02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

2. mál, kosningar til Alþingis

Ingvar Pálmason:

Þessi till., sem hér liggur fyrir, komst til tals í n., en fékk þar ekki það mikið fylgi, að n. gæti borið hana fram. Nú hefir hv. 5. landsk. flutt till. og talað fyrir henni, og hv. frsm. minntist á hana líka. En svo einkennilega vill til, að þessir hv. þm. hafa talað fyrir henni hvor á sinn hátt.

Menn hafa nú heyrt til hv. 5. landsk., og það má vel vera, að að ýmsu leyti væri vel viðeigandi að hafa ekki kjörfund á sunnudegi. Hinsvegar er það staðreynd, að fólk aðhefst margt á sunnudögum, sem er ekki að neinu leyti betur í samræmi við helgi dagsins heldur en að gæta þeirrar borgaralegu skyldu að greiða atkv. á kjörfundi.

Hv. frsm. færði það aftur fram sem rök í málinu, að það væri Reykvíkingum hentugt að hafa kjörfund á laugardegi, vegna þess, að á sunnudögum færi svo margt fólk burt úr bænum af eðlilegum ástæðum, því að það er ekki nema eðlilegt, að menn vilji nota sunnndaginn til að lyfta sér upp. Ég viðurkenni, að þetta getur valdið erfiðleikum fyrir suma, en hitt þarf ekki að fæla menn frá að hafa kjörfund á sunnudegi, því að hér í bæ eiga menn hægt með að gera hvorttveggja, fara á kjörfund og ganga í kirkju, og ég held, að þetta geti ekki heldur talizt að þjóna tveimur herrum og sé vel samrýmanlegt, en annarsstaðar á landinu er vitanlega óhægt um það, a. m. k. í sveitum.

Þá er annars að gæta. Það er svo með mikinn hluta landsmanna, að þeir mega ekki á þessum tíma árs, sem er mikill annatími, missa neinn tíma nema þann, sem þeim er ætlaður til hvíldar, og reynslan er sú, að kjörfundur er miklu betur sóttur í sveitum, ef hann er á sunnudegi, og er það af eðlilegum ástæðum.

Þá kom hv. 5. landsk. með það, að hægara væri að sækja kjörfund á laugardegi en aðra daga, af því að þá væru menn lausari við störf heldur en aðra daga. Mig furðar á, að þetta skuli vera borið hér fram af kvenþm., því að allir vita, að hjá húsmæðrum eru störfin einna mest á laugardögum. Konum er því sérstaklega gert erfitt fyrir að sækja kjörfund, ef hann er haldinn á laugardegi. Hv. þm. gerir því konum engan greiða með þessari till. sinni.

Þegar líka gætt er að því, hvernig ástatt er um trúmál hér á landi, þá held ég, að það sé engin goðgá, þó að tekið sé tillit til ástæðna manna með því að leyfa þeim að kjósa á sunnudegi einu sinni á kannske 4 árum. Það getur ekki verið mikið brot á kristindóminum í landinu. Ég er líka hræddur um, að þeir, sem sækja vel kirkju, setji þetta ekki helzt fyrir sig, því að þeim, sem áhugasamastir eru um kirkjugöngur, er alls ekki meinað það með þessu.