15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (1949)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Tryggvi Þórhallsson:

Tveir hv. þm. hafa látið þau orð falla, að þeir teldu ekki ríkinu neinn akk í lóð templara, og telja, að templarar ættu að fá að halda lóðinni og fara með hana eins og þeim sýnist. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að til Alþ. hafa komið tilmæli frá templurum um, að þeir mættu nota lóðina, og voru meira að segja byrjaðir að byggja á henni, en þá var þeim neitað um það af Alþ. Einnig kom til mála, að lóðin yrði keypt til þess að byggja á henni nýju símastöðina, en Alþingi mótmælti því einróma. Ég man ekki betur en að sent hafi verið mótmælaskjal gegn þessum kaupum, undirskrifað af öllum forsetum Alþingis. (TT: Alþingi getur breytt um skoðun). Ég veit það, en hingað til hefir Alþingi neitað eindregið öllum tilmælum í þessa átt. En ég viðurkenni, að nýtt viðhorf skapist með nýjum vilja Alþingis, ef fram kæmi.