13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

15. mál, Kreppulánasjóður

Tryggvi Þórhallsson:

Nú eru um 5 mánuðir liðnir frá afgreiðslu Kreppulánasjóðslaganna. Sú afgreiðsla gekk mjög ágreiningslitið; hafi nokkur atkv. verið greidd gegn málinu, voru þau a. m. k. afarfá. Þessi löggjöf var mjög rækilega undirbúin, skýrslum var safnað og það var mikil vinna lögð í að finna leiðir út úr vandræðum þeim, sem yfir vofðu. Um þetta mál hafa margir aðilar fjallað, m. a. bóndaþingið. Nú eru heimtaðar stórar breyt. á þessum lögum með till. þeirri, er nú liggur hér fyrir. Ég vil benda á það, að engin ósk í þessa átt hefir komið frá stjórn sjóðsins. Við nánari athugun hefir komið í ljós, að eitt framkvæmdaratriði hefði mátt fara betur, nefnilega um veð í lausafé. Í því efni hafa 2 hv. þm. í Ed. borið fram brtt., en annars hefir ekki á neinu misjöfnu borið, og engin ný vandkvæði komið í ljós og engar nýjar óskir af þeirra hálfu, sem um þetta mál fjalla. Framkvæmdir eru þegar byrjaðar, um 700 umsækjendur hafa verið auglýstir, og stjórn sjóðsins hafa borizt svo margar umsóknir í viðbót, að líklegt þykir mér, að talan verði komin á þriðja þúsund um áramótin. Það er engum vafa bundið, að bændastéttin vottar bæði skilning og samúð í þessu máli og ber traust til þess, að löggjöfin komi að miklu gagni. Ennfremur vil ég minna á það, að nágrannar vorir, Svíar, hafa sett með sér löggjöf mjög líka þessari fyrir sína bændastétt. Ég vil og undirstrika það, að því fer fjarri, að frá hálfu þeirra, sem hér eiga hlut að máli, hafi komið fram nokkur ósk eða ábendingar um, að svona stórfelldar breyt. væru æskilegar.

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um þau 2 aðalatriði í brtt., sem ég held, að feli í sér stórskemmdir á löggjöfinni. Þá er fyrst till. um, að fellt sé burt ákvæði um auglýsinguna. Það ákvæði var rætt í fyrra bæði hér og eins í búnaðarþinginu, og þar voru allir sammála um, að þetta mætti ekki fella niður. Auglýsingin er einmitt höfuðtryggingin fyrir því, að jafnveitingin komi að notum, og fyrir, að lánþegi eigi vísa sæmilega afkomu á eftir; og enn er hún trygging gagnvart ríkissjóði. Ef ekki er auglýst, þá getur alltaf átt sér stað, að kröfur komi á eftir af ásettu ráði af hálfu þeirra kreditora, sem skapa sér þar með sérstöðu. Þá er engin trygging fyrir, að það fjármagn, sem ríkissjóður hefir af hendi latið, komi að notum.

Hv. flm. lét svo um mælt, að auglýsingin væri ráðstöfun, gerð til þess að fá að vita, hve mikið hefði verið sagt ósatt. þetta er eintómur misskilningur. Þessi ráðstöfun er gerð með það fyrir augum, að menn geti verið alveg öruggir um, að enginn komi á eftir og gangi að þeim og rýri þannig eða ónýti allt það gagn, sem af sjóðnum leiðir.

Það er langt frá því, að hið árlega framtal til skatts sé óbrigðul skýrsla. Og það eru margir, sem um sínar sakir tala, sem eiga yfir höfði sér kröfur, sem þeir vita ekki um; þær geta komið alveg á óvart — t. d. kom það nú nýlega fyrir í Búnaðarbankanum, að allt í einu kom fram krafa, sem hvergi var finnanleg í veðmálabókum. Þetta getur jafnvel komið fyrir um þinglýstar kröfur í fasteign. Svo getur líka komið fyrir, að menn gleymi visvitandi; það getur verið freistandi að bæta sinn hag í annara augum. Þetta er um skuldirnar að segja, en svo má ekki gleyma ábyrgðunum. Hvaða gagn er að því, að gert sé upp eftir munnlegri sögusögn, þegar alltaf má búast við, að gleymzt hafi að geta um einhverja ábyrgðina. Ég býst við því, að það séu ekki svo margir bændur, sem hafa allar sínar ábyrgðir nakvæmlega í huga hvenær sem er. Þessar ábyrgðir geta fallið á hvenær sem er. Ég get sagt um sjálfan mig, að ég gæti ekki nú að vörmu spori talið fram allar ábyrgðir, sem snerta sjálfan mig. Viðskiptalífið er orðið svo flókið, að ómögulegt er að treysta á aninnið. Og þegar ríkið leggur fram margar millj. króna mönnum til hjálpar, þá er ekkert vit í því að eiga það undir minni manna einu, hvort sú hjálp tekst eða ekki. Ríkið verður að hafa tryggingu fyrir því, að hjálpin komi að notum, og einstaklingarnir fyrir því, að þeir, sem kröfur eiga á hendur þeim, komi ekki með þær eftir á.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að nokkur óánægja var um þetta. Mér er kunnugt um það, því að hundruð manna hafa komið til mín til að tala um þetta, en það er áreiðanlegt, að nú orðið er ekki nema 10% eftir af þeirri óánægju. Því betur sem menn velta þessu fyrir sér, því betur sannfærast menn um, að með þessu er lagður tryggastur grundvöllur fyrir því, að þessi hjálp geti komið að fullum notum.

