06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

2. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (JörB):

Mér þykir leitt, hve mikið kapp menn leggja á, að atkvgr. fari fram nú þegar. Og ég vil vona, að hv. þm. G.-K. lifi það, að geta greitt atkv., þó atkvgr. fari ekki fram að þessu sinni. Þetta er höfuðmál þingsins, sem hér liggur fyrir, og er því ekki sambærilegt við önnur smærri mál. Um það mál, er hv. þm. Snæf. nefndi, bræðslustöðina á Vestfjörðum, er það að segja, að ég ætlaði mér að verða við óskum hans um að taka málið ekki fyrir, sakir þess að hann var fjarverandi. En því var harðlega mótmælt, að málið væri tekið út af dagskrá, af meira hl. þeirra manna, sem málið fluttu. Og þótt það kunni að vera þýðingarmikið, þá ætla ég þó, að það sé ekki sambærilegt við þetta mál. Eigi að síður ætlaði ég að verða við þessum tilmælum hv. þm., sökum þess að ég vil gjarnan taka eins mikið tillit til hv. þm. eins og mögulegt er. En þegar sterk mótmæli komu fram gegn því, að málið yrði tekið út af dagskrá, af hálfu nefndarinnar, sem málið flutti, þá sá ég mér ekki fært að taka það út upp á mitt eindæmi og bar það þess vegna undir d. og greiddi sjálfur atkv. með því, að málið yrði tekið út af dagskrá. Mér finnst því hv. þm. ekki hafa ástæðu til að finna að þessum gerðum, þótt ég ásamt honum væri borinn ofurliði.