07.11.1933
Efri deild: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

7. mál, tolllög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég geri ráð fyrir, að dómurinn kosti ríkissjóð um 12 þús. kr., sem er endurgreiðsla á tolli frá því að kært var og unz dómur var upp kveðinn. Hv. þm. var eitthvað að tala um, að vafasamt væri, að stj. mætti breyta þingviljanum, án þess að hann færði nokkur rök að því, að svo hefði verið gert. Ég skýrði frá því, að öll bráðabirgðalögin hefðu verið sett til samræmingar við þingviljann, og þegar lög frá Alþingi eru ekki lögð fyrir konung af því að þau eru gölluð, þá er það til að varðveita þingviljann. Þetta er því einhver aumasta „opposition“, sem ég get hugsað mér. Aðeins eitt frv. af þessum þremur snertir tekjuauka, og þar eru mistökin ekki teljandi, aðeins þau, að ekki hefir verið tekið nægilegt tillit til sambands milli tveggja frv. Þau mistök eru eins hv. 2. landsk. að kenna og öðrum þm.