30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (1980)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Þorsteinn Þorsteinsson [óyfirl.]:

Þegar kaup og sala fer fram, Þá þykir það ávallt æskilegast og mikilsvert, að viðskiptin séu hrein og byggð á heilbrigðum grundvelli. En hér virðist kveða við annan tón í þáltill. þeirri, sem samþ. var í þessu máli í fyrradag. Matsverð það, sem lagt var til grundvallar þar, var á miklu stærri lóð en þeirri, sem kaupa á. Lóðin, sem kaupa á, er aðeins 1/3 af allri þeirri lóð, sem virt var vð fasteignamatið sem lóð sú, sem fylgdi templarahúsinu. Það mun láta nærri, að lóðin öll sé virt um 25 þús. kr. og húsið rúmar 25 þús. Verður hið raunverulega fasteignamat eignar þeirrar, sem selja á, sem sé húsið og 1/3 þjóðarinnar, um 33 þús. kr. sé nú bætt við fasteignamatið 25%, sem er talið fyllsta álag á það, þegar selja á hús og lóðir í bænum. verður sannvirði eignarinnar um 40 þús. kr. þessa eign á ríkið nú að kaupa fyrir 75 þús. Á þessu má sjá, hvernig kaup ríkissjóði er ætlað að gera í þessum viðskiptum. Ég fyrir mitt leyti verð því að taka það fram, að ég tel með öllu ósamboðið virðingu þingsins að ganga út á slíka verzlunarbraut sem þessa. Það heldur því aðeins áliti sínu og virðingu, að það leggi ekki út í neitt brask, heldur kaupi þær eignir, sem það vill fá eignarhald á, fyrir sannvirði, en sannvirði eignanna er bezt tryggt með því að láta óvilhalla menn meta þær. Verði horfið að því ráði að kaupa þessa eign góðtemplara, þá tel ég alveg sjálfsagt, að þeim kaupum verði alveg haldið sérskildum við allar styrkveitingar til reglunnar, eins og við í minni hl. fjvn. leggjum til. Að blanda því hvorutveggja saman, eins og að nokkru leyti er gert í till. meiri hl., er alls ekki rétt. Styrk þann, sem reglan fær, hvort heldur hann er til húsbyggingar eða annars, ber að telja sérstaklega, en fela hann ekki í öðrum gjaldaliðum.

Um gjöf þá, sem hér er farið fram á til handa reglunni, er það að segja, að mér finnst það nokkuð mikið örlæti að troða upp á hana fasteignum ríkissjóðs, og það gefins, án þess að nokkur ósk um slíkt hafi komið frá henni sjálfri, og því spursmál, hvort hún í raun og veru kærir sig nokkuð um slíka gjöf. Þá er og ekkert tekið fram um það, að reglan megi ekki braska með lóð þessa, selja hana hverjum sem bezt býður. En það væri þó hið minnsta skilyrði, sem hægt væri að setja, að hún yrði að byggja á lóðinni sjálf. Annars verð ég að telja það mjög varhugavert fyrir ríkið að ganga inn á þá braut að fleygja frá sér lóðum eða lóðaportum, sem það á í beztu stöðum bæjarins, og má vel vera, að sá tími komi, að það þyki verr farið, að lóð sú, sem hér er um að ræða, hafi verið látin úr eign ríkissjóðs. Ég er því alveg mótfallinn því að selja lóð þessa að svo vöxnu máli.