06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

2. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

Mér þótti hv. þm. S.-Þ. hitna þegar hann stóð upp, enda stendur hann ekki oft upp, svo að það bregður til tíðinda. Honum hefir runnið til rifja að afgr. mál í fjarveru manns, sem er veikur, en þegar ég bar fram kröfu um, að mál væri tekið út af dagskrá vegna þess, að einn maður var þá veikur, og það mál reið nú á 150 þús. kr. fyrir ríkissjóð, þá varð mér litið framan í hv. þm. S.-Þ., og mér virtist hann harla ljótur ásýndum. — Ég ætla nú samt að bera þann norðanþm., sem var að tala á eftir honum, fyrir brjósti. hv. 1. þm. Eyf., sem langar sérstaklega til að komast heim. (BSt: Það er hægt fyrir því). Ef ég verð veikur á morgun, þá geri ég ráð fyrir, að það verði gerður rammur skrækur að því, ef annar eins maður og ég verð ekki við. Ef ekki má afgr. málið þegar hv. 1. þm. S.-M. er veikur, þá vona ég, að hæstv. forseti úrskurði, að ekki megi afgr. það, ef þm. G.-K. er veikur. Ég vil skora á hæstv. forseta, að hann beri það undir d., hvort haldið verði áfram þar til yfir lýkur. Hann segist hafa gert það fyrr, og ég vona, að eins verði þá gert nú.