13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

4. mál, samkomudag reglulegs Alþingis árið 1934

Jón Jónsson:

Ég hefi skoðað það svo, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé flutt aðallega til þess að það sé ekki eins einskorðað eins og það er nú, að Alþ. komi saman 15. febr., en að bíða megi með að kalla það saman þangað til að afstöðnum kosningum.

Úr því að farið var að halda aukaþing, sem ég fyrir mitt leyti tel, að hafi verið mjög misráðið, er ég því mótfallinn, að Alþingi komi saman fyrr en eftir kosningar. Hinsvegar tek ég undir það, að tíminn, sem hér er tiltekinn, sé mjög óheppilegur fyrir þá þm., sem stunda sveitabúskap. Varla er nokkur tími á árinu óheppilegri fyrir þessa þm., sem tilheyra þó hinni fjölmennustu stétt landsins, bændastéttinni, heldur en einmitt tímabilið frá 1. til 20. október, vegna haustanna við slátrun sauðfjár og vegna ýmissa starfa til undirbúnings fyrir veturinn. Vil ég því mjög sterklega mótmæla því, að til þess sé hugsað að breyta þingtímanum þannig til langframa eins og farið er fram á í frv., að gert verði næsta ár. Enda er ekkert í frv., sem gefið geti það til kynna, að hér sé átt við slíka breyt., nema til eins árs.

Í þessu sambandi vil eg taka það fram, að ég er hissa á því, að í nál. er það aðallega talið til fyrirstöðu því að breyta þingtímanum til frambúðar svo sem farið er fram á í frv. þessu fyrir eitt ár — því til fyrirstöðu er það aðallega talið í nál., að þingi verði með því móti ekki ávallt lokið fyrir hátíðir. Vitanlega skiptir bæði það, er ég nefndi fyrr, o. fl. miklu meiru. Ég held, að skammdegið sé ekki heppilega valinn tími til þingsetu. Ég hygg, að við mennirnir séum svo háðir náttúrunni, að skammdegið muni hafa miður góð áhrif á starfsemi á þinginu. Menn eru þá ekki eins framgjarnir eins og um bjartari tíma ársins.

Svo að ég víki að bændunum aftur, þá álít ég þeirra vegna sýnu nær að heyja þing að sumrinu heldur en að haustinu, af þeim ástæðum, sem teknar hafa verið fram hér í hv. d., enda þótt ég hinsvegar játi, að sá tími er þeim ekki vel heppilegur né ýmsum öðrum framleiðendum.

Að endingu vil ég taka það fram, að ég hefi alls ekki séð þá ógnarannmarka á því að heyja þingið á sama tíma á árinu og verið hefir að undanförnu, og tel ég þann tíma allra tíma bezt til þess fallinn. Viðvíkjandi afgreiðslu fjárlaga á þeim tíma ársins er það að segja, að henni er lokið þó ekki nema part úr ári áður en fjárl. koma til framkvæmda. Veit ég ekki til þess, að þetta tímabil milli afgreiðslu og framkvæmdar fjárl. hafi nokkurntíma komið nokkurn hlut að sök.

Ég vil skjóta því til hæstv. stj., að hún, þó að frv. verði samþ., noti sér heimild þess til að hafa þingið heldur að sumrinu en að haustinu, t. d. að kalla það saman 1. júlí, sem hlyti að vera heimilt, ef frv. þetta verður samþ.