07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Aðeins fáein orð til hv. 1. þm. Eyf. Hann var til að byrja með með allskonar útúrsnúninga úr ræðu minni. M. a. sagði hann, að ég hefði sagt, að þar sem flokkur sá, sem ég telst til, Sjálfstfl., væri heilbrigðasti stjórnmálaflokkur landsins, þá bæri honum að fá uppbótarþingsæti umfram það, sem kosningatölurnar vísuðu til. Þetta er bara rangfærsla hjá hv. þm. Það, sem ég hélt fram, var það, að þar sem Sjálfstfl. hefði óneitanlega mest traust allra stjórnmálaflokka landsins, þá bæri honum frekar að fá það uppbótarþingsæti, sem vafi gæti leikið á um, frekar en minnsta stjórnmálaflokki landsins. Þetta tel ég heldur ekkert vafamál.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að það væri óheiðarlegt af stjórnmálaflokki að vera í samvinnu við aðra stjórnmálaflokka, og minnti mig í því sambandi á samvinnu Sjálfstfl. og Alþfl. um stjórnarskrármálið. Þessu er því fyrst að svara, að ég sagði þetta aldrei. Ég finn heldur ekkert við það að athuga, þó að stjórnmálaflokkar séu í samvinnu um þau mál, sem eru þeim sameiginleg áhugamál. Hitt taldi ég óheiðarlegt, sem þessi hv. þm. og flokksmenn hans hafa gert, að vera í samvinnu við menn með andstæðar skoðanir, og verzla svo og verzla með sannfæringuna til skiptis.