27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

18. mál, Neskaupsstaður síldarbræðslustöðvar

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa máls hér í d. færði ég nokkrar ástæður fyrir framkomu þessa frv., og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þær nú. Það er nokkuð mikið um ábyrgðarheimildir fyrir þessu þingi, en þessi hefir sérstöðu á meðal þeirra. Í fyrsta lagi er upphæðin ekki mjög stór, ef miðað er við verkefni fyrirtækisins, sem gert er ráð fyrir, að stofnað verði fyrir þetta fé. Í öðru lagi starfar nú þegar á staðnum allmyndarleg verksmiðja, sem getur komið að notum að miklu leyti með þeirri breyt., sem gert hefir verið ráð fyrir. Ég vil benda á það atriði, að öll líkindi eru til þess, að ríkissjóði aukist talsvert tekjur af framleiðslu þessarar verksmiðju. Árið 1932 starfaði fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar aðeins stuttan tíma. Það var fyrsta árið eftir að bærinn keypti hana, og vildu þá allir fara varlega í rekstrinum. Þó voru skattar þeir og tollar, sem greiddir voru af verksmiðjunni í ríkissjóð, um 3000 kr. Og þessir skattar og tollar eru algerlega fundið fé í ríkissjóði, því að þarna er um framleiðslu að ræða, sem annars hefði engin orðið. Sama skiptir um viðauka þann við verksmiðjuna, sem hér um ræðir. Það, sem vinnst af útflutningsvörum, er alveg viðbót við það, sem fyrir er í landinu. Ég vil ennfremur benda á það, að þarna, eins og víðar á Austfjörðum, er mikil þörf á því, að aðstaða sjávarútvegsins sé bætt, því að undanfarin ár hefir útgerðin gengið erfiðlega, og það sumstaðar svo, að allt virðist vera að fara í kaldakol. Og það er víst, að á einhvern hátt verður að hlaupa undir bagga með útveginum fyrir austan. Ég tel aðferð frv., þá, að styðja íbúana sjálfa til framkvæmda, hjálpa þeim með skynsamlegum lánum til að koma upp nýjum atvinnugreinum, þá heppilegustu. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að allir hv. dm. hafi opin augun fyrir því, að hér er um nytjafyrirtæki að ræða, og þó er öllu stillt í hóf með fjárbeiðnir, og það betur en tekizt hefir annarsstaðar, er um hliðstæð fyrirtæki hefir verið að ræða. — F. h. n. vil ég geta þess, að fyrir henni lá uppdráttur að þessum byggingarviðauka, og áætlaður byggingarkostnaður, byggður á tilboðum hvað hús og vélar snertir. Og þegar stærstu liðirnir eru þannig byggðir á föstum tilboðum, er lítil hætta á því, að mikið fari fram úr því í framkvæmdinni.

N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ., en meiri hl. vildi láta þess getið, og n. var raunar öll sammála um það, að taka beri öllum fáanlegum tryggingum fyrir ábyrgðinni. Því er það, að í nál. er stefnt að því, að tekin verði trygging í verksmiðjunni allri, líka þeim hluta hennar, sem þegar er til, að svo miklu leyti sem því verður við komið vegna skuldbindinga, sem nú þegar hvíla á verksmiðjunni. Ég skal geta þess, að í verksmiðjunni, sem nú þegar er til, á fiskiveiðasjóður 1. veðrétt fyrir 30 þús. kr. láni. Aftur á móti á dr. Paul aðeins 2. veðrétt fyrir láni sínu. Ég geri ráð fyrir, að svo væri hægt að koma því fyrir, að ríkissjóður eða sú lánsstofnun, sem féð léti af hendi, fái viðbótartryggingu í verksmiðjunni sjálfri. — Ég læt þetta nægja og vona, að þessi hv. d. sýni málinu sama skilning og hv. Nd. og sjútvn. þessarar d. þegar hafa gert.