06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, gerði hv. Ed. allmiklar breyt. á frv. um kosningar til Alþ. frá því, sem Nd. gekk frá því. N. fannst nú, að fæstar af þessum breyt. væru til bóta, og sumar beinlínis til lýta, og þess vegna hefir orðið samkomulag um það í stjskrn. að breyta frv. að talsverðu leyti frá því, sem Ed. samþ., og færa það að nokkru leyti í það horf, sem Nd. skilaði því í frá sér.

Þær brtt., sem stjskrn. stendur sameiginlega að, eru á þskj. 320, og vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um hverja þeirra fyrir sig, svo hv. þdm. megi vera ljóst, hvert n. stefnir í þessu máli.

Ég vil þá í öndverðu geta þess, að höfuðbreyt., sem n. ber fram, er sú, að hin ótakmarkaða heimild flokksstjórnanna til þess að raða á landslistana, sem felst í frv. eins og Ed. gekk frá því, skuli eigi haldast. Það varð samkomulag um þetta í n., en það samkomulag var byggt á því, að n. vildi reyna að tryggja það, að frv. þyrfti eigi að hrekjast í sameinað þing eftir meðferð Ed., og við töldum líklegt, að með þeirri brtt., sem við berum fram um þetta atriði, sé stefnt til samkomulags í málinu. Það verður því samkv. till. n. sama aðalreglan, sem gildir um landslistana, eins og áður var, er Nd. skildi við það, sem sé sú, að þeir skuli vera óraðaðir og eingöngu skipaðir frambjóðendum flokka í kjördæmum. Út frá þessu sjónarmiði er það, að 1. brtt. n. gerir ráð fyrir, að 3. málsl. 28. gr. falli niður, en þar var nefnilega gert ráð fyrir, að einhverjir gætu verið á landslista, sem ekki væru jafnframt í kjöri í kjördæmi.

2. brtt. n., er leggur til, að felld sé niður önnur málsgr. 29. gr., byggist á því sama.

Þá er 3. brtt. n„ við 30. gr., og er það aðalbrtt., sem felur það í sér, er ég áðan gat um, að heimildin til skilyrðislausrar röðunar á landslista skyldi eigi haldast. Það segir svo í þessari brtt., að orðalag 30. gr. skuli hvað snertir annan málsl., en hann skiptir hér fyrst máli, vera það, að á landslista séu nöfn frambjóðenda flokks í kjördæmum, þó eigi fleiri frambjóðenda úr neinu kjördæmi en þar á að kjósa þm. og varamenn. Ef nú eru fleiri frambjóðendur af hálfu flokks í kjördæmi en þar á að kjósa þm., sker flokksstjórnin úr því, hver eða hverjir skuli teknir á landslista. Það var nauðsynlegt að taka upp ákvæði um þetta, að einhver gæti skorið úr því, hvaða frambjóðendur skuli skipast á landslistann, ef fleiri eru í kjöri í einhverju kjördæmi af hendi sama flokks en kjósa á. Og það er auðvitað sjálfsagt, að flokksstjórnin geri það. Með þessu ákvæði er fyrirbyggð sú misbeiting, sem ýmsir hv. þm. hafa haft orð á, að gæti átt sér stað eftir að fellt væri niður ákvæðið, að til þess að mega bjóða sig fram undir nafni ákveðins stjórnmálaflokks þyrfti yfirlýsingu flokksstjórnar þess stjórnmálaflokks. Nú er það fyrirbyggt, þó einhver hefði tilhneigingu til þess að bjóða sig fram undir röngu flokksnafni, að þá geti sá frambjóðandi nokkur áhrif haft á það, hvernig uppbótarþingsætum flokksins verði skipað.

Í 3. málsl. 30. gr. eins og hún verður, ef brtt. n. nær fram að ganga, er veitt heimild til þess, að flokkur láti fylgja landslista sínum til landskjörstjórnar skrá yfir frambjóðendur flokksins í kjördæmum í þeirri röð, er flokkurinn óskar, að þeir hljóti uppbótarþingsæti. Þarna er flokksstjórnum veittur réttur til þess að hafa nokkra íhlutun um það, hvernig uppbótarþingsætin falla á einstaka frambjóðendur. Þetta er skýrt nánar með ákvæðum 128. gr., sem síðasta brtt. n. er við, og ætla ég að geyma frekari skýringu á því atriði þangað til ég kem að þeirri gr.

Þá er 4. brtt., við 51. gr., þar sem neðri hluti kjörseðilsins í landskjöri er minnkaður frá því, sem var. Það, að kleift er að minnka seðilinn, byggist á annari brtt., sem n. ber fram, sem sé þeirri, að ekki skuli heimilt að breyta neitt til á landslistanum. N. hefir þótt rétt að taka upp þetta ákvæði, en það kemur fram í 6. og 7. brtt. n., við 69. gr. og 89. gr. frv. Af þeirri ástæðu, að með því að hafa þá heimild, sem Ed. setti inn í frv., sem var sú, að kjósandi mætti aðeins skrifa eitt nafn á landslistann, var nokkur hætta á því, að það yrði til þess að eyðileggja áhrif hinna dreifðu byggða um það, hvernig uppbótarþingsætin skipast. Það er nefnilega ljóst, að ef Reykvíkingar hefðu almennt fylgt þeirri reglu að kjósa landslista og skrifa þá aðeins eitt nafn einhvers frambjóðanda flokks, þá hefðu þeir getað ráðið því að miklu og e. t. v. að öllu leyti, hvernig uppbótarþingsætin hefðu komið til að falla. Þetta hefir n. þótt óeðlilegt, fyrst og fremst af þessari ástæðu, og ennfremur af þeirri ástæðu, að slík heimild mundi gefa tilefni til, að stofnað sé til innbyrðis undirróðurs innan flokkanna um það, hverjir frambjóðendur flokks eigi að hljóta uppbótarþingsæti.

Þetta er hætta, sem mundi vofa jafnt yfir öllum flokkum, og okkur nm. hefir ekki þótt æskilegt, að slík barátta yrði tekin upp innan flokkanna.

5. brtt. n., við 54. gr. frv., byggist á þeirri breyt., sem ég síðast vék að, en auk þess er því bætt inn í gr., að landskjörstjórn skuli sjá um, að kjörseðlarnir séu gerðir á fyrirskipaðan hátt.

Það er augljóst, vegna þess að framboðsfresturinn er eigi nægilegur til þess, að hægt sé að prenta alla kjörseðlana hér í Rvík, að það þarf eitthvert vald að vera, sem hefir rétt og skyldu til þess að sjá um það, að prentun seðlanna sé framkvæmd á réttan hátt, og við álítum, að það sé eðlilegast, að það sé landskjörsstjórnin, sem það gerir.

Ég vék áðan að 6. og 7. brtt. n., sem báðar miða að því að fella úr einstökum gr. frv. þá heimild, sem Ed. lét vera í frv. til þess að gera þá breyt. á landslista, að kjósa einn frambjóðanda.

Um 8. brtt., við 110. gr., er það aðeins að segja, að það er orðabreyt., sem miðar að því að samræma gr. betur þeirri hugsun, sem henni liggur til grundvallar og jafnframt fellur betur í samræmi við ákvæði stjskr.

Um 9. brtt. er ennfremur það að segja, að hún er í samræmi við þá aðalbreyt., að ekki megi breyta neitt til á landslista.

10. brtt., við 112. gr., er aðeins orðabreyt., sem eigi þarf nánari skýringu.

Þá er 11. brtt., við 116. gr. Hún er sú, að við tökum aftur upp í frv. það ákvæði, sem Nd. hafði sett í það, hvernig atkv. skulu teljast frambjóðendum í Rvík. Ed. hefir gert þá breyt. á þessu, að atkv.tölur einstakra frambjóðenda á lista í Rvík voru lækkaðar að verulegum mun. Samkv. till. Ed. skyldi efsti maður hvers lista í Rvík ekki hljóta nema 12/78 hluta af því atkvæðamagni, sem listinn fékk í heild. Þessi brtt. Ed. var að nokkru leyti byggð á sérstakri reikningsaðferð, sem Ed. vill hafa á því, hvernig frambjóðendum reiknast atkv. til landslistasætis. En við höfum nú gerbreytt einnig þeirri reglu, og af þeirri ástæðu er eðlilegast, að frambjóðendum í Rvík séu talin atkv. eins og venja hefir verið, þannig að efsti maður hvers lista fær öll þau atkv., sem listinn hlýtur.

Ég vil geta þess, að þessi reikningsaðferð skiptir engu máli um það í rauninni, hvernig Reykvíkingar hljóta uppbótarþingsæti, þar sem það er gefið, að hver flokkur hefir a. m. k. líkindi til þess að fá eitt uppbótarþingsæti í Rvík, ef hann á annað borð á rétt til uppbótarþingsæta.

12. brtt. er aðeins formbreyting. Við viljum, að töluliðir séu teknir upp, af því að það eru töluliðir í öllum öðrum gr. frv., en ekki stafliðir eins og Ed. vill vera láta.

Þá er 13. brtt., við 128. gr. Þar er frá því skýrt, hvaða reglum skuli beitt til þess að finna, hvaða frambjóðendur flokks hafi náð uppbótarþingsæti. Við höldum í aðalatriðunum við þá reglu, sem Nd. hafði sett inn, að listar skuli óraðaðir og frambjóðendur skiptast á lista að lokinni kosningu, eftir þeirri reglu, sem kölluð hefir verið víxlreglan hér á þingi, sem er sú, að fyrsta sætið hljóti sá, sem hæsta atkv.tölu fær í kjördæmi, og annað sá, sem hlutfallslega hæsta atkv.tölu fær. En þó er sú breyt. á þessu gerð, að flokki er heimilt, eins og ég vék að í sambandi við 30. gr., að hafa sérstaka skrá, þar sem hann tilkynnir landskjörstjórn, í hvaða röð flokkurinn óski, að frambjóðendur skiptist á landslista að lokinni kosningu.

En íhlutun flokkanna um þetta er takmörkuð við það, að þeir megi ráða þriðja hverju sæti á landslista. Þeir mega ráða, hvernig fyrsta sætið er skipað, og svo fjórða og sjöunda sætinu o. s. frv. Og svo er ráð fyrir gert, að ef einhverjir af þessum mönnum, sem flokksstjórnirnar hafa skipað í þessu ákveðnu sæti, nái kosningu án íhlutunar flokksstjórnarinnar, þ. e. a. s. samkv. víxlkenningunni, þá skuli næsti maður flokksstjórnarinnar taka þetta sæti, sem þannig losnar á landslista. Þá er ennfremur fellt inn í þessa gr. það ákvæði, sem verið hefir í frv., að landskjörstjórn skuli gera þeim flokki, sem ekki hefir haft landslista í kjöri, uppbótarsætalista skipaðan frambjóðendum.

Ég hygg, að það sé ekki nauðsynlegt á þessu stigi að fara fleirum orðum um þessar brtt. n. Þær eru í rauninni aðeins tvær, sem verulegu máli skipta, í fyrsta lagi það, að afnema heimildina til þess að hafa raðaðan lista án nokkurra takmarkana, og í öðru lagi það, að leyfa ekki að gera þá breyt. á landslista, sem Ed. vill nú vera láta, að kjósandi skrifi nafn eins frambjóðanda á landskjörseðilinn. Og ég tel, að afnám þeirrar heimildar samsvari bæði orðalagi og anda stjskr. um það, að menn hafi ekki tvöfaldan kosningarrétt, bæði til landslistaíhlutunar og eins um að ákveða frambjóðendur í kjördæmum.

En áður en ég skilst við þessar sameiginlegu brtt., vil ég mælast til þess við hv. þdm., að þeir aðgæti það, að það er nokkur vandi á höndum um það, að þetta mál hrekist ekki mikið hér á þingi, og það, að frv. eins og það að lokum fer frá þinginu verði í fullkomnu samræmi bæði við stjskr. og eins í fullkomnu innbyrðissamræmi. Ég vil því mælast til þess við hv. dm., að þeir forðist að hleypa inn nokkrum breyt., sem gætu orðið til þess að hrekja frv., nema um sé að ræða ákvæði, sem nauðsynleg verða að teljast.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að þeim brtt, sem hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Eyf. bera fram á þskj. 321. Brtt. er sú, að frambjóðendum skuli raðað á kjörseðilinn eftir stafrófsröð þeirra. Ég hefi ekki aðgætt, hvort þeir hafa gætt þess að breyta öðrum ákvæðum frv. í samræmi við þessa brtt. sína; ég geri þó ráð fyrir því, þar sem hér er um glögga menn að ræða. En ég vil benda á það, að það er óeðlilegt að taka upp þessa breyt., af þeirri ástæðu, að það er ekki í sem beztu samræmi við neðri hluta seðilsins, sem er raðað eftir stafrófsröð flokkanna, og í frv. er gert ráð fyrir, að á efri hlutanum sé frambjóðendum einnig raðað eftir stafrófsröð flokkanna. Ég tel það eðlilegast, að sama reglan gildi um efri og neðri hluta kjörseðilsins.

Þá eru tvær aðrar brtt., sem fyrir liggja, önnur er á þskj. 323. frá hv. þm. N.-Ísf., við 127. gr. frv. Sú till. er mjög áþekk því, sem nú er í frv.; hina brtt., á þskj. 322, berum við fram, hv. 1. þm. Reykv., hv. þm. V.-Sk. og ég. Sú till. felur það í sér, að við útreikning þess, hvernig flokkarnir hljóti uppbótarþingsæti, skuli beitt sömu reglu og hingað til hefir gilt um hlutfallskosningar, og sömu reglu og gilt hefir um landskjörið og í Rvík. Okkur hefir talizt svo til, að þessar reglur séu almennt mjög réttlátar og tryggi nokkurnveginn réttlæti milli flokkanna, þó það hinsvegar verði að játa, að þegar búið er að úthluta uppbótarþingsætunum, þá verði það að jafnaði stærsti þingflokkurinn, sem flest afgangsatkv. hefir. En eftir því, sem okkur telst til, þá hefði þetta skipulag, sem við leggjum til, að lögfest verði, við undanfarnar kosningar nokkurnveginn leitt til réttláts fulltrúamagns á þingi, þegar miðað er við atkv. þeirra flokka, sem til greina koma við skipun þingsins. Við teljum því þessa till. fullkomlega réttláta og eðlilega út frá þeim reglum, sem áður hafa gilt um hlutfallskosningar, og leggjum við því eindregna áherzlu á, að hún nái fram að ganga.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að víkja frekar að þessu máli. En ég vil aðeins endurtaka þá ósk mína, að hv. dm. greiði fyrir sanngjarnri og réttlátri framgöngu þessa máls.