28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (1971)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég geri ráð fyrir, að stj. myndi ekki telja sér heimilt að afhenda neitt það, sem nú er eign ríkissjóðs, eftir dagskrártill., þótt samþ. væri í annari deildinni. En ef færi í gegnum báðar d. till. um slíka afhendingu, þá væri komin full heimild til þess. Annars er ég ekki sammála dagskrártill. um það, að ríkið eigi að sleppa þessari lóð. Það er sama, hvað þarna á að byggja. Eignin er verðmæt. Ríkið á ekki að afsala sér, a. m. k. ekki fyrir ekki neitt, möguleika þeim, sem nú er fyrir hendi til að eignast þessa lóð. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að það væri hrein verzlun, ef áfengislöggjöfinni yrði breytt, að stúkurnar yrðu þá jafnframt styrktar. Þetta er engin verzlun. Það er bæði orsök og afleiðing og ekki nema eðlilegt, að orsökin fari á undan afleiðingunni. Og þess vegna er það einnig eðlilegt, að styrkurinn verði veittur síðar sem afleiðing þess, að lögunum hafi áður verið breytt.

Þegar talað er um verzlun í þessum efnum, þá styrkir það aðeins þá röngu hugmynd hv. 1. þm. Reykv. og ef til vill fleiri, að það eigi máske að þrýsta stúkunum til þess að breyta starfsháttum sínum. Það eigi að verzla þannig, að stúkurnar fái 100 þús. kr., ef templarar lofi því að hætta starfsemi sinni og e. t. v. að drekka upp alla fjárhæðina. Það er engin verzlun að veita góðtemplarareglunni styrk til bindindisstarfsemi í landinu og breyta áfengislöggjöfinni í samræmi við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þetta tvennt er ekki andstætt, heldur á það samleið.

Um afstöðu mína gagnvart öðrum till. til nýrra útgjalda úr ríkissjóði, sem fram hafa komið á þessu aukaþingi, skal ég segja hv. þm. Borgf. það, að ég mun ekki styðja þær né styrkja, enda þótt ég treysti mér hinsvegar ekki til að drekkja þeim í orðaflóði. — þetta eru flest kjördæma- og kjörfylgistillögur, sem ýmsum hv. þm. kemur vel að hafa heim með sér, til þess að njóta þeirra við næstu kosningar. En ég treysti því, að á næsta þingi verði þær teknar til ýtarlegrar athugunar og að örlög þeirra verði þá endanlega ákveðin. En um till. þá, sem borin hefir verið fram í hv. Ed. um endurveitingu á 100 þús. kr. úr ríkissjóði til sundhallarinnar í Rvík, eru alveg sérstakar ástæður fyrir hendi. Stj. var skylt að leggja þessa upphæð fram fyrir tveim árum, þegar þess var krafizt af Reykjavíkurbæ, en þá var neitað um það á sínum tíma. Nú er greiðsluheimildin fallin úr gildi, en hinsvegar hefir Rvíkurbæ er lagt fram þrefalda upphæð á við ríkissjóð til sundhallarinnar. Þess vegna er ekki hægt með réttum rökum að neita um þessa fjárveitingu. (PO: En það vantar peninga til þess jafnt fyrir því). Já, það vantar peninga, en stj. hefir líka sagt, að hún gæti ekki á þessu þingi gefið fullnaðarsvar um þetta framlag úr ríkissjóði, heldur mundi það síðar verða gefið borgarstjóranum í Reykjavík, áður en verkið yrði hafið. Hinsvegar er ég mótfallinn þeirri þáltill., sem nú liggur hér fyrir í Nd., að ákveðið verði á þessu þingi 200 þús. kr. framlag til sundhallarinnar. Sú ákvörðun verður að bíða næsta þings, hvort ríkissjóður á að leggja meira fram til þessa fyrirtækis en þingið skuldbatt sig til í upphafi. En hitt er hægt að ákveða nú, hvort stj. skuli greiða það framlag, sem áður var búið að lofa.