06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

7. mál, tolllög

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. Reykv. vakti einmitt máls á því í ræðu sinni, sem mér þykir einna helzt athugavert við frv. En ég saknaði þess úr ræðu hv. frsm., að hann minntist á mótmæli þau frá Félagi íslenzkra iðnrekanda gegn sumum liðum frv., sem legið hafa fyrir Alþ. Það hefði verið ástæða til þess að ætla, að iðnn. léti sig slík mótmæli einhverju skipta. Ég tel það skyldu hennar að líta eftir því, að íslenzkum iðnaði sé ekki íþyngt með l., sem geri honum erfiðara fyrir í samkeppninni við erlendan iðnað. Nú hefir hv. 1. þm. Reykv. boðað það, að mér skilst, að hann, og ef til vill fleiri, myndu koma með brtt. við frv. við 3. umr. þessa máls hér. Ég get því látið frekari mótmæli bíða, þar til þær brtt. liggja fyrir.