15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (1935)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Jakob Möller:

Ég finn ástæðu til að segja nokkur orð út af ummælum þeim, sem hv. þm. G.-K. beindi í garð þeirra manna, sem veita góðtemplarareglunni forstöðu. Að vísu stendur svo óheppilega á, að ég hlustaði ekki á þær útvarpsumr., þar sem hv. þm. sakar stórtemplar um að hafa farið með ósæmileg og óviðeigandi ummæli í sinn garð. En eftir því sem vitnisburðir herma, þá veit ég ekki betur en að hv. þm. G.-K. hafi gefið fullkomlega tilefni til þess, að slík ummæli voru eftir honum höfð, sem hann var að fjargviðrast út af. Á stúdentafundi, sem haldinn var hér í bænum í hitteðfyrra (1931) um bannmálið, sagði hv. þm. G.-K., að Jóhannes Jósefsson á hótel Borg hefði verið dæmdur fyrir brot á áfengislöggjöfinni vegna þess, að hann sjálfur og ýmsir aðrir þm. hefðu leitað svo sterkt á hótelstjórann, með heitum bænum og harmatölum, að gera sér úrlausn um útvegun vinfanga utan hins lögákveðna veitingatíma; hótelstjórinn hefði veitt þeim þessa úrlausn og fengið sektardóm fyrir. Ég veit ekki, hvað stórtemplar kann að hafa sagt um hv. þm. G.-K. eða haft eftir honum, en ég hygg, að það hafi átt sér mikla réttlætingu. Hv. þm. G.-K. er sem sagt þekktur að því að hafa það til að tala nokkuð ógætilega, jafnvel um sjálfan sig. Meira að segja hafa verið höfð eftir hv. þm. frá framboðsfundum ýms óvarleg ummæli, sem hann hefir ekki mótmælt. (ÓTh: Hver hefir sagt hv. þm. frá þeim?). Já, ég hefi ekki orðið þess var, að hv. þm. G.-K. hafi mótmælt þeim, og eftir því sem ég þekki hv. þm., þá veit ég, að hann er oft sér staklega ógætinn í orðum.

Ég ætla mér ekki að öllu leyti að forsvara framkomu templara. Ég veit, að þeir menn, sem mest halda uppi svörum fyrir regluna, geta líka talað ógætilega, og máske um skör fram. En að ætlast til þess, að gott málefni verði látið gjalda þess, það er alls ekki rétt og nær vitanlega ekki nokkurri átt. — Ég ætla svo ekki að tala neitt frekar um efni þáltill.; það er hlutverk hv. flm. að mæla fyrir henni. Í ræðu hv. þm. G.-K. komu engin rök fram gegn efni þáltill., og engin önnur ástæða en sú, að einstakir þm. hefðu orðið fyrir árásum í ræðum frá hálfu þeirra manna, sem eru málsvarar templara. Ég álít, að framkoma Alþingis gagnvart reglunni í þessu máli hafi frá upphafi, eða síðan 1911, verið mjög óviðfelldin, mig langar til að segja ósæmileg. Góðtemplarareglan hefir alltaf goldið þess, að ýmsir einstakir þm. hafa horn í síðu hennar og spilla fyrir málefnum hennar. Því að allt, sem sagt hefir verið um það frá upphafi, að Alþingi þyrfti einhverntíma að nota þessa lóð templara vegna stækkunar á þinghúsinu, er ástæðulaus þvættingur, sem ekki hefir við nein rök að styðjast. Ef Alþingi þykist hafa sakir á hendur góðtemplarareglunni, þá er ég viss um, að þær eru ekki síður á hinn veginn.