06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Ég get verið stuttorður, enda vísað til ræðu hv. 1. þm. Reykv. Ég vil eins og hann benda á það, að samkv. till. okkar er ekki um neina óeðlilega hlutfallskosningu að ræða, heldur er nákvæmlega farið eftir þeim atkv., er flokkar eiga afgangs og ónotuð eru. Samkv. réttum reglum hlutfallskosningar er með því gætt fyllsta réttlætis um úthlutunina.

Það kann að vera hægt að setja upp dæmi líkt því, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir gert, en það má algerlega kippa fótunum undan þeim dæmum, með því að setja í frv. ákvæði um, að ákveðna lágmarkstölu þurfi til að mynda hlutfallstöluna, t. d. 1% greiddra atkv. um land allt. Með því væru algerlega útilokuð þau öfgadæmi, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir komið með og enga stoð eiga í reyndinni.

Ég hygg, að brtt. okkar sé í fyllra samræmi við stjskr. en sú brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. ber fram. Brtt. okkar miðar til þess, að það sé tryggt, að hundraðshluti sá, sem hver flokkur hefir af kjósendum landsins, gefi sama hundraðshluta þingmanna á Alþingi þjóðarinnar, og að sá flokkur, sem hefir meiri hl. kjósenda á bak við sig, hafi meiri hluta þingmanna, en það álít ég einn aðalhyrningarstein lýðræðis og þingræðis.

Ég vil benda á, að samkv. kosningunum 1931 og 1933 hefðu hlutfallstölur flokkanna verið þessar: Framsfl. hafði við báðar kosningar lægsta hlutfallstölu, við kosningarnar 1931 var hún 659. En eftir að búið hefði verið að úthluta hinum þingflokkunum uppbótarþingsætum, hefði hlutfallstala Sjálfstfl. orðið 8041/3, en Alþfl. 8852/7.

Hér er ekki mikið á mununum. Samkv. kosningunum 1933 var hlutfallstala Framsfl. 591, en eftir að uppbótarþingsætum hefði verið úthlutað, þá hefði hlutfallstala Sjálfstfl. orðið 686, en Alþfl. 762. Munurinn er ekki mikill, og þó að hann kunni að vera einhver, þá verður hann að víkja fyrir nauðsyn þess að tryggja svo sem frekast er unnt, að meiri hl. kjósenda ráði meiri hl. þingsins.

Skal ég þá ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég býst við, að allir hv. þm. hafi gert sér ljóst, hvað hér er um að ræða og að langar umr. hafi enga þýðingu til að sannfæra neinn. Ég vil að lokum minna á, að brtt. á þskj. 330, frá hv. þm. V.-Húnv. og fleiri, brýtur í bága við það samkomulag, sem við reyndum að koma á í n. Ég mun því greiða atkv. á móti henni.