02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

2. mál, kosningar til Alþingis

Ingvar Pálmason:

Ég heyrði það í síðari ræðu hv. 5. landsk., að það er aðalatriðið hjá honum, að hér sé verið að upphefja helgidagalöggjöfina. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá honum, því að því er þennan eina dag snertir, þá er þar bara gerð undantekning frá þessum l., og sé ég ekki, að það sé neitt óskaplegt lögbrot, og virðist mér, að ekki sé hægt að færa þetta fram sem ástæðu með þessari brtt. Hitt er annað mál og hefir við rök að styðjast, sem hv. frsm. og hv. 3. þm. Reykv. minntust á, að þetta eykur heldur á erfiðleika þeirra manna, sem vilja nota sunnudaginn til að fara burt úr bænum sér til hressingar. Hinsvegar er það svo, að þeir eiga miklu hægara með að kjósa utan kjörfundar heldur en flestir sveitarkjósendur, sem þurfa ef til vill að fara til þess sveitina á enda, en bæjarbúar kannske ekki nema í næsta hús. Hér er því mjög mikill aðstöðumunur. Þó að það kunni að vera nokkrum hluta landsmanna til óhagræðis að hafa kjörfund á sunnudag, þá er enginn vafi á því, að þegar á heildina er litið, er réttara að hafa kjörfund á sunnudegi.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að síðustu kosningar hefðu verið illa sóttar, enda þótt kosið hefði verið á sunnudegi, og kann það satt að vera, en þar kemur margt til greina, og er ómögulegt að segja, hvort það sé kjördeginum sjálfum að kenna.

Annars sé ég enga ástæðu til að karpa um þetta, það liggur alveg opið fyrir og er auðséð, að það er langt frá, að hér sé verið að upphefja helgidagalöggjöfina, heldur er henni breytt að því er tekur til þessa eina dags. Það sést á niðurlagi 155. gr. Þar segir svo, að þegar þessi 1. hafa fengið staðfestingu, falli úr gildi öll þau ákvæði í l., sem brjóti í bág við þessi 1. — Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta.