07.11.1933
Efri deild: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

7. mál, tolllög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Á undanförnum árum hefir staðið deila milli fjármálaráðuneytisins og tollstjóra annarsvegar og súkkulaðiverksmiðju hinsvegar um það, hvernig tolla skuli kakaódeig. Þetta hefir komið til álita þingnefnda, en þær hafa ekki viljað hverfa frá skilningi fjármálaráðuneytisins. Það þótti því rétt að lögfesta þennan skilning, sem fjmrn. og tollstjóri hafa haldið fram, samstundis og hæstaréttardómur féll í vil súkkulaðiverksmiðjunni. Er í bráðabirgðalögunum að nokkru breytt ákvæðum laganna frá 1921 og 1911 til að gera þau ótvíræð og í samræmi við þá framkvæmd, sem höfð hefir verið. Gera má ráð fyrir, að iðnaðarmenn snúi sér til nefndarinnar, og vil ég þá benda henni á að athuga t. d., hvort ekki myndi vera rétt að hafa lægri toll á kakaóbaunum en kakaódeigi, því rétt er að gera greinarmun á algerðum hráefnum og hálfunnum, og ekki vert að gera neitt, sem dregur úr íslenzkri framleiðslu.