21.11.1933
Efri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

18. mál, Neskaupsstaður síldarbræðslustöðvar

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Mér þykir rétt að láta þessu frv. fylgja nokkur orð strax við 1. umr., þótt ég geri raunar ráð fyrir, að því verði vísað til n., sem ég á sæti í.

Þegar það var ákveðið, um áramótin 1931—1932, að Neskaupstaður keypti fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar, var það fyrst og fremst gert með það fyrir augum, að hægt væri að koma upp víðtækum iðnaði úr sjávarafurðum í sambandi við verksmiðjuna, m. a. vinnslu síldar, sem mikið er af á Austfjörðum að vetrarlagi, en einkum þó vinnslu smáufsans, en það hefir verið svo undanfarið, að firðirnir hafa verið fullir af þessum smáufsa síðari hluta sumars, fyrri part vetrar og jafnvel fram á útmánuði, en eins og er, kemur smáufsinn ekki að notum nema í smáum stíl. Vil ég einmitt benda á þetta í sambandi við þetta mál, að það stendur öðruvísi á á Norðfirði en annarsstaðar, þar sem farið er fram á að reisa síldarverksmiðjur, að þessu leyti, að reksturinn verður þar margþættari en annarsstaðar á landinu. Þá má og benda á það, að það liggja fyrir sannanir um, að hægt er að koma þessum iðnaði úr sjávarafurðum upp á Norðfirði fyrir minni höfuðstól en annarsstaðar. Það liggja fyrir sannanir um það, að þessi viðbót við fóðurmjölsverksmiðjuna mun ekki kosta meira en 68—70 þús. kr., en með viðbótinni er hægt að vinna úr 200 —300 málum á sólarhring. Ég vil taka það fram, að bygging viðbótarinnar við verksmiðjuna er ekki aðallega miðuð við síldarvinnsluna, heldur fyrst og fremst við vinnslu smáufsans, og ef ufsamjölið heppnast, er viss fyrir það góður markaður.

Þeirri tilraun, sem þér er farið fram á að gera til eflingar atvinnulífinu á Austfjörðum, er mjög í hóf stillt, og eins og sakir standa virðist þetta einmitt vera eina ráðið, að gera meiri fjölbreytni í framleiðslunni og koma upp iðnaði, sem getur unnið úr þeim efnum, sem nú fara forgörðum.

Mér þótti rétt að láta þessi fáu orð fylgja frv. nú strax við 1. umr., en mun ekki fara frekar inn á málið að því er snertir áætlun um bygging og rekstur verksmiðjunnar, fyrr en málið kemur frá n.

Mál þetta er flutt eftir beiðni bæjarstj. í Neskaupstað, og hefir hún látið framkvæma allar nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings málinu, sem verða fengnar þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Varð það að samkomulagi milli okkar þm. S.-M., að málið væri borið fram í Nd. Þótti okkur það á ýmsan hátt hentugra, því að mál vilja jafnan dvelja þar lengi; bæði er málafjöldi þar meiri en hér, og d. enda miklu mannfleiri. Af þessum ástæðum er það heppilegt fyrir framgöngu mála, að þau séu borin fram í Nd. — Sjútvn. Nd. flutti málið, og var það afgr. í d. mótmælalaust. Vænti ég, að málið fái sömu undirtektir hér. Vil ég svo að lokum aðeins leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn. að umr. lokinni.