30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (1983)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Jakob Möller:

Ég held, að það hefði verið eins vel farið, að þeir hv. þdm., sem stóðu fyrir þessari umr. um brtt., hefðu látið umr. niður falla; a. m. k. held ég, að þeir hafi lítið á henni grætt til hnekkis fyrir brtt. Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að Alþingi ætti ekki að styrkja góðtemplara, því þdm. gætu átt það á hættu, að þeir notuðu styrktarféð til þess að vinna gegn kosningu ákveðinna þingmanna. Kannske hann sé að hugsa um að tilskilja það, að templarar heiti sér ekki gegn kosningu ákveðinna manna. Ég verð að segja það, að ég kann illa við, þegar verið er að tala um þetta góða mál, að blandað sé inn í umr. slíkum hugleiðingum. Ég held næstum, að þessi ræða hv. þm. G.-K. hefði alveg mátt falla niður.

Um ræðu hv. þm. Dal. má í raun og veru sama segja. Hann byrjaði á því að tala um, að hann vissi raunar ekki, hvort templarar kærðu sig nokkuð um þessa lóð. Hv. hm. er ókunnugt um það, að deila hefir staðið í mörg ár um þessa lóð milli templara annarsvegar og Alþingis hinsvegar, deila, sem var sótt svo fast, að hún endaði ekki fyrr en með hæstaréttardómi. Vitanlega hafa templarar alltaf viljað fá lóðina.

Þá flutti hv. 2. þm. Skagf. langan pistil um þá hálu braut, sem Alþingi væri komið út á ef það samþ. brtt., að gefa lóðir til hægri og vinstri. En hann veit það ekki, þessi hv. þm., að Alþingi er skyldað til þess með hæstaréttardómi að láta templara fá lóð á hentugnm stað fyrir þessa lóðarræmu. Þetta er hægt að sanna, en ég afþakkaði, að skjölin væru send mér hingað, af því ég gerði ekki ráð fyrir, að nokkur þdm. mundi mótmæla hæstaréttardómi.

Jafnvel þó hv. 2. þm. Skagf. hefði ekki gefið tilefni til þess, þá er rétt að rifja dálítið upp sögu þessa ljóðarmáls, og skal það nú gert.

Það er þá fyrst, að góðtemplarareglunni er útmæld lóð eftir heiðni, lóð, sem var þá að öllu leyti í tjörninni, en útmæling sú var gerð með því skilyrði, að hús það, er þeir byggðu þar, skyldi verða flutt burt þegar Alþingi krefðist þess. En góðtemplarar vildu ekki hlíta þessu og neituðu að taka við lóðinni með þessu skilyrði. Síðan fór fram önnur útmæling á lóðinni, og þá eru templarar látnir standa í þeirri meiningu, að lóðin sé latin alveg kvaðalaust. Vitanlega hefðu þeir annars ekki tekið við lóðinni þá með kvöð fremur en við fyrri útmælinguna, par sem þeir hefðu þá að sjálfsögðu getað fengið eins góða lóð annarsstaðar og kvaðalausa. En það kemur ekki upp fyrr en mörgum árum síðar, að hin sama kvöð hefir verið látin hvíla á lóðinni við hina síðari útmælingu; hafði henni þá verið laumað inn í útmælingabókina án þess þeir, sem við lóðinni tóku, fengju nokkuð um það að vita. Þannig var með prettum réttur templara takmarkaður til hagsmuna fyrir Alþingi, sem þó ekkert hafði eða hefir með lóðina að gera. Lóð Alþingis er nægilega stór. Það sýnist engin ástæða til að hafa autt stórt svæði bak við alþingishúsið. Bakhlið hússins var með viðbótarbyggingunni 1908 gerð svo ljót, að engin prýði getur orðið að því, að hún sjáist frá Vonarstræti, og hvað sólina snertir, þá eru litlar líkur til þess að bygging templara yrði svo þá, að hún tæki sól frá suðurgluggum þinghússins.

Hv. þm. var að bera þessa lóð saman við lóðina í Kirkjustraeti 12, þar sem er hús Halldórs heitins Friðrikssonar, en þar var allt öðru máli að gegna. Sú lóð var til sölu ásamt gömlu húsi í því ástandi, að ekki voru líkur til annars en að það yrði selt einhverjum og einhverjum, sem síðan rifi það og byggði þar e. t. v. stórhýsi, er byrgt hefði næstum því fyrir gluggana á efri deild Alþingis. Það var því einskonar neyðarvörn, er þetta hús var keypt, og það var allt önnur og ríkari ástæða, sem lá þar á bak við, heldur en til greina kemur um lóðina í Vonarstræti. Lóðin Kirkjustræti 12 var alls ekki keypt til þess að stækka alþingishúsið vestur, heldur til þess að varna því, að byrgt yrði fyrir gluggana á Ed.

Það hefir frá upphafi aldrei verið nein ástæða til þess fyrir Alþingi að ásælast templaralóðina. Bréf það, sem hv. 2. þm. Skagf. las hér upp, kemur ekki öðrum við en þeim hv. þm., er undir það hafa ritað, og er ekki að neinu leyti bindandi fyrir Alþingi. Það sýnir ekkert annað en það, að þeir hafa látið undan hinum harðvítugu agitationum, sem frá upphafi hafa verið fluttar móti templurum í þessu máli. Það er alkunnugt, að allur þessi úlfaþytur og undirróður gegn templurum í málinu er ekki sprottinn af öðru en meinfýsi og beinum fjandskap gegn starfsemi reglunnar. (JS: Ekki hefir það verið gagnvart símastöðinni). Þeir urðu nú að finna sér til einhverja málamyndaástæðu til þess að geta sýnzt vera stöðugir í rasinni. En svo er allt öðru máli að gegna með símastöðina, sem er fimm hæðir, eða hús góðtemplara, sem ekki yrði nema tvær til þrjár hæðir. Forsetarnir gátu verið einhuga andvígir því, að byggt yrði á Ióðinni fimm hæða hús, þó þeir sæju ekkert athugavert við að byggja þar miklu lægra hús. Það verður ekki af skafið, að framkoma Alþingis í þessu máli hefir verið því til vansa frá því fyrsta að laumað var kvöðinni inn í útmælingargerðina. Það eitt er nú sæmandi fyrir Alþingi að láta lóðina strax af hendi, og því fyrr sem það er gert, því betur vinnur það til baka álit og heiður í þessu máli. Þess vegna er mér ljúfara að samþ. brtt. heldur en aðaltill., þó ég vitanlega greiði henni atkv., ef brtt. verður felld.