30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (1987)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson):

Það má ekki minna vera en ég svari nokkrum orðum. Vil ég þá fyrst byrja á hv. 1. hm. Reykv. Hann sagði, að því hefði verið slegið föstu með hæstaréttardómi, að ríkið skyldi skaffa góðtemplurum lóð. Þessu mótmælti ég þá. Ég hefi nú dóminn fyrir framan mig. Það er ekki rétt, að dómurinn leggi slíka kvöð á ríkið, hvert á móti. Í forsendu dómsins er sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt framansögðu verður þá að líta svo á, að stúkurnar „Einingin“ og „Verðandi“ hafi öðlazt einungis tímabundinn og skildagaðan eignarrétt yfir allri lóðinni fyrir norðan góðtemplarahúsið og að alþingishússgarðinum, allri lóðinni undir góðtemplarahúsinu og 5 álna breiðri ræmu fyrir sunnan það, þannig að þeim hafi verið skylt að flytja burt húsið á sinn kostnað og láta lóðina af hendi endurgjaldslaust frá landsstjórninni, þegar hún þyrfti á lóðinni að halda og krefðist hennar“.

Málsskjölin hér að framan bera með sér, að Reykjavíkurbær hefir látið mæla þetta. Skilst mér, að sú kvöð, sem þar er sett á af þeim, sem afhendir, geti ekki færzt yfir á þann, sem við tekur, heldur hljóti hún að færast yfir á Reykjavíkurbæ. Ef templarar telja sig eiga kröfu á þessu, því hafa þeir þá ekki krafizt þess? (JakM: Það hafa þeir gert). Ég sé ekkert fyrir því í dómnum.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að þegar hús Halldórs heitins Friðrikssonar hafi verið keypt, þá hafi það verið þess vegna, að búizt væri við, að þar kæmi upp háreist bygging, sem gera myndi skuggsýnt í efri deild. Töldu allir þetta sjálfsagt.

Hv. þm. Snæf. sagði, að verið væri að lækka útgjöld ríkisins úr 150 þús. kr. niður í 30 þús. Ég varð undrandi yfir því, að hv. þm. skyldi koma með svona rök. Dettur honum í hug, að templarar láti sér nægja að fái þessa lóð? Þeir, sem hafa farið fram á að fá 200 þús.! Nei, það mun verða deginum ljósara, þegar fram líða stundir. Þeir eru frekari til fjárins en svo.

Þá talaði hv. þm. Borgf. nokkuð fyrir hönd meiri hl. fjvn. Vék hann nokkrum orðum að okkur í minni hl. og þótti við málgefnari en hann hafði átt von á. Held ég nú, að hv. þm. Borgf. hafi ekki ástæðu til að láta sér ofbjóða allt. Hann hefir nú undanfarin þing verið allhár og skotizt meira að segja stundum upp fyrir alla ráðherrana. Ætti honum sízt að ofbjóða, þó að hv. þm. Dal. og ég stæðum upp í Þessu máli. Í þessu máli hefir hann sjálfur gengið fram fyrir skjöld Tryggva Þórhallssonar, sem ekki er almennt talinn neinn aukvisi. Held ég, að hann hefði mátt sitja rólegur með forystu hans, ef hann hefði viljað stytta umr.

Hv. þm. sagði, að við vildum ekki, að templarar byggju sólarmegin. Ég hefi aldrei sagt það. Þeir mega byggja og búa sólarmegin fyrir mér, en mér finnst ekki þar fyrir nauðsynlegt, að þeir setji Alþingi í skugga. Það er enginn að meina góðtemplurum að byggja þar, sem þeir gætu fengið hentugan stað á móti sól. Ég get vel unnt þeim þess. Slíkt tal hjá hv. þm. er því ekkert annað en útúrsnúningur.

Þá talaði hv. þm. um, að allmikils ósamræmis kenndi um þessar lóðargjafir. En þær hafa farið til þarflegra stofnana. En hv. þm. Borgf. hefir stundum lagzt á anoti þessum lóðargjöfum. (PO: Nei, ekki undir þarfar stofnanir). Jú, vissulega, og með réttu.

Þá vildi hann setja þetta í samband við það, að ég og fleiri vildu, að ríkissjóður seldi jarðir. En þar er um allt annað mál að ræða og ekkert hliðstætt þessu, vegna þess, að í jarðasölulögunum eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að ríkið selji alls ekki þær jarðir, sem líkur eru til, að þurfi að taka til almennra nota. Þessi l. gera það miklum erfiðleikum bundið að fá slíkar jarðir keyptar.

Hér er um samskonar eign að ræða. A. m. k. er það mjög sennilegt, að ríkið þurfi sjálft að nota þessa lóð. Ég þykist því ekki vera kominn í neitt ósamræmi við mín fyrri rök, þegar um jarðasölumálin var að ræða, þó að ég vilji leggja hömlur á, að slíkri lóð sem þessari, hér í miðbænum á góðum stað, sé fargað fyrirhyggjulaust úr eign ríkisins, þar sem miklar líkur eru til þess, að það þurfi að nota hana.