06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (2002)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Pétur Magnússon:

Ég get ekki neitað því, að mér finnst til of mikils mælzt af þdm., að þeir myndi sér rökstudda skoðun á þessu máli eins og það liggur fyrir. Hér liggur nú fyrir till. um að kaupa eignir af góðtemplurum fyrir 75 þús. kr. og að veita þeim aðrar 75 þús. kr. sem byggingarstyrk til nýbyggingar, er þeir ætla að reisa. Við till., sem upphaflega var borin fram á þskj. 24, er engin grg. Er því ekki hægt að sjá ástæðurnar fyrir henni. Ég tel þó, að full ástæða hefði verið til þess, að betri skýring hefði verið á þessu gefin, því að það er ýmislegt, sem maður þyrfti að fé að vita, áður en hægt er að ákveða, hvernig greiða heri atkv. um þetta mál. Áður en þessi eign templara er keypt er t. d. nauðsynlegt að vita, hve mikinn hluta lóðarinnar þeir eiga og hvað mikið af lóðinni ríkið á. (JónÞ: Ekkert!). Það þýðir nú ekki að deila við dómarann um það, þar sem eignarskiptingu lóðarinnar er slegið fastri með dómi hæstaréttar. (JónÞ: Það er aðeins kvöð). Suðurhluti lóðarinnar er eign góðtemplara. Um það er enginn ágreiningur. En ég get ekki betur munað en að svo væri litið á, að Alþingi gæti hvenær sem væri, án endurgjalds, tekið til sinna umráða meiri hluta lóðarinnar, sé það rétt munað, getur eignarhluti templara í lóðinni naumast verið mjög mikils virði. Auk lóðarinnar er að vísu húsið, sem á henni stendur, en ef það er ónógt fyrir þennan félagsskap þá er það sennilega lítils virði fyrir ríkissjóð. — En svo eru ýms fleiri atriði þessu máli viðvíkjandi, sem þörf væri á, að upplýst væru, áður en hægt er að taka akvörðun um, hvort nauðsynlegt sé að veita góðtemplarareglunni 75 þús. kr. byggingarstyrk. Hver þörf er á byggingu þessari fyrir regluna? Ég fyrir mitt leyti veit ekkert um það. Og ekkert hefir verið upplýst um það. Við þetta hús, sem nú á að selja ríkinu, hefir lengi verið bjargazt. Ég hygg nú, að ekki hafi fjölgað til muna í stúkunum hin síðari ár. Það má þó vera, að húsið sé orðið of lítið, en engin rök eru færð fram fyrir því. Ef meira húsrúm þarf vegna dansskemmtana reglunnar, þá má minna á, að ýms hús hafa verið reist hin síðustu ár, sem til þeirrar notkunar eru fallin, svo sem hótel Borg og Oddfellow-húsið. Er því allvel séð fyrir þeirri þörf í bænum. En húsnæðisleysi, sem orðið gæti til hindrunar starfsemi reglunnar, er hið eina, sem frambærilegt er til réttlætingar því að fara nú á aukaþingi að veita reglunni 75 þús. kr. húsbyggingarstyrk. — Annars er mér það ógeðfellt, hversu algengt það er orðið, að allskonar félagsskapur, sem stofnaður er í góðum tilgangi og menningarskyni og hafinn með frjálsum félagssamtökum, leiti með fjárbeiðnir til ríkissjóðsins jafnskjótt og eitthvað á að framkvæma. Þetta er svo alþekkt, að ég þarf engin dæmi að nefna því til sönnunar. En hið minnsta, sem verður að krefjast, þegar farið er fram á svona stór fjárframlög, tugi eða hundruð þúsunda, er, að beiðninni fylgi áætlun um framkvæmdina, í þessu tilfelli stærð hússins, fyrirkomulag, áætlaðan kostnað og hvar það á að standa. En upplýsingar liggja engar fyrir um þessi atriði.

Ég get að vissu leyti tekið undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ekki væri neitt óeðlilegt, þó þetta mál væri sett í samband við breyt. þær á áfengislöggjöfinni í samræmi við þjóðaratkvgr., sem fyrir liggur, að gerðar séu. Hann gat þess, að áhugi sá, sem templarar virðast hafa fyrir því að viðhalda þessum bannlagaleifum, sem enn eru eftir, gæti ekki stafað af öðru en að þeir teldu, að þær léttu undir störf þeirra og að þau verði þess vegna kostnaðarminni. Þeir eru nú efalaust margir, sem ekki koma auga á þau not, sem templarar hafa af bannlagaslitrunum. En ef þetta þó skyldi vera rétt hjá þeim, þá er full ástæða til að vera rífari á styrk þeim til handa til að halda uppi hófsemi á notkun áfengis, þegar þessari styttu, sem þeir telja sig hafa nú, verður kippt burt. Og þeir mega heldur ekki gleyma því, að möguleikarnir um framlög til templarareglunnar verða betri, ef áfengislöggjöfinni er komið í það horf, sem betra er og heppilegra fyrir alla, að tekjur ríkisins verði auknar með því að veita vininu meira um löglegar leiðir en núv. áfengislöggjöf gerir. Það er ekki nema eðlilegt, að stórfelld fjárframlög bíði þessarar breytingar. Og það væri heppilegra fyrir templara að vinna að heppilegri lausn þess máls, heldur en að streitast gegn þeirri breyt., sem alþjóðarvilji er fyrir, að gerð sé.

Það hafa komið fram skiptar skoðanir um það, hvort falla beri frá rétti Alþ. til góðtemplaralóðarinnar. Ég verð nú, eins og hv. 1. landsk., að álita, að það sé áhættulítið að falla frá þeirri kröfu. Sennilegast er, að þegar breytt verður til um híbýli Alþingis, verði nýtt alþingishús reist á allt öðrum stað. Ég get því verið með dagskrá hv. 1. landsk.

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 2. þm. S.-M., að ekki sé til nægilegur þingvilji í Nd. um að afgr. málið á þann hátt, sem dagskrá hv. 1. landsk. ráðgerir. Ef hv. þm. hefir verið við atkvgr. þar, þá hlýtur hann að hafa séð, að það voru einkum fylgismenn templara, sem greiddu atkv. gegn samskonar till., er þar kom fram. Það gerðu þeir vitanlega af því, að þeir vildu fá meira. Þeir, sem aftur á móti vilja fara hóglega í sakirnar, greiða atkv. með þessari lausn. Ég er því sannfærður um, að ekki stendur á Nd. með að samþ. slíka till., ef hún næði fram að ganga í þessari hv. deild.