06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jakob Möller:

Hv. þm. N.-Ísf. endaði ræðu sína með því að beina orðum sínum til hæstv. forseta, og mér finnst þá hlýða, að ég byrji einnig mína ræðu með því að snúa mér til hins sama hæstv. forseta.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi halda því fram, að till. okkar á þskj. 322 sé jafnvel brot á stjskr. Ég á ákaflega erfitt með að átta mig á því, hvernig hv. þm. vill rökstyðja þessa staðhæfingu sína, og ég skil ekki heldur í því, að forseti geti fallizt á, að hún nái nokkurri átt. Till. fer fram á það, að uppbótarsætum sé úthlutað til þingflokka nákvæmlega eftir venjulegum reglum við hlutfallskosningar, einmitt nákvæmlega eftir þeim reglum um hlutfallskosningar, sem átt er við í stjfrv. sjálfu, þar sem talað er um hlutfallskosningar í Rvík. Munurinn á till. okkar á þskj. 322 og till. hv. þm. N.-Ísf. er enginn annar en sá, að hv. þm. N.-Ísf. vill við úthlutun uppbótarsæta nota heildaratkvæðatölu flokkanna og skipta uppbótarsætunum niður í hlutfalli við heildaratkvæðatölu þingmanna. En ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort þetta sé í fullkomnu samræmi við stjskr. og önnur ákvæði kosningal., sem beinlínis banna, að sami kjósandi hafi áhrif bæði á landskjör og kjördæmakjör. Sannleikurinn er sá, að með aðferð hv. þm. N.-Ísf. er mikill hluti af atkvæðamagni hvers flokks notaður tvisvar sinnum; fyrst og fremst til að kjósa þingmann í einstöku kjördæmi og í öðru lagi til að hafa áhrif á úthlutun uppbótarþingsæta til þingflokka. Þetta er bannað í öðru ákvæði kosningalaganna. Ég er hræddur um, að þetta komist miklu nær því að fara í bága við stjskr. heldur en till. okkar á þskj. 322, sem tekur frá nákvæmlega það atkvæðamagn hvers flokks, sem skapar honum rétt til uppbótarþingsæta. Það er ekki það atkvæðamagn, sem þarf til þess að koma að kjördæmakjörnum þingmanni, heldur það atkvæðamagn, sem verður umfram það, sem til þess þarf, sem kemur til greina í þessu efni. Það er ekki rétt að miða við annað en þetta atkvæðamagn, sem umfram verður, þegar uppbótarsætum er skipt á milli þingflokka, og það er einmitt gert ráð fyrir í okkar till., að þannig sé að farið. Till. okkar ákveður svo, að fyrst skuli finna meðaltal atkvæða á hvern kjördæmakosinn þm. hvers þingflokks, og að lægsta útkoman verði hlutfallstala kosninganna. Síðan á að margfalda þá hlutfallstölu með tölu kjördæmakosinna þm. þeirra flokka, sem hafa fengið hærri útkomur en hlutfallstöluna við deilingu, og draga útkomurnar frá samtölum atkvæða hvers þeirra flokka. Mismunur sá, sem þá verður eftir hjá hverjum flokki, er sú atkvæðatala, sem kemur til greina við úthlutun upppbótarþingsæta. Sú úthlutun uppbótarþingsæta á síðan að fara fram nákvæmlega eftir þeim reglum hlutfallskosninga, sem eingöngu hafa verið notaðar í hlutfallskosningum hér á landi, t. d. í hlutfallskosningum til bæjarstjórna og til Alþingis hér í Rvík. Ég tel því, að þessi aðferð, sem borin er fram till. um á þskj. 322, sé miklu nær anda og tilgangi stjskr. heldur en aðferð hv. þm. N.-Ísf., sem gengur í þá átt að nota sama atkvæðamagnið tvisvar.

Í sambandi við þetta vil ég vekja athygli á því, að þó að ég hafi mikla trú á stærðfræðingnum Þorkeli Þorkelssyni, þá gildir það ekkert um það, sem hv. þm. N.-Ísf. vitnaði i, að honum fyndist aðferð hv. þm. N.-Ísf. vera nær hlutfallskosningarhugmyndinni heldur en okkar aðferð á þskj. 322. Þarna kemur engin stærðfræði til greina hjá þessum manni, heldur einungis hans eigin tilfinningar, um það, hvað sé í anda hlutfallskosninga.

Ég vísa því undir dóm hv. þingmanna, hvor aðferðin af þessum tveimur sé nær anda venjulegra hlutfallskosninga, sem við höfum um hönd. Ég er ekkert hræddur um, að neinn geti komizt að nokkurri annari niðurstöðu en við á þskj. 322 höfum komizt að, að réttur hvers þingflokks til uppbótarþingsæta eigi að fara eftir því, hve hann hefir mikið atkvæðamagn umfram það, sem hann þarf að hafa til þess að koma að sínum frambjóðendum í kjördæmum, og að þingmannafjölgun hvers flokks með uppbótarsætum eigi að vera í réttu hlutfalli við þetta „umfram atkvæðamagn“.

Það, sem ég hefi nú tekið fram, er nægilegt til að rökstyðja þessa till. og til þess að andmæla till. hv. þm. N.-Ísf. og öllu því, sem sá hv. þm. hefir borið fram þessu viðvíkjandi. Sannleikurinn um þessar 2 till. er þessi: Okkar till. á þskj. 322 er byggð á veruleik, en till. hv. þm. N.-Ísf. er byggð á „fantasí“, eins og þeim möguleika, að hlutfallstalan geti orðið núll. Þetta lýsir því bezt, á hverju till. hans er byggð. Hún er byggð á stærðfræðiútreikningi, sem ekki getur komizt að í veruleikanum. Ef hv. þm. virkilega héldi, að hlutfallstalan gæti orðið núll, þá hefði verið sjálfsagt að gera ráð fyrir þeim möguleika í frv. En við höfum ekki séð ástæðu til að gera það, því að við álítum, að þau tilfelli heyri ekki veruleikanum til.

Þegar fyrst var farið að tala um þessa uppbótaraðferð í sambandi við kosningar í kjördæmum, þá var talað um, að ef uppbótarsætahugmyndinni ætti að vera fullnægt, þá gæti svo farið, að kjósa yrði 200–300 þm. Ef maður sleppir sér út í fantasíur, þá er þetta hugsanlegt. En það þarf ekki að gera ráðstafanir gegn því í l., sem engar líkur eru til, að geti komið fyrir. Ef slíkt væri hugsanlegt, þá væri sjálfsagt að fyrirbyggja það með sérstökum ákvæðum í frv.

Ég sé nú enga ástæðu til að fara langt út í útreikninga hv. þm. N.-Ísf. Ég get þó tekið eitt þeirra dæma, er hann nefndi. Í því gerði hann ráð fyrir því, að einn flokkur fengi 20000 atkv. og 20 þm. kosna, annar flokkur fengi 8000 atkv. og 4 þm. kosna, og þriðji flokkurinn 7000 atkv. og 14 þm. kosna. — Um þetta dæmi er nú fyrst og fremst það að segja, að það er fyrir utan allan þann raunveruleik, sem við þurfum að reikna með. Það er t. d. óhugsandi, að flokkur, sem einungis fær 7000 atkv., komi að 14 mönnum við kjördæmakosningar. Sama má segja um flokk, sem fær 8000 atkv. Það er líka nær óhugsandi, að hann komi ekki að nema 4 þm. Við skulum taka t. d. Alþfl., sem hefði eftir reglum kosningal.frv. fengið við síðustu alþingiskosningar 5 menn kosna. Þá fékk hann þó eigi meira en 6800 atkv. Það eru 1200 atkv. minna en hið tilbúna dæmi hv. þm. N.-Ísf. talar um, en 1 þm. fleira, sem ná kosningu heldur en sama dæmi tiltekur. Þetta sýnir strax, hve dæmi hv. þm. er fjarri veruleikanum. En þótt nú gengið væri inn á það, að dæmi hv. þm. ætti stoð í veruleikanum, þá verður samt útkoman, sem hann gerði ráð fyrir, sú, að sá flokkurinn, sem hann tiltók að fengi 20000 atkv., fær 7 uppbótarsæti, en sá, sem hafði 8000 atkv., fær 4 uppbótarsæti. Jú, maður sér nú strax, að 20000 atkv. er meira en helmingi meira en 8000 atkv., en að 7 er ekki helmingi meira en 4. En sleppum nú því. En sé nú athugað það atkvæðamagn, sem stendur bak við þessar tölur þm., 27 annarsvegar og 8 hinsvegar, þá fæst það út, að hjá þeim flokki, sem átti 8000 atkv., verður afgangsatkvæðatalan 4000, en hjá 20000 atkv. flokknum, sem fær 27 þm., eru það 6500 atkv., sem fá enga „repræsentation“. Þannig verður alltaf mun meira af atkv. ónýtt hjá stóru flokkunum. En vitanlega er það tilgangurinn, að allir þingflokkar fái sem jafnasta repræsentation fyrir sín atkv. Þarna vantar því verulega á, að stóru flokkunum sé fullnægt, því afgangsatkvæðamagn þeirra verður ávallt mun hærra en hjá litlu flokkunum. Þetta er nú eftir okkar till. En enn fjær fullu réttlæti um úthlutun uppbótarsæta fer þó brtt. á þskj. 323. Afgangsatkv. verða eftir henni enn fleiri hjá stóru flokkunum, en færri hjá litlu flokkunum. Á þessu byggjum við fyrst og fremst þessa till. okkar. Og við teljum hana í fullu samræmi við stjskr. og kosningal. að öðru leyti. Hv. þm. gerði í þessu dæmi sínu ráð fyrir því, að það gæti komið fyrir, að fleiri en tveir flokkar fái rétt til uppbótarþingsæta. Það er rétt, að þetta er hugsanlegt. En ef svo verður, hví á þá að fyrirbyggja möguleika fyrir því, að allir þeir flokkar verði uppbótar aðnjótandi, þótt hann geti sett upp dæmið svo, að einn flokkur verði útilokaður? En þetta fær hv. þm. með því að taka það sem gefið, er hann á að sanna.

Að svo stöddu mun ég ekki segja fleira, enda sé ég enga ástæðu til að teygja úr þessum umr.