hægt er að fá fyrir hana í frjálsri sölu? Svarið við þessari spurningu verður helzt á þá leið, að sá staður, þar sem hinn góði og göfugi félagsskapur templara hefir starfað og komið svo miklu góðu til leiðar í þágu alþjóðar, hann er þeim fyrst og fremst svo kær; í öðru lagi er hann svo vel settur, að það út af fyrir sig er afarmikils virði fyrir félagsskapinn, þannig að það verður erfitt að meta til verðs það mikla tjón, sem starfsemi templara kann að mæta, ef hún yrði að flytjast svo langt frá þessum stað, að þar yrði erfiðara til aðsóknar. Þess vegna verður það eðlilega hin fyrsta krafa þessara aðila — bindindismanna og templara —, að þeir geti fengið í staðinn allstóra lóð, sem væri ekki illa sett. En þær lóðir, sem helzt gætu komið til greina hér í miðbænum, eru að sjálfsögðu mjög dýrar.

Þá ber einnig á það að líta af hv. Alþingi, að nú eru tímamót, þar sem svo sér staklega stendur á, að óhjákvæmilegt er að taka upp öfluga bindindisstarfsemi í landinu. Og það er fyrirfram vitað, að ekki er um annað að ræða heldur en að höfuðstöðvar þeirrar starfsemi verði hér í Rvík. Héðan frá höfuðstaðnum verða þeir kraftar að koma, sem knýja þá mikilsverðu hreyfingu fram með dugnaði. Það er augljóst, að Alþingi verður að styðja dyggilega þennan félagsskap, sem um undanfarin 50 ár hefir starfað af svo mikilli ósérplægni og fornað kröftum sínum í þágu hins göfuga málefnis. Nú er þörfin fyrir bindindishreyfinguna brynni en nokkru sinni áður, og getur hún því unnið öllum borgurum þjóðfélagsins, yngri sem eldri, ómetanlegt gagn.

Mer er óhætt að fullyrða, að ef þessi lausn fengist á málinu, sem hér er farið fram á, þá mundu templarar una því vel, ekki sízt ef þeir gætu fengið heppilega lóð á góðum stað í bænum til starfrækslunnar framvegis, enda er hún rekin í þágu allrar þjóðarinnar og til gagns fyrir hana.

Það er gert ráð fyrir, að ríkið kaupi þessa lóð við Vonarstræti og sameini hana alþingishúslóðinni, en þó ekki strax, heldur gætu núv. eigendur haldið áfram að nota lóðina fyrst um sinn það árabil, sem samið er um til greiðslu á lóðarverðinu og afborganir standa yfir.

Ég vona, að hv. þdm. geri sér það ljóst, að þar sem nú má búast við verulegum straumhvörfum í bindindismálunum á næstu missirum, þá sé það bæði viturlegt og gagnlegt af Alþingi að gera þær ráðstafanir, sem mest og bezt vega á móti þeirri óhófsöldu, sem búast má við, að hið innflutta áfengi reisi í landinu.

Ég leyfi mér að leggja til, að þáltill. verði að lokinni umr. vísað til fjvn.