15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (1940)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ólafur Thors:

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að sér hefði þótt miklu eðlilegra, að ég hefði dregið þennan stórtemplar fyrir lög og dóm heldur en að nota þá aðferð, sem ég nú hafði. Ég get ekki verið honum sammála um það, því að þótt ég hefði stefnt þessum manni og fengið hann dæmdan, þá geri ég ráð fyrir, að það hefði ekki haft nein áhrif á það allt og vinsældir, sem hann nýtur innan síns félagsskapar. En ef löggjafarnir, þingbræður mínir, vildu sýna mér og öðrum hv. þm., sem hafa orðið fyrir óverðskuldaðri árás af hendi þessa manns, drenglyndi, þá munu þeir neita reglunni um styrk þar til hún hefir fengið sér aðra og virðulegri forstöðu. Annars óska ég ekki, og að óreyndu treysti ég þingbræðrum mínum til þessa.

Ég vænti þess nú, að hv. 1. þm. Reykv. skilji það, að sú leið, sem ég hefi farið, er líklegri til þess að hafa þau áhrif, sem ég óskaði eftir.