07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

2. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 337, við 54. gr. frv., um að síðari hl. 2. málsgr. ásamt 3. og 4. málsgr. þeirrar gr. falli niður. Þessi hluti gr., 54. gr., sem ég vil láta falla niður, er um það, að setja skuli við nafn hvers frambjóðanda á kjörseðilinn, hvaða flokki hann tilheyrir.

Þá hefi ég einnig á þskj. 321 borið fram brtt. ásamt hv. þm. V.-Sk., um að frambjóðendum skuli raðað á kjörseðil eftir stafrófsröð, en ekki eftir flokkum, eins og nú er ætlazt til samkv. frv.

Verði báðar þessar till. samþ., till. frá mér einum og till. frá okkur hv. þm. V.- Sk., þá mundi efri hluti kjörseðilsins líta út eins og kjörseðlar hafa litið út hingað til, þannig, að frambjóðendum væri raðað þar í stafrófsröð, án þess að aðrar reglur væru þar um. Þessa tilhögun verð ég að telja heppilegasta eins og nú er málum háttað.

Eins og hv. þdm. muna, þá var upphaflega ætlazt til eftir frv., að til þess að geta boðið sig fram fyrir stjórnmálaflokk þyrfti flokksstjórnin að viðurkenna framboðið. Þetta þótti ýmsum hv. þm. of ófrjálslegt og fannst flokksstjórnum með því gefið of mikið vald. Og ég skal játa það, að ég var í tölu þeirra þm., sem þannig litu á.

Þegar þetta frv. var hér fyrr til meðferðar í þessari hv. d., bar ég því fram brtt. ásamt hv. þm. V.-Sk., um að prófkosning flokksmanna í kjördæmi skyldi skera úr um það, hver væri löglegur frambjóðandi flokksins. Þetta hefði mér þótt sanngjarnasta og eðlilegasta lausn þessa atriðis, því að ég fæ ekki séð, hverjir eru réttbærari til þess að skera úr um það, hver eigi að vera frambjóðandi flokks í kjördæmi, heldur en einmitt flokksmenn þess hins sama flokks í því kjördæmi. En þessi till. okkar hv. þm. V.-Sk. kom ekki til atkv. í það skipti, sökum þess að önnur till. var samþ., sem gekk lengra í þessa átt, og var um það, eins og menn muna, að yfirlýsing frambjóðandans um það, í hvaða flokki hann væri, skyldi nægja. Eftir frv. eins og það er nú orðið getur því hver sem er boðið sig fram í hvaða flokki, sem hann vill. Menn geta því boðið sig fram samkv. frv. í þeim flokki, sem þeir eru alls ekki í, og þannig geta menn, ef svo ber undir, villt á sér heimildir. Mér finnst, hvað sem um þetta má segja að öðru leyti, að það sé alveg óþarfi, að kjörseðillinn sjálfur staðfesti yfirlýsingu slíkra manna, hvaða flokki þeir tilheyra, — manna, sem alls ekki eru í flokknum, heldur bjóða sig fram sem slíkir aðeins að yfirvarpi. Þess vegna vonast ég eftir, að till. mín verði samþ., þó að hún sé fullseint framkomin. Hún kemur þó í veg fyrir það, að menn geti notað kjörseðilinn til þess að villa á sér heimildir.

Um deilu þá, sem hér varð í gærkvöldi, skal ég ekki fjölyrða, enda býst ég við, að líta megi á það mál sem að mestu útrætt. Þessi deila hefir eingöngu verið á milli fulltrúa sjálfst.manna og jafnaðarmanna í stjskrn. Við framsóknarmenn í stjskrn. tókum ekki þar neina afstöðu til þessa deiluatriðis, enda var engin ástæða til þess að ætla, að þessar till. mundu koma fram, eftir starfi n. að dæma áður, og ég skal aðeins geta um það í þessu sambandi, að stjskrfrv. er nú búið að ganga í gegnum báðar d. án þess að þetta atriði hafi komið til greina.

Það hefir verið búizt við því af flestum mönnum, sem um þetta mál hafa rætt, að við framsóknarmenn mundum einskis í njóta af þessum uppbótarsætum. a. m. k. fyrst um sinn. Það var svo um tíma, að meðal margra manna af öllum flokkum var eins og enginn gæti hugsað sér, að kosningar gætu nokkurntíma farið öðruvísi í kjördæmunum en þær fóru 1931, því að við þær var allt miðað, og samkv. þeirri kosningu hefðum við framsóknarmenn ekkert uppbótarþingsæti fengið, eins og gefur að skilja. En vitanlega getur orðið breyt. á þessu fyrr en varir. En ég geri nú samt ráð fyrir því, að a. m. k. við næstu kosningar komi ekki til þess, að við framsóknarmenn fáum neitt uppbótarþingsæti, og þess vegna er engin ástæða fyrir mig að hafa nokkur afskipti af úthlutun þeirra með tilliti til nokkurra hagsmuna mínum flokki til handa. En úr því að uppbótarsætin eru veitt á annað borð, þá er rétt, að þau bæti virkilega úr því misrétti, sem á hefir þótt vera milli flokka í kosningum.

Alltaf undanfarið, þegar talað hefir verið um þetta misrétti milli flokka, hefir verið lögð áherzla á það, að misjafnlega margir kjósendur stæðu á bak við hvern þm. hvers flokks. Og þær till., sem fram hafa komið til umbóta í þessu efni, hafa allar verið um það, að minnka þennan mismun, og ég þori að fullyrða, að þetta var tilgangurinn með þeirri stj.-skr.breyt., sem samþykkt var á síðasta þingi og nú hefir verið gengið endanlega frá. Nú finnst mér fyrir mitt leyti alveg vafa- og tvímælalaust, að þessum tilgangi verður betur náð með till. hv. þm. N.-Ísf. á þskj. 323 heldur en með till. sjálfstm. í stjskrn. á þskj. 322. Mér virðist það ótvírætt, að með till. hv. þm. N.-Ísf. verði kosningin jafnari heldur en með hinni till., og það, að jafna kosningarréttinn, er það, sem barátta síðustu ára hefir snúizt um.

Mér virðist, að til þess að komast sem næst réttu hlutfalli milli kjósendafjölda og þingmannafjölda, þurfi niðurstaða allrar kosningarinnar að vera sem líkust niðurstöðu hlutfallskosningar, — sem líkust því, að landið allt væri eitt kjördæmi með hlutfallskosningu. En hv. sjálfstæðism. leggja til, að aðeins hluti kosningarinnar fari eftir reglum hlutfallskosninga. (JakM: Hvor hlutinn er það nú?). Það eru þessi afgangsatkvæði, sem þeir eru að tala um, en sem ég hefi ekki verulega skilið, hvað átt er við með, því það, sem hv. 1. þm. Reykv. kallar afgangsatkvæði, hefir áreiðanlega í sumum tilfellum orðið til þess að koma einhverjum þm. að, og það get ég ekki almennilega skilið, hvernig hægt er að kalla afgangsatkvæði.

Þeir leggja til, hv. sjálfstæðism., að áður en kemur til úthlutunar uppbótarþingsæta sé dregin frá flokksatkvæðunum hlutfallstala kosningarinnar margfölduð með þingmannátölu flokksins og uppbótarsætin aðeins reiknuð eftir þeim afgangi, sem þá verður. M. ö. o.: Þeir leggja til, að uppbótarsætin séu reiknuð út eftir hluta kosningarinnar Ef þetta er mesta réttlætið, þá er mjög vafasamt, að rétt hafi verið að fjölga þm. Reykv. Heldur hefði átt að verja þeim þingsætum til uppbóta samkv. þessari reglu. En þegar stjskrfrv. var hér til meðferðar á hæstv. Alþingi í fyrra, þá minnist ég þess ekki, að nokkur af þm. Sjálfstfl. kæmi fram með neina till. í þá átt, að þm. yrði ekki fjölgað hér í Rvík.

Það er sýnilegt, að regla sú, sem fram er sett í till. hv. sjálfstæðism. í stjskrn., gefur stórum flokki betri aðstöðu til uppbótarþingsæta heldur en litlum flokki, af þeirri einföldu ástæðu, að afgangstala hans verður að öllum jafnaði hærri heldur en hjá litlum flokki, jafnvel þótt litli flokkurinn hafi orðið fyrir meira ranglæti í kjördæmakosningunum heldur en stóri flokkurinn. Ég skal að vísu játa, að væru uppbótarþingsætin ótakmörkuð, kæmi þetta auðvitað í sama stað niður, því að þá mætti ná fullu jafnrétti með báðum þessum aðferðum. En nú eru uppbótarsætin takmörkuð samkv. stjskr., sem nýlega er búið að samþ., og samkv. því kosningalagafrv., sem hér liggur fyrir. Það kann vel að vera, að þau reynist nægilega mörg við næstu kosningar og fleiri kosningar þar á eftir, og þá er allt eins og það á að vera, en fari svo, að þau nægi ekki, þá hlýtur það með aðferð sjálfstæðism., „Möllers aðferðinni“ svo kölluðu, að ganga út yfir minnstu flokkana, sem rétt eiga til uppbótarsæta.

Ég hefi fylgt þeim breyt., sem nú er verið að gera á kjördæmaskipuninni, þó ýmsir litu svo á, að það væri á móti hagsmunum míns flokks. En ég hefi talið það rétt, að allir landsmenn hefðu sem jafnastan kosningarrétt. Ég hélt því fram þegar í kosningunum 1931, að kosningarréttur ætti að vera sem jafnastur. Ef því verður ekki trúað, má leita vitnis hjá hundruðum manna í Eyjafirði, sem mál mitt heyrðu á fundum þar. Minn flokkur hefir engra flokkshagsmuna að gæta nú í þessu máli, svo að sýnilegt sé. En ég vil, eins og ég hélt fram 1931, að sem mest réttlæti náist með þeim breyt., sem nú er verið að gera, og tel ég, að þannig komi þær að mestu gagni. Þetta tel ég, að náist bezt með till. hv. þm. N.-Ísf., og mun ég því fylgja henni.

Ég hefi viljað taka þetta fram um mína afstöðu, af því að ég hefi átt sæti í stjskrn., og í þessu efni hefir enn ekkert verið lagt til málanna frá hendi míns flokks. En ég geri ráð fyrir, að flokksbræður mínir í n. hafi sömu afstöðu og greiði atkv. með till.