06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (1998)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég tek í sama strenginn og hv. 2. landsk. um það, að afgreiðsla þessa máls er í fyllsta máta óviðeigandi, því að með þessu er málinu aðeins drepið á dreif. Þessi lausn gæti komið til tals þannig, að Alþingi afsali sér formlega öllum rétti til lóðarinnar. Ég tek þetta fram, enda þótt ég sem þm. sé á móti afsali; en eins og málið liggur fyrir, þá er ráð sérstaklega dagskrártill., sem þarf að athuga. Samskonar till. var borin upp í Nd., og var felld, enda þótt fremur hafi verið hægt að festa hendur á henni heldur en þessari dagskrártill.

Þetta mál hefir svo lengi verið á döfinni, að ekki er vansalaust fyrir Alþingi að svara ekki hreint og beint. Alþingi hefir áður svarað með því að fara í mál við templara og fékk það dæmt sér í vil. Ef Alþingi hefir síðan skipt um skoðun, þá er rétt að ganga hreint til verka. En hér á þessu þingi er ekki þingvilji fyrir því að afsala sér réttinum til lóðarinnar. Og ég er ósammála hv. 1. landsk. um, að lóðin sé einskis virði fyrir Alþingi. Það má segja, að lóðin sé í sjálfu sér lítils virði til stækkunar í húsinu, en ef málið yrði samþ. eins og það liggur fyrir og Alþingi fengi full yfirráð yfir lóðinni suður að götu, þá álít ég það stóran gróða. Það getur vel verið, að skipulagsuppdráttur Reykjavíkur geri ráð fyrir því að fylla upp vikið og leggja götu beint austur eftir þeirri uppfyllingu, en ég held, að það mundi spilla mjög útsýni frá alþingishúsinu, ef byggt yrði á uppfyllingunni, og þyrfti þá að gera ráðstafanir til, að svo yrði ekki gert.

Ég mun greiða atkv. á móti dagskrártill. og tel það ekki lengur sæmandi Alþingi að láta í þessu efni sitja við það, sem nú er.