30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (1986)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Pétur Ottesen:

Það er ekki ástæða til fyrir okkur í meiri hl. fjvn. að fara nú mörgum orðum um þetta mál. Okkar till. fengu þann dóm við atkvgr., að þær væru réttar og sanngjarnar. Þær voru samþ. Hitt er augljóst, að minni hl. fjvn. þykist hafa borið skarðan hlut frá borði, þar sem hans till. voru felldar. Það er mjög ábærilegt kapp, sem minni hl. fjvn. leggur á að spilla fyrir þessu máli. Hafa þeir nú enn á ný báðir minnihl.mennirnir rokið upp með miklum bægslagangi, og er þó hvorugur þeirra mikill málskrafsmaður, og segi ég það þeim eigi til lasts.

Það er eftirtektarvert, hvernig báðir þessir hv. þm. reyna að spilla fyrir málinu með því að ræða þá menn, sem staðið hafa fyrir bindindisstarfseminni hér á landi, og reyna með hinni mestu lævísi að gera allt þeirra mikla og óeigingjarna starf tortryygilegt.

Ég mun ekki svara hv. þm. G.-K. sérstaklega. Hann getur tekið til sín það af þessum orðum mínum, sem hann á.

Að því er snertir það, að láta lóðina af hendi kvaðalausa, er reynt að spilla fyrir því á þeim grundvelli, að ekki sé tryggt, að templarar fari ekki að braska með hana. M. ö. o., það á ekki að vera tryggt, að hún verði notuð í þágu bindindisstarfseminnar. Þessar og þvílíkar ástæður notar hv. minni hl. til að spilla fyrir málinu. Ég held það því ekki ofmælt, þótt ég segi, að framkoma þessara hv. þm. hafi sýnt lítinn góðvilja til bindindisstarfseminnar. Þeirra till. hafa verið þeirri starfsemi Iítils virði, og nú, þegar fram kemur till. um að rétta heim höndina til samkomulags, eru þeir sama sinnis og þykjast ekki geta séð af þessu lítilræði. Þá er og athugavert, hvaða aðrar ástæður þeir bera fram til blekkinga: helgi og velferð Alþingis í framtíðinni. Það má ekki láta lóðina af því, að seinna gæti risið þar hús, sem skyggði á þinghúsið. Það er auðséð, að þarna vakir ekki fyrir þeim umhyggja fyrir því, að þeir, er sæti eiga á Alþingi, verði þá ekki alltaf sólarmegin, heldur einmitt óttinn við það, að bindindismenn kynnu að verða þarna sólarmegin. Mér er framkoma þessara manna í þessu máli hryggðarefni, því að þetta eru annars sanngjarnir menn, þó að þeir hafi villzt þarna svona hrapallega.

Þá reyndi hv. 2. þm. Skagf. að gera það hlægilegt, sem gerzt hefði í lóðarmálinu hingað til. Hann sagði, að það væri hlægilegt, að Alþingi væri að gefa frá sér lóðir og svo aftur að kaupa lóðir. Í þeim tilfellum, sem Alþingi hefir látið lóðir af hendi rakna, er það handa opinberum stofnunum, eins og t. d. Fiskifélaginu. Þessar lóðir ríkisins eru enginn helgidómur, sem ekki má snerta við. Í sambandi við þetta vil ég benda hv. þm. á, að hann ætti ekki að dæma þetta svona hart. Sumir hafa talið, að þegar ríkið selur jarðir, þá sé það að gefa þær. Hv. þm. hefir alltaf verið því fylgjandi, að ríkið seldi jarðir, eins og ég og fleiri, af því að sú ráðstöfun er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Æti hann því ekki að vera að fetta fingur út í það, þó að ríkið seldi þessa lóðarræmu.