14.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

18. mál, Neskaupsstaður síldarbræðslustöðvar

Jóhann Jósefsson:

Eins og hv. 1. þm. S.-M. tók fram, var sjútvn. mjög á einu máli um framgang þessa frv. Komu aðallega til greina orsakir, sem raunar liggja í augum uppi, en sem ég aðeins skal drepa á.

Í fyrsta lagi er sú ástæða, að eftir að það er sýnt, að síldin er ekki algerlega lögzt frá Austfjörðum, eins og menn höfðu ástæðu til að halda fyrir nokkrum árum, heldur er hún farin að leggjast að Austfjörðum aftur um visst tímabil ársins, þá er landsmönnum skylt að gefa gaum að því að styðja sem mögulegt er, bæði með opinberum ráðstöfunum og öðru, að því, að aflinn hagnýtist sem bezt, — og þá einkum og sér í lagi fyrir þann landshluta, sem hér er um að ræða. Og það er sannast að segja um Austfirði, að þeim veitir ekki af, að lögð sé stund á að hagnýta það, sem annars kann að geta fengizt úr sjó. Von er til þess, að einmitt í ár verði eitthvað að því gert að koma vetrarsíld — ef hún annars fæst — á útlendan markað meir en verið hefir. En hugmyndin um síldarverksmiðju á Norðfirði styðst og við það, að þar hefir verið rekin fóðurmjölsverksmiðja í tvö ár, af þeim aðilum, sem hér fara fram á stuðning ríkisins til að koma upp síldarbræðslu.

Verksmiðjunefndin skýrir svo frá, að verksmiðjan hafi verið rekin með góðum árangri. Og þegar svo hagar til, að það má með tilstyrk ýmissa þeirra véla, sem þarna eru notaðar nú, byggja upp að nokkru leyti síldarbræðslu, þá virðist það liggja í augum uppi, að rétt sé að greiða fyrir þessu frv. Áhættan er, eins og hv. frsm. tók fram, ekki mjög mikil fyrir ríkissjóð, og ábyrgðarupphæðin er 70 þús. kr. Hinsvegar yrði, með því að þetta mál kæmist í framkvæmd, fenginn ágætur prófsteinn á tiltölulega hagkvæman hátt, hvernig slík síldarvinnsla gæti gefizt á Austfjörðum.

Þessar höfuðástæður hafa þá valdið því, að sjútvn. leggur alveg einhuga með þessu máli. Og við vonum, að framkvæmdir verði það fljótar, að Neskaupstaður og aðrir, sem kunna að hafa gagn af þeim, fari að njóta þeirra á næsta ári.