Annað atriði, sem hv. 1. flm. kom inn á, var það, að hann vildi að vísu láta gefa út þessar auglýsingar, en hann vildi ekki láta þær ná til annara en þeirra, sem ekki ættu fyrir skuldum. Sú hugsun liggur hér á bak við, að þeir einir, sem ekki eiga fyrir skuldum, eigi að fá afslatt af skuldum sínum. Ég álít, að ef þetta hefði verið sett í lög, þá hefði það dregið þann dilk á eftir sér, að mikill fjöldi bænda hefði ekki getað orðið þessarar hjálpar aðnjótandi, en ég álít það skyldu okkar, sem um þessi mál eigum að sjá, að reyna að láta sem allra flesta njóta þessarar hjálpar, hvort sem þeir eiga fyrir skuldum eða ekki. Má með einföldu dæmi sýna, að þetta er rétt.

Þegar Landsbankinn gefur út verðbréf, þá eru það vissir peningar. En af þeirri ástæðu einni, að féð er bundið, er það selt með e. t. v. 25–30% afslætti. Eins er það með bónda, sem skuldar 10 þús. kr. og telur sig eiga 10 þús. kr. Það er alls ekki víst, að sú eign sé vissir peningar, því að ef ætti að halda uppboð á eignum bænda í stórum stíl, þá mundi fara fjarri, að þeir fengju fyrir þær eins mikið verð og þær eru virtar á. Og þegar nú á að „konvertera“ þessum lánum yfir í kreppulán með lægri vöxtum, hvað er þá eðlilegra en að sjóðstjórnin heimili einhver svipuð og ekki minni afföll af þeim og þeim verðbréfum, sem Landsbankinn gefur út.

Ég álít það okkar fyrstu skyldu að heimta veruleg afföll af skuldunum, og það er enginn vafi á því, að flestir skuldheimtumenn viðurkenna, að þetta er rétt. Hversu mikils virði er það ekki fyrir þá að fá verðbréf Kreppulánasjóðsins í sínar hendur sem fullgildan gjaldeyri upp í skuldir. Við vitum, hvernig það gengur með gamlar verzlunarskuldir. Ég get nefnt sem dæmi verzlun í mínu kjördæmi, sem var rekin fyrir nokkrum árum. Þar söfnuðust miklar skuldir, og fyrir tveimur árum hætti hún og skuldirnar voru seldar. Og hvað voru Þær seldar dýrt? Þær voru seldar fyrir 10%. Og eins og skuldaeigendur hafi undir þeim kringumstæðum, sem hér um ræðir, minni ástæðu til að gefa eftir af skuldunum. Ég þykist vita, að hv. flm. gangi gott eitt til með þessari till., en ég vil slá því föstu, að ef á að auglýsa þá eina, sem eiga ekki fyrir skuldum, þá er þar með stór óleikur ger.

Hv. flm. sagði, að þetta væri ósanngirni í garð lánardrottna. Þar getur verið um ástæðu að ræða. En hinsvegar verð ég að benda hv. þm. á það, að þessi l. voru sett fyrst og fremst til að hjálpa bændum landsins, en ekki lánardrottnum. Ég hygg líka, að það hafi fyrst og fremst verið bændur, sem sendu hv. þm. A.- Húnv. á þing, svo að honum ber skylda til að hugsa fyrst og fremst um bændanna gagn. Tilgangurinn með þessari lagasetningu var fyrst og fremst sá, að hjálpa þessum mörgu þúsundum manna, sem eiga að sjá fyrir svo mörgum fjölskyldum, og koma atvinnu þeirra á fastan grundvöll.

Frá mínu sjónarmiði vil ég því segja það, að ég er reiðubúinn að greiða atkv. um þetta frv. þegar í stað. Ég er reiðubúinn að fella frv. þegar í stað, af því að ég álít, að það sé á misskilningi byggt. Hitt atriðið skal ég ekki tala um nú, hvort rétt sé að fela stjórn Búnaðarbankans þessi störf, en skal aðeins geta þess, að í n. var ég samþykkur því, sem þar var lagt til um það atriði.