13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

4. mál, samkomudag reglulegs Alþingis árið 1934

Ingvar Pálmason:

Ég hefi skilið þetta frv. svo, að það sé vegna sérstakra ástæðna fram komið, en að það sé ekki meiningin með því að láta ákvæði þess um samkomudag Alþ. gilda til frambúðar. En af því að mér skildist hv. frsm. víkja að því, að þessi samkomudagur mundi vera að ýmsu leyti heppilegur til frambúðar, vil ég lýsa skoðun minni á þessu strax.

Ég geng út frá því, að frv. þetta verði samþ., og álít ég það rétt, eins og sakir standa nú. Hinsvegar álít ég, að það mundi vera mjög misráðið að ákveða þennan samkomudag fyrir Alþ. til frambúðar. Það mundi vera mjög óhentugt vegna þm., sem búsettir eru utan Rvíkur, sérstaklega þeirra, sem sveitabúskap stunda, því að þeim mundi þykja illt að þurfa að vera að heiman frá búum sínum á tímabilinu frá 1. október til þess 20., og jafnvel til mánaðamóta, þegar haustannir eru mestar hjá þeim. Ég lít svo á, að bændum sé jafnvel hægra að vera að heiman um sláttinn. Þá er þannig háttað störfum á heimilum þeirra, að þau má nokkurn veginn ákveða fyrirfram. En hauststörfin eru svo margvísleg og tíð þá svo mislynd, að ómögulegt er fyrir bændur að gera nákvæmar ráðstafanir um haustverkin fyrirfram. Af þessum ástæðum álít ég haustið óhentugan tíma fyrir bændur til þingsetu.

Enda þótt sú nýbreytni verði gerð um afgreiðslu fjárl., sem í ráði er, hygg ég samt, að eftir reynslu síðari ára muni varla mega vænta þess, að Alþ. geti yfirleitt lokið sómasamlega störfum á svo skömmum tíma, að því geti verið lokið fyrir áramót, ef það byrjar ekki fyrr en 1. október, því að frá þessum 3 mánuðum er óhætt að draga 1½ viku vegna hátíðanna.

Það er mjög tvísýnn sparnaður að skera svo við nögl sér tíma þingsins, að mál geti fyrir þá sök dagað uppi eða liðið halla. Enda þótt Alþ. hafi að undanförnu staðið 3 mánuði ár hvert, hefir það oft orðið að skilja við mál án fullrar afgreiðslu.

Ég álít því, eins og kröfur tímans nú eru orðnar og störf þingsins eru orðin margbrotin, að það sé barnarskapur einn að halda því fram, að á því velti afskaplega mikið um fjárhagsafkomu ríkisins vegna kostnaðar við þinghaldið, hvort þingin standi nokkrum dögum lengur eða skemur. Það hefir lengi verið slegið á þá strengi, að þingin séu of löng, og slíkt hefir náð tilætluðum endurhljómi hjá þjóðinni. En ég álít, að réttara mundi vera að reyna að sannfæra kjósendur um það, að starfsvið þingsins er nú orðið gerólíkt því, sem var áður fyrr, og þingin nú geta því alls ekki komizt af með neitt svipaðan tíma og þá.

Um það, hvort þingin frá ári til árs geta lokið störfum svo við megi una tímans vegna á tímabilinu frá 1. okt. til 15. des. eða áramóta, ætti að fást nokkur reynsla á næsta þingi.

Annars finnst mér, að jafnvel geti komið til mála að skipta setutíma þingsins, kalla það fyrst saman á venjulegum tíma, 15. febr., og láta það standa þá svo sem einn mánuð, til þess að undirbúa lagafrv., og fresta því svo til 1. nóv. Ég skýt þessu fram lítt athuguðu og bið hv. dm. að misskilja það ekki þannig, að þeir haldi, að ég komi með beina till. um þetta. Þetta þyrfti vitanlega að athuga rækilega áður en horfið væri að því. En eins og ég hefi tekið fram, mun ég greiða atkvæði til samþykkis frv., eins og á stendur.