06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jakob Möller:

Hv. þm. N.-Ísf. byrjaði ræðu sína á því að segja, að hann þyrfti ekki mörg orð til þess að hrekja rökfærslu mína. Ég játa nú að vísu, að hann viðhafði ekki neitt sérlega mörg orð, en það vantaði líka algerlega í ræðu hans, að hún næði yfirlýstum tilgangi. Hann sagði bara, að rök mín væru rökvilla. Þetta gat hann að vísu sagt, en það hrakti bara rök mín ekki nokkurn skapaðan hlut. Þau standa því algerlega óhögguð.

Ég skal enn nefna þetta dæmi, sem oft hefir verið nefnt: A. 20 þús. atkv. 20 þm„ B. 8 þús. atkv. 4 þm., C. 7 þús. atkv. 14 þm. Hlutfallstalan verður þá 500, en það er það atkv.magn, sem þarf til þess að gefa rétt til eins þm. A. hefir þá 10 þús. atkv. afgangs, en B. 6000. Þessar tölur eru þær einu, sem gefa rétt til uppbótarþingsæta. Ef þær hefðu ekki verið til, þá höfðu flokkarnir engan rétt til uppbótarþingsæta. Það er því í fullu samræmi við hlutbundnar kosningar, að uppbótarfulltrúunum sé skipað í þingsætin eftir þessum tölum.

Hitt dæmið, sem hv. þm. tók, er hreinasta rökvilla. Hann hugsar sér, að 12 menn eigi að kjósa, líklega í bæjarstjórn eftir hlutfallskosningu. Hann gerir ráð fyrir tveimur listum. Annar fær 18000 atkv., hinn 5000. Annar fær 8 fulltrúa, hinn 4. — Þetta er nú einmitt sú tala, sem þeir eiga að fá, og það er alveg eins og yrði með okkar reglu. En hvernig fer nú hv. þm. að því að hrekja þetta augljósa dæmi? — Jú, hann gerir það með því að setja inn í dæmið fyrirfram gefnar tölur. En hér er ekkert gefið fyrirfram. Með því móti verður dæmið hreinasta rökvilla. Útkomu sína fær hann með því að slá því föstu, að stærri flokkurinn hafi fengið 10 fulltrúa fyrirfram. Síðan tekur hann töluna 200 sem hlutfallstölu og með því getur hann svo fengið það út, að annar flokkurinn fái 11, en hinn 1 fulltrúa. Þetta er sú endileysa, að ekki þarf frekar orðum að því að eyða.

Um of lágar hlutfallstölur hefir verið talað áður, en hingað til hefi ég eingöngu haldið mig við veruleikann og því ekki séð neina ástæðu til að slá varnagla við því atriði.