06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

2. mál, kosningar til Alþingis

Ingólfur Bjarnarson:

Mér þykir furðu gegna það kapp, sem kemur hér fram hjá hv. sjálfstæðismönnum, að vilja endilega hespa þetta mál af nú í kvöld, og er það þó einmitt það málið, sem þinginu er stefnt saman til að afgr., og fyrir liggur beiðni frá meiri hl. n. um að fresta málinu. Það er vitað, að a. m. k. einn þm. er veikur og getur ekki komið til atkvgr. í kvöld. Það situr heldur illa á þeim, sem alltaf eru með réttlætismálin á vörunum, að vilja nú endilega hespa þetta mál af. Ég ætla ekki að fara að skora neitt á forseta í þessu máli. Ég veit, að hann gerir skyldu sína. En ég vil segja það við hv. þm. Snæf., sem fór að bera okkur Norðlendinganna fyrir brjósti, að hann þarf ekki að bera fram nein tilmæli, a. m. k. ekki fyrir mína hönd, um að ljúka þingstörfum mín vegna.