28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (1968)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Þetta er í seinasta skipti, sem ég hefi leyfi til að tala í þessu máli, og skal ég ekki vera mjög langorður, en þó eru nokkur atriði, sem ég hlýt að svara. — Hv. 4. þm. Reykv. minntist nokkuð á þetta mál og ræddi um það fram og aftur. M. a. minntist hann á till. okkar minni hl. í því sambandi. Ég vil taka það fram, að það er á valdi stj., hvenær eignin verður keypt. Það er ekki bundið neinum ákveðnum tímamörkum. Verður það að okkar áliti að vera komið undir samkomulagi ríkisstj. og góðtemplara. — Þá spurði þessi hv. þm., hvort við gætum sett tryggingu fyrir því, að reglan fengi ríflegan styrk á næsta þingi. Ég held, að það sé óþarfi að spyrja þannig, því að hvorugur okkar og enginn þeirra, sem hér eiga sæti nú, eiga víst að sitja næsta þing. Getur því enginn slíka tryggingu sett. En ef ég ætti sæti hér á næsta þingi, myndi ég frekar stuðla að því, að reglan fengi styrk. Annað hefi ég ekki um það sagt. — Þá var það hv. þm. Borgf., sem lét svo um mælt, að honum þætti lítil vinsemd felast í till. okkar minni hl. Í till. er ekki gert annað en að reyna að binda enda á þetta vandamál, sem hefir verið að vefjast fyrir þinginu í mörg, mörg ár. Fyrir okkur er þetta algert viðskiptamál og við viljum halda því algerlega á viðskiptalegum grundvelli. Templarar vilja gjarnan losna við húsið og lóðina. Við gefum kost á, að þingið kaupi þetta fyrir sannvirði, að dómi óvilhallra, dómkvaddra manna. Ég get ekki gengið inn á, að hér sé verið að blanda inn í styrk eða öðru, sem er óviðkomandi, því á að halda utan við og meiri hl. fjvn. viðurkennir þetta í reyndinni með till. sinni, því að hún klýfur hina upphaflegu till. í sundur og áætlar kaupverðið 75 þús. kr., sem meiri hl. n. telur vera mjög nærri því rétta, miðað við sölu slíkra húsa og lóða hér í Reykjavík. Minni hl. telur, að þeir hafi ekki hitt á hinar réttu tölur, og því eðlilegra að fara leið minni hl., því að í raun og veru á þetta að haldast, öðrum þætti a. m. k., sem hreint viðskiptamál. Því ekki að gegnumfæra málið og gera það algerlega hreint?

Hv. þm. Borgf. sagði, að templurum myndi ekki nein þægð í þessari till. Ég segi bara: Þeir um það. Þeir geta gert það upp við sjálfa sig. En þó gæti nú svo farið, að þeir ættu ekki önnur boð betri en þau, sem hér liggja fyrir. Ég get sem sé varla séð, eða þykir a. m. k. ósennilegt, að hús, sem stendur á annara lóð og sú kvöð fylgir að verða að fara burt með það, þegar eigendunum þóknast, að það sé seljanlegt fyrir hærra verð en óvilhallir, dómkvaddir menn meta.

Ég skal ekki ræða mikið um þau olnbogaskot, sem hv. þm. Borgf. var að gefa okkur andmælendunum, bæði meirihlutatill. og svo andmælendum hinnar upphaflegu till., sem nú virðist eiga að hverfa úr sögunni. Hv. þm. vildi skoða það sem fjandskap við regluna, sem kæmi þar í ljós. Ég skal láta það liggja milli hluta og ekki fara neitt að verja mig persónulega eða aðra þá, er að þessu máli standa. En ég hefi ekki getað komið því inn í mitt höfuð, þrátt fyrir nokkra viðleitni hv. þm. Borgf., að bindindisstarfseminni í Reykjavík væri svo mikill fengur að þessari tryggingu, að á því mundi velta öll framtíð þessa máls, að þeir naeðu nú að byggja hér höll fyrir 1/4 millj. En það mun láta nærri, að sé su upphæð, sem þeir ætla að byggja fyrir. Ég býst við, að bindindisstarfsemin græði ákaflega lítið á þessu, a. m. k. hlaupi ekki neinn fjörkippur í starfið úti um land. Ef hér hefði verið að ræða um annan félagsskap en góðtemplara, þá þekki ég hv. hm. Borgf. illa, ef hann hefði ekki snúizt öndverður í slíku máli. En það er um hann eins og ýmsa aðra templara, að þeir sjá nálega svart, þegar rætt er um bindindismál, svo það er ekki hægt að koma nokkru viti fyrir þá með neinum skynsamlegum röksemdum. Hann taldi, að með þeim ábyrgðarheimildum, sem við höfum samþ. í fjvn., værum við að binda vilja síðari þinga. Ég sé ekki neitt ósamræmi í gerðum minni hl. og ræðum hans. Við höfum haldið því fram, að slíkar till. gætu ekki samkv. eðli sínu verið bindandi, nema þar fylgdu á eftir samningar. Og það er svo um ábyrgðarheimildir. Ég veit ekki betur en að nú sé verið að leita endurveitingar á gamalli ábyrgðarheimild, sem ekki hefir verið bundin neinum samningum og ekki notuð; hún hefir því verið talin gengin úr gildi. Það hefir verið lítið svo á af hlutaðeigendum, að þetta gilti í raun og veru ekki lengur. Fyrri þing geta ekki bundið núv. þm. með þeim ákvæðum, sem þau þá gerðu. Ég sé ekki, að við seum að neinu leyti í ósamræmi við gerðir okkar í málinu. — Loksins kom svo að lokaþætti hjá hv. þm. Borgf., sem var sá, að það væru jafnvel villandi upplýsingar, sem ég hefði komið með viðvíkjandi lóðinni. Ég sneri mér fyrst til tollstjórans í Reykjavík, Jóns Hermannssonar, en hann visaði mér til Sigurjóns Sigurðssonar og sagði mér, að hann hefði öli gögn þessu viðvíkjandi og hjá honum gæti ég fengið hinar fyllstu upplýsingar. Skildist mér, að hann hefði verið ritari hjá n., eða a. m. k. haft mikið með þetta að gera. Þessi maður skýrði mér frá því, að á stærð lóðarinnar hefði engin breyting orðið síðan 1916, og ég vil benda heim, sem efast um þetta, á að bera saman lóðarstærðina, 892 m2, við þá tölu, sem gefin er upp í málsskjölunum, þar sem málið er rekið fyrir hæstarétti, og sjá þar, hvort um er að ræða lóð templara eina eða lóðina í heild. Það er ljósasta sönnunin, sem ekki er hægt að vefengja